- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Einar fæddist í Vallanesi á Héraði. Hann varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík og hóf síðan nám í hagfræði við Kaupmannahafnar-háskóla, en lauk ekki prófi. Einar hélt vestur um haf til Kanada og sneri sér að blaðamennsku, var lengi ritstjóri íslensku blaðanna vestanhafs en hélt heim til Íslands og varð árið 1885 meðritstjóri Björns Jónssonar á Ísafold. Það var í fyrsta sinn í íslenskri blaðasögu að ráðinn var blaðamaður við hlið ritstjóra að því er Guðjón Friðriksson segir í fjölmiðlasögu sinni Nýjustu fréttir! Koma Einars að Ísafold hafi um leið virkað sem vítamínsprauta fyrir blaðið, sem tók að brydda upp á nýmælum í blaðamennsku. Meðal nýjunga var að segja frá störfum Alþingis og birta palladóma um einstaka þingmenn, sem fóru öfugt ofan í marga og urðu til þess að meiri ólga færðist í þingstörfin og jafnframt íslenska blaðamennsku.
„Var Einari Hjörleifssyni ásamt Jóni Ólafssyni oft kennt um hinar óvægnu skammir og þrætur sem einkenndu íslensk blöð um og eftir aldamótin 1900. Þeir höfðu báðir skólast í Ameríku,“ segir Guðjón. Umræðuhefðin íslenska sem margir hafa bölsótast út í allt fram á þennan dag kann því eftir allt saman að hafa átt upphaf sitt í Ameríku!
Einar var einn Verðandimanna og þannig einn af upphafsmönnum raunsæisstefnunnar í bókmenntum á Íslandi. Síðar varð hann mikill spíritisti og einn stofnenda Sálarrannsóknarfélags Íslands, ritstýrði tímariti þess Morgni í mörg ár.
Eftir 19 ára eril bæði hér á landi og vestanhafs í blaðamennsku ákvað hann að snúa sér alfarið að öðrum ritstörfum. Um Einar segir Vilhjálmur Þ. Gíslason í Blöðum og blaðamönnum 1733-1944: „Hann hafði víða komið við á blaðamennskuárum sínum, aðallega frá 1988-1906. Hann var fimur málafylgjumaður og mjög vel ritfær, stílhagur og málsnjall. Eftir að hann ákvað að segja skilið við blaðamennskuna gaf hann út fimm skáldsögur, tvö leikrit og var um skeið leiðbeinandi Leikfélags Reykjavíkur.“
http://www.lestu.is/safn/Einar%20Hjorleifsson%20Kvaran/index.html