- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Hallur fæddist í Reykjavík 16. ágúst. Hann stundaði nám í Ágústarskóla (Gagnfræðaskóla Reykjavíkur) og að því er fram kemur í drögum að blaðamannatali sem byrjað var að taka saman á sjötta áratug síðustu aldar, hóf hann störf í blaðamennsku 1948. Hann er þá starfandi á Tímanum og hefur blaðamennsku og hljóðfæraleik að aðalstarfi. Umsókn hans um inngöngu í Blaðamannafélag Íslands er dagsett 29. september 1951 og hann kveðst hafa starfað hjá Tímanum í 15 mánuði, þar af sex á því ári sem umsóknin er send, en þar á undan hafi hann starfað í tíu mánuði á Sportblaðinu.
Um helstu æviatriði tiltekur Hallur m.a. að hann sé sonur Símonar Sveinbjörnssonar, skipstjóra, og eiginkonu hans, Ingibjargar S. Hallsdóttur. Stundaði nám í undirbúningsdeild Menntaskólans í Reykjavík 1940-1941, en settist næsta vetur í 1. bekk Gagnfræðaskóla Reykjavíkur. Tók gagnfræðapróf árið eftir og stundaði nám áfram í tvo vetur í skólanum, í þriðja og fjórða bekk. Síðan segir Hallur: „Hóf nám í kontrabassaleik 1945 og var í Tónlistarskólanum í Reykjavík veturinn eftir. Byrjaði að leika í danshljómsveitum 1947 og hef stundað þá atvinnu yfir vetrarmánuðina síðan. Stofnaði Jazzblaðið ásamt Svavari Gests 1948 og byrjaði það sumar að skrifa íþróttafréttir fyrir Tímann. Hef síðan starfað við Tímann yfir sumarmánuðina. Í vor hóf ég vinnu við blaðið í apríl og starfa þar enn.“
Við þetta er að bæta að Hallur var kunnur íþróttamaður, handhafi Íslandsmeta í frjálsum íþróttum, fyrirliði fyrsta Íslandsmeistaraliðs Víkings í handknattleik 1946 og hann var kontrabassaleikari í fyrsta KK-sextettinum sem var stofnaður árið 1947. Þá var hann um langt árabil í fremstu röð bridsspilara, margfaldur Íslandsmeistari og landsliðsmaður, en jafnframt liðtækur skákmaður. Hallur starfaði við blaðamennsku í rúm fimmtíu ár, á Tímanum í tvo áratugi en flutti sig síðan yfir á Vísi, þar sem hann skrifaði íþróttafréttir. Hann vann einnig á Alþýðublaðinu við almenn fréttaskrif um tveggja ára skeið, áður en hann hóf störf á Dagblaðinu þegar það var stofnað árið 1975. Starfaði Hallur þar og síðan á DV þegar það var stofnað og varð það hans starfsvettvangur allt til starfsloka.
Í minningargrein um Hall segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, að Hallur hafi verið félagi í Blaðamannafélaginu alla tíð og borið hag þess mjög fyrir brjósti. Líklega hafi enginn gegnt trúnaðarstörfum lengur fyrir félagið, en Hallur var endurskoðandi félagsins í yfir fjóra áratugi. Hann var sæmdur heiðursmerki Blaðamannafélags Íslands árið 1990 fyrir áratugastörf að blaðamennsku. Hann var einnig einn af stofnendum Samtaka íþróttafréttamanna árið 1956 og var sæmdur heiðursmerki samtakanna. Þá var hann sæmdur heiðursmerki Alþjóðasamtaka íþróttafréttamanna árið 1974, á fimmtíu ára afmæli samtakanna. Var Hallur undir lokin handhafi blaðamannaskírteinis nr. 3. Hallur Símonarson er faðir Halls Hallssonar, blaða- og fréttamanns.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=249121&pageId=3392609&lang=is&q=Hallur%20S%EDmonarson