- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í drögum að blaðamannatali frá sjötta áratug síðustu aldar er umsókn frá Elínu um upptöku í Blaðamannafélag Íslands. Þar kemur fram að hún er fædd 31. janúar, er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947 og hefur stundað frönsku- og enskunám við Háskóla Íslands 1947-1948. Þegar umsóknin er rituð er Elín starfandi við Heimilisblaðið Vikuna, hefur starfað í blaðamennsku frá því í aprílmánuði 1952 og haft blaðamennsku að aðalstarfi síðan. Umsóknin um aðild að Blaðamannafélaginu er dagsett 18. apríl 1953 og sem meðmælendur skrifa undir hana Vilhjálmur S. Vilhjálmsson og Helgi Sæmundsson, báðir hjá Alþýðublaðinu.
Til viðbótar þessu kemur fram í upplýsingum hennar um helstu æviatriði að hún starfaði hjá utanríkisráðuneytinu 1948-1952 með sex mánaða leyfi 1949, er hún starfaði hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Elín starfaði við sendiráð Íslands í París 1950-1952.
Við þetta er því að bæta að í bókinni Íslenskir blaðamenn sem út kom á 110 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands er rætt við Elínu sem handhafa blaðamannaskírteinis nr. 4. Þar kemur fram að foreldrar hennar eru Tómasína Kristín Árnadóttir og Pálmi H. Jónsson, skrifstofustjóri. Elín var blaðamaður hjá Vikunni til ársins 1958, en réðst þá til Morgunblaðsins þar sem hún starfaði allt til ársins 1997 að hún komst á eftirlaunaaldur. Elín tók þátt í stjórnmálum, var m.a. borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1970-1982. Þá hefur hún látið umhverfismál mjög til sín taka, var m.a. formaður Náttúruverndarnefndar Reykjavíkur og umhverfismálaráðs 1970-1978 og átti sæti í Náttúruverndarráði um skeið. Elín hefur skrifað nokkrar bækur, m.a. sjálfsævisöguna Eins og ég man það þar sem hún lítur m.a. yfir farinn veg á blaðamennskuferlinum. Þá hefur Elín tekið þátt í starfi Blaðamannafélagsins með margvíslegum hætti og átti þar sæti í stjórn um tíma. Hún var handhafi blaðamannaskírteinis nr. 1 er hún lést.
http://www.reykholar.is/daetur_og_synir_heradsins/ur_ymsum_attum/Kannski_glorulaus_ofdirfska/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/03/22/elin_palmadottir_bilferju_thorf_ur_vesturbae/