- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Ingólfur fæddist 12. desember. Í drögum að blaðamannatali frá sjötta áratugnum kemur fram að hann hefur byrjað í blaðamennsku 1. júlí 1943. Upplýsingar hans fyrir blaðamannatalið eru ódagsettar, en fram kemur að hann er þá starfandi á Alþýðublaðinu. Fram kemur að áður hafi Ingólfur starfað í tæpt ár á Heimilisblaðinu Vikunni, en frá 10. maí 1944 á Alþýðublaðinu. Þá segir að hann hafi verið í stjórn Blaðamannafélagsins frá 1950, fyrst sem meðstjórnandi, en sem ritari 1951-1952. Í upplýsingum um helstu æviatriði kemur fram að Ingólfur fæddist á Hólslandi, Eyjarhreppi í Hnappadalssýslu. Foreldrar hans voru Kristján Pálsson og Danfríður Brynjólfsdóttir. Ólst upp í Hausthúsum, Eyjarhreppi, til 17 ára aldurs, hjá Jóni Þórðarsyni, bónda þar, og eiginkonu hans, Kristrúnu Ketilsdóttur. Fluttist til Reykjavíkur 1936. Hóf nám í hárskurði og lauk prófi frá Iðnskólanum í Reykjavík veturinn 1938-1939. Lagði iðnina á hilluna. Stundaði nám í námsflokkum Reykjavíkur í tvo vetur. Starfaði um skeið í Listmunahúsi Guðm. Einarssonar. Rit: Dagmál, æskuljóð 1941, Eldspýtur og títuprjónar, smásögur 1947, Birkilauf, kvæði 1948. Kvæntur Þuríði Hildu Hinriks, ættaðri úr Reykjavík. Börn: Unnur Björg og Anna Þuríður.
Í minningargrein um Ingólf í Morgunblaðinu 21. maí 1974 segir Guðmundur G. Hagalín að Ingólfur hafi starfað við Alþýðublaðið í samfellt í áratug. „Síðla á þeim áratug gafst honum kostur á að dvelja um skeið við nám í Svíþjóð og Noregi og ennfremur hafa nokkra viðdvöl í Danmörku. Í Noregi var hann við nám í blaðamennsku, og eftir dvölina þar var hann til æviloka fréttaritari blaða norska verkamannaflokksins,“ segir hann. Frá 1952-1954 var Ingólfur ritstjóri Heimilisblaðsins Hauks „og síðan í þrjú ár Sunnudagsblaðs Alþýðublaðsins og framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins var hann 1959—60. Þá gerðist hann ritstjóri og eigandi Eimreiðarinnar og var það í rúman áratug. Þá vann hann og við og við á Fréttastofu útvarpsins og var þingfréttaritari þess, enda tókst honum að þræða hinn mjóa stíg hlutleysis.“ Ingólfur var afkastamikill rithöfundur, virkur í samtökum rithöfunda og eftir hann liggja allmargar bækur, bæði æviminningabækur og listamannaþættir.