- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í drögum að blaðamannatali frá því á sjötta áratug síðustu aldar er umsókn um upptöku í Blaðamannafélag Íslands frá Erlingi. Hann kveðst fæddur á Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd í Eyjafirði, eiga að baki nám í héraðsskóla og búnaðarskóla, hafa byrjað blaðamennsku 1950 og allan þann tíma verið á Degi á Akureyri.
Umsóknin er dagsett 15. febrúar 1956 og Erlingur kveðst þá auglýsingastjóri Dags. Meðmælendur á umsókninni eru Haukur Snorrason og Andrés Kristjánsson, báðir á Tímanum. Erlingur er skráður hafa gengið í félagið 19. nóvember 1956. Í upplýsingum um helstu æviatriði segir Erlingur: „Nám á Laugum í Reykjadal, síðan Hvanneyri og síðan Garðyrkjuskóla ríkisins. Síðar skólaráðsmaður á Laugum í fjögur ár. Þá við kornræktartilraunir hjá KEA á Akureyri í nokkur ár og eftir það fyrir garðyrkjustöð KEA á Brúnalaug í Eyjafirði. Þar til 1950, síðan hjá Degi á Akureyri. Giftur Katrínu Kristjónsdóttur frá Eyvík á Tjörnesi - fjögur börn - strákar.“ Af öðrum upplýsingum má sjá að foreldrar hans eru María Jónsdóttir og Davíð Sigurðsson, hreppsstjóri. Erlingur hefur fyrstu árin á Degi verið auglýsingastjóri, en um það leyti sem hann sækir um inngöngu í Blaðamannafélagið er Haukur Snorrason að flytjast suður til að taka við sem ritstjóri Tímans og Erlingur verður ritstjóri Dags. Gegndi hann því starfi til ársins 1979. Erlingur var einnig afkastamikill rithöfundur, en af verkum hans er líklega bókaflokkurinn Aldraðir hafa orðið kunnastur. Bók hans um Einar miðil frá Einarsstöðum var með söluhæstu bókum á bókamarkaði haustið 1979.