- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Einar fæddist á Elliðavatni, sonur Benedikts Sveinssonar, sýslumanns og alþingismanns. Hann varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1884, en hélt þá til Kaupmannahafnar til náms og lauk lögfræðinámi við Hafnarháskóla 1892. Hann var eitt af höfuðskáldum síns tíma, lögfræðingur, embættis- og athafnamaður, og ritstjóri, en gekk ekki í Blaðamannafélagið þó boðið væri. Hann stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, var sjálfur ritstjóri í tvö ár og skrifaði um stjórnmál, atvinnuvegi, bókmenntir og menningarmál af þrótti og eldmóði. Hann var meðútgefandi Landvarnar 1902, sem kom út í aðeins 10 tölublöðum. Síðar gaf hann út Þjóðina 1914-1915 og ritstýrði henni og stofnaði og kostaði Þjóðstefnu 1916-1917 og Höfuðstaðinn 1916-1917. Í fjölmiðlasögu sinni, Nýjustu fréttir!, segir Guðjón Friðriksson, sem jafnframt hefur skrifað ævisögu Einars, að það verði fyrst og fremst Dagskrá, fyrsta íslenska dagblaðið, sem muni halda nafni Einars Benediktssonar á lofti í blaðasögunni. Hann nefnir að við upphaf þriðja árgangs Dagskrár, sumarið 1898, hafi Einar í reynd viðurkennt að ekki væri hægt að gefa út dagblað á Íslandi og hefur eftir Einari: „Í raun réttri eru dagblöð í eiginlegum skilningi ómöguleg á Íslandi. Eiginleg dagblöð geta ekki átt sér stað nema þar sem viðskiptum og samgöngum er svo komið að nýjungar blaðanna geta haft áhrif á aðgjörðir manna til eða frá, menn geta hagað sér eftir þeim í daglegu lífi og haft gagn af þeim. En þessu er ekki svo háttað hér.“ Einar Benediktsson var því í þessu eins og mörgu öðru talsvert á undan sinni samtíð.