- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Finnbogi Rútur fæddist í Skutulsfirði. Um Finnboga Rút var strax í æsku sagt að hann væri góðum gáfum gæddur og efni í afburða námsmann. Ýmsir urðu til að styðja Finnboga Rút til náms. Finnbogi Rútur nam þjóðarrétt og alþjóðastjórnmál í París, Genf og Berlín á árunum kringum 1930. Hann vakti athygli fyrir greinar sem hann skrifaði um suðupott Evrópu á þessum tíma og spáði valdatöku Hitlers. Jón Baldvinsson var formaður Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins, um þetta leyti og ásamt Héðni Valdimarssyni beitti hann sér fyrir því að Finnbogi Rútur yrði ráðinn ritstjóri Alþýðublaðsins árið 1933. Þá stóð Finnboga Rúti til boða að ganga í þjónustu Þjóðabandalagsins, en afréð að taka þessu boði og snúa heim til að ritstýra Alþýðublaðinu. „Og þar með hélt nútíminn innreið sína í íslenska blaðamennsku,“ segir bróðursonur hans, Jón Baldvin Hannibalsson, ritstjóri, í Aþýðublaðinu 1996. „Á ótrúlega skömmum tíma gerði Finnbogi Rútur þetta litla útkjálkablað að stórveldi í íslenskum stjórnmálum, sem ógnaði útbreiðslu Morgunblaðsins og tók því langt fram að efni og áhrifum. Dánartilkynningum og brullaupsfréttum var rutt af forsíðunni. Brotið var stækkað um helming. Innlendar og erlendar fréttir skipuðu öndvegi undir stórum fyrirsögnum. Pólitísk greining kom í staðinn fyrir trúboðsmærð og vanmetanöldur,“ segir Jón Baldvin sem er kannski ekki málið alveg óskylt.
Í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir! eftir Guðjón Friðriksson er þó slegið á svipaða strengi. Það hefði ríkt deyfð og doði á íslenskum blaðamarkaði í byrjun kreppuáranna, blöðin verið sviplítil og þunn og auglýsingar þakið forsíður þeirra allra: „Gekk svo fram til 1933, en þá kom ungur og djarfur maður sem fór eins og hvirfilbylur um íslenskan blaðaheim. Hann hét Finnbogi Rútur Valdimarsson og hafði stundað nám í mörgum af helstu stórborgum Evrópu, svo sem París, Genf, Berlín og Róm. Breytingarnar sem hann gerði á Alþýðublaðinu boðuðu nýja tíma í íslenskri blaðamennsku, þó ekki linnti að vísu tökum stjórnmálaflokka á dagblöðunum.“ Finnbogi Rútur Valdimarsson ritstýrði Alþýðublaðinu til 1938. Hann varð seinna bankastjóri Útvegsbankans, en þótti alla tíð hafa góð tengsl víða út í samfélagið. „Finnboga Rút var einatt lýst sem hinum dularfulla huldumanni íslenskra stjórnmála. Og það var hann,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson, bróðursonur hans. Tengdasonur Finnboga Rúts er Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins til margra ára, sem reyndar hefur fengið áþekkt orð á sig.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3349527
http://is.wikipedia.org/wiki/Finnbogi_R%C3%BAtur_Valdimarsson