- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Haukur fæddist á Flateyri við Önundarfjörð, sonur hjónanna Snorra Sigfússonar, skólastjóra og síðar námsstjóra, og Guðrúnar Jóhannesdóttur. Hann fluttist með foreldrum sínum til Akureyrar. Hann lauk gagnfræðaprófi í Menntaskólanum á Akureyri, en fór síðan til Bretlands og lauk prófi í breskum samvinnuskóla. Eftir það starfaði hann um skeið hjá Kaupfélagi Eyfirðinga við gjaldkerastörf og fræðslustörf, en hóf síðan blaðamennsku við Dag á Akureyri undir ritstjórn Ingimars Eydal, en tók við ritstjórn blaðsins nokkru síðar. Haukur var síðan ritstjóri Dags á annan áratug. Ritstjóri Samvinnunnar var hann einnig um nokkurra ára skeið. Á Akureyri gegndi hann margvíslegum trúnaðarstörfum og átti sæti í menntamálaráði Íslands um tíma. Þá starfaði hann við heimssýninguna í New York 1939 sem einn af fulltrúum Íslands.
Haukur Snorrason varð ritstjóri Tímans árið 1956. Þá var blaðið stækkað verulega og breytt að ýmsu leyti undir forystu Hauks og miðuðu breytingarnar að því að auka mjög fjölbreytni blaðsins. Þótti hann leysa verkefnið af þrótti og hugkvæmni, enda fór orð af honum sem snjöllum blaðamanni. Hann féll óvænt frá á ferðalagi erlendis með fleiri íslenskum blaðamönnum.
Haukur Snorrason var faðir Hauks Haukssonar sem var einnig blaðamaður, lengstum á Morgunblaðinu.