- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Hannes fæddist á Brú í Biskupstungum. Hann var guðfræðingur að mennt, en eignaðist Þjóðólf, elsta blað landsins, sem stofnað var 1848, árið 1892, og varð jafnframt ritstjóri. Hann varð einn mesti áhrifamaður landsins upp úr aldamótunum 1900. Hannes var einn þeirra sex ritstjóra er undirrituðu Blaðamannaávarpið árið 1906, sem olli miklu umróti í sjálfstæðisbaráttunni um það leyti. Þjóðólfur þótti traust, gott, en íhaldssamt blað undir stjórn hans. Um aldamótin 1900 var blaðið orðið aðalmálgagn Heimastjórnarflokksins meðan Ísafold var málgagn höfuðandstæðinganna, Valtýinga. Árið 1909 seldi Hannes Þorsteinsson blað sitt eftir 18 ára starf í ritstjórnarstóli. Hann varð seinna þjóðskjalavörður. Hannes fékk boð um þátttöku í stofnun Blaðamannafélags Íslands, en mætti ekki og gekk aldrei formlega í félagið, enda átti hann um þetta leyti í harðvítugum málaferlum við einn helsta forgöngumann félagsins, Björn Jónsson í Ísafold. Hannes skrifaði sjálfsævisögu sem birtist ekki fyrr en löngu eftir hans dag vegna þess að hún þótti býsna opinská um menn og málefni og þótti útgáfa hennar nokkrum tíðindum sæta.