- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Elías segist fæddur í Reykjavík 22. júlí í drögum þeim að blaðamannatali sem verið var að taka saman á sjötta áratug síðustu aldar, og varðandi skólanám nefnir hann Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og Kennaraskólann. Elías er starfandi á Þjóðviljanum þegar umsóknin um upptöku í Blaðamannafélag Íslands er skrifuð og hann kveðst hafa byrjað í blaðamennsku í ársbyrjun 1945. Aðalstarf síðan hafi verið þýðingar og ritstörf. Hann hafi starfað á Alþýðublaðinu 1. janúar 1945 til 30. júní 1946 og á Þjóðviljanum frá 6. febrúar 1953. Umsóknin er dagsett 20. maí 1953 og meðmælendur á umsókninni eru Sigurður Guðmundsson, Þjóðviljanum, og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Alþýðublaðinu. Um helstu æviatriði segir Elías: „Fæddur í Reykjavík 22. júlí 1924. Stundaði nám í Gagnfræðaskóla Reykjavíkur veturna 1939-1942 og Kennaraskóla Íslands 1942-1944. Vann jafnframt við kennslu og skrifstofustörf og verkamannavinnu á sumrin. Blaðamaður við Alþýðublaðið 1945-1946, hef auk þess þýtt að staðaldri sögur og greinar í ýmis blöð og tímarit. Blaðamaður við Þjóðviljann frá 6. febrúar 1953. Höfundur eftirtalinna bóka: Eftir örstuttan leik (skáldsaga, 1946), Man ég þig löngum (skáldsaga, 1949), Gamalt fólk og nýtt (smásögur, 1950), Vögguvísa (skáldsaga, 1950), Ljóð á trylltri öld (ljóð, 1951). Einnig þýtt skáldsöguna Óveðursnótt eftir Georges Duhammel (MFA, 1951) o.fl. Sat þing norrænna blaðamanna í Stokkhólmi haustið 1946 og þing þýzkra blaðamanna og kennara í Rostock haustið 1951.“
Við þetta er því að bæta að jafnframt ritstörfum vann Elías sem prófarkalesari á Þjóðviljanum um árabil. Hann var einn af stofnendum Rithöfundasambands Íslands 1974 og Finnlandsvinafélagsins Suomi 1949. Í kynningu á Elíasi á vef Blindrabókasafnsins segir m.a.: „Þekktustu verk hans eru skáldsögurnar Vögguvísa (1950) og Sóleyjarsaga (1954-1959), hvorutveggja samtíðarsögur úr Reykjavíkurlífinu og fjalla um áhrif hersetu á íslenskt mannlíf og málfar. Vögguvísa er nýstárleg bæði vegna efnis og forms. Hún er fyrsta sagan um afbrotaunglinga á Íslandi og þar er markvisst unnið með slangur. Kaflaskiptingin er óvenjuleg og fyrir bregður hugflæði í anda James Joyce. Sóleyjarsaga rekur sögu ungrar stúlku sem fer í hið alræmda „ástand“ og var sagan mjög umdeild á sínum tíma, sjónarhorn höfundar þótti mörgum full samúðarfullt. Elías var góður þýðandi og eru margir á því að þýðing hans og Magnúsar Jochumssonar á Vonin blíð eftir William Heinesen sé ekkert minna en meistaraverk.“
http://is.wikipedia.org/wiki/El%C3%ADas_Mar
http://ornbardur.annall.is/2007-06-06/elias-mar-1924-2007-skald/
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1150762/