Guðni Þórðarson (1923-2013)

Guðni fæddist 24. maí í Hvítanesi í grennd við Akranes. Hann stundaði nám í tvo vetur í Reykholtsskóla og einn vetur var hann í Samvinnuskólanum. Í drögum að blaðamannatali sem verið var að taka saman á sjötta áratug síðustu aldar kemur fram að Guðni hóf störf á Tímanum 1944 og þegar hann dagsetur inngöngubeiðnina í Blaðamannafélag Íslands 31. desember 1951 hefur hann allan þann tíma starfað á því blaði. Guðni var við blaðamennsku fram yfir miðjan sjötta áratuginn. Hann sótti á þeim tíma í tvígang námskeið í svokallaðri ljósmyndablaðamennsku (photo-journalism), en stétt blaðaljósmyndara var á þessum fyrstu árum Guðna í blaðamennsku tæpast orðin til og þurftu blaðamenn oft að sinna hvoru tveggja, að skrifa textann og taka ljósmyndir til að fylgja lesmálinu. Guðni var einn þessara blaðamanna og varð vegur hans sem ljósmyndara fljótlega ekki minni en blaðamanns. Þjóðminjasafn Íslands hefur haldið nokkrar sýningar á myndum Guðna, en hann færði Ljósmyndasafni Íslands filmusafn sitt 2004-2005.

Guðni var farinn að taka ljósmyndir fyrir blöð þegar árið 1946, en flestar filmurnar í safni hans eru frá árunum uppúr 1950. Blaðamennskan leiddi hann um landið þvert og endilangt og hann myndaði þorp og bæi, og fólk við störf til sjávar og sveita. Hann var virkur innan félagsstarfs blaðamanna og varaformaður Blaðamannafélagsins um skeið.

Guðni gerðist framkvæmdastjóri Tímans upp úr miðjum sjötta áratug síðustu aldar, en ekki löngu síðar tók hann að sér að skipuleggja hópferð fyrir Íslendinga til Parísar og áður en varði var hann  fyrir tilviljun - eins og hann hefur sjálfur sagt - orðinn einn helsti frumkvöðull landsins í slíkum skipulögðum ferðum til sólarlanda í gegnum ferðaskrifstofu sína Sunnu, sem varð mikið stórveldi um tíma. Guðni rak jafnframt á tímabili flugfélagið Air Viking til að annast þá fólksflutninga. Komið hefur út ævisaga hans og heitir Guðni í Sunnu.

http://is02.ecweb.is/saf/upload/files/saga_ferdathjonustunnar/nyju_vidtolin/saf-gudnithordarson_nyju.pdf

http://www.gudmundsson.net/index.asp?lesa=pistlar&p=nanar&i=446

http://www.frettatiminn.is/frettir/gudni_i_sunnu_aetlar_ad_na_i_rika_kinverja