- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Hendrik segist fæddur í Vesturbænum í Reykjavík 8. október, og skrifar Vesturbænum með stórum staf. Í drögum þeim að blaðamannatali sem farið var að taka saman fyrst 1951 og lengi fram eftir sjötta áratugnum dagsetur hann umsókn sína um upptöku í Blaðamannafélag Íslands 13. desember 1951. Þar upplýsir hann að hann hafi orðið stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1918. Þá hafi tekið við hagfræði og síðar málanám við Kaupmannahafnar-háskóla og síðan lögfræði og guðfræði við Háskóla Íslanda (þó ekki í einu, segir hann), en hann hafi ekki lokið prófum. Þegar umsóknin er skrifuð starfar Hendrik hjá Fréttastofu útvarps, en fram kemur að hann hafi hafið störf í blaðamennsku á Alþýðublaðinu 1. október 1919, en síðan ekki fengist við blaðamennsku frá því að vori 1920 og þar til hann hóf störf á fréttastofunni 15. maí 1946. Í millitíðinni hafi hann starfað við kennslu og margt annað.
Hendrik tíundar helstu æviatriði sín af nokkurri gamansemi í umsókn sinni. „Um Hendrik er er fátt gott að segja, en margt misjafnt. Það skásta er: Tók fremur lélegt súdentspróf (haud illaud.), ennþá lélegra examen philosophicum (illaud). Var flestum kennurum til angurs. Föndraði frá æsku við stjórnmál. Var fyrst í Sjálfstæðisflokknum gamla, en gekk svo 1917 í Alþýðuflokkinn og var í honum til hausts 1930, er Kommúnistaflokkurinn var stofnaður. Stundaði nám í Kaupmannahöfn og síðar í Reykjavík. Fór til Rússlands árið 1920. Samdi rit, Ávarp til ungra alþýðumanna, 1923 og annað, Einar Nielsen, 1924. Hvort tveggja nauða ómerkileg plögg. Fékkst við málakennslu í Reykjavík 1926-1940 og þótti heldur góður kennari þótt sjálfur segi frá. Lenti í „ástandinu“ snemma árs 1941, fyrst hjá Hans Hátign Georgi VI og síðar hjá Franklin D. Roosevelt og var innsti koppur í búri hjá honum og að honum látnum hjá Harry S. Trumanni. Hóf starf á Fréttastofu útvarpsins eins og frá er skýrt. Hefi skrifað fjórar bækur síðan, Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands (1948), Gvendur Jóns og ég (1949), Gvendur Jóns stendur í stórræðum (1950) og Vegamót og vopnagnýr (1951). Fleira verður ekki talið.“
Hendrik Ottósson var sonur Caroline Siemsen og Ottós N. Þorlákssonar sem var fyrsti forseti Alþýðusambands Íslands. Á stríðsárunum starfaði hann fyrir breska hernámsliðið sem túlkur og síðan hjá bandaríska hernum eins og hann gefur glaðhlakkalega til kynna í æviágripi sínu hér á undan. Hendrik gaf út bókina Hvíta stríðið 1962, um átökin kringum mál rússnesks drengs með augnsjúkdóm, en Ólafur Friðriksson hafði tekið hann að sér og brást hart við þegar ákveðið var að senda drenginn úr landi. Naut hann liðsinnis Hendriks í því máli og fengu þeir báðir fangelsisdóma út af málinu, en dómunum var þó aldrei framfylgt.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=218692&pageId=2810984&lang=is&q=Hendrik%20Ott%F3sson
http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2010/09/08/gvendur-jons-og-hofundur-hans/