- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Gils fæddist í Hjarðardal innri í Önundarfirði 31. desember. Foreldrar hans voru Guðmundur Gilsson og Sigríður Hagalínsdóttir. Gils ólst upp í foreldrahúsum við búskap og sjósókn. Hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1938, var kennari við Íþróttaskólann í Haukadal 1938-1940 og við unglingaskóla í Garði og Sandgerði 1940-1941. Gils vann við afgreiðslustörf í Sandgerði 1941-1943, en þá fluttist hann til Reykjavíkur. Þar hófst þá sá ferill sem varð meginþáttur í ævistarfi hans en hann tók að skrá margs konar þjóðlegan fróðleik og árin 1943-1956 stundaði hann aðallega ritstörf og blaðamennsku. Hann var ritstjóri Sjómannablaðsins Víkings árin 1945-1954. Gils var afkastamikill rithöfundur og meðal ritverka hans eru eftirfarandi bækur: Frá ystu nesjum, Skútuöldin, Öldin okkar, Öldin sem leið, Bára blá, Mánasilfur, Gestur og Þeir settu svip á öldina. Síðasta bók hans Í nærveru sálar: Einar Hjörleifsson Kvaran, maðurinn og skáldið, kom út 1997. Gils var formaður Rithöfundasambands Íslands 1957-1958 og forstjóri Menningarsjóðs 1956-1975.
Gils var einn af stofnendum Þjóðvarnarflokks Íslands, ritari hans 1953-1960 og síðan varaformaður 1960-1962. Gils var alþingismaður Reykvíkinga fyrir þann flokk 1953-1956 og alþingismaður í Reykjaneskjördæmi 1963-1979 fyrir Alþýðubandalagið. Hann sat 20 þing, var forseti neðri deildar Alþingis 1971-1974, fyrsti varaforseti sameinaðs Alþingis 1974-1978 og forseti þess 1978-1979. Gils sat í Norðurlandaráði 1971-1974 og 1978-1980, í stjórn Menningarsjóðs Norðurlanda 1974 og 1975, sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1970 og á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1974-1975.