- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Axel fæddist í Reykjavík 5. mars 1895. Foreldrar hans voru Steingrímur Thorsteinson skáld, síðast rektor Lærða skólans í Reykjavík, og seinni eiginkona hans, Birgitta Guðríður Eiríksdóttir járnsmiðs Eiríkssonar í Stöðlakoti í Reykjavík. Axel var búfræðingur frá Hvanneyri, en hleypti síðan heimdraganum, var einn vetur í lýðháskóla í Noregi áður en hann brá sér 1918 vestur um haf til Bandaríkjanna og Kanada og gegndi hann um hríð herþjónustu fyrir Kanadaher. Við heimkomuna 1923 hófst blaðamannsferill hans, því hann hóf að gefa út Sunnudagsblaðið og tímarit að nafni Rökkur. Hann gerðist ári síðar fréttaritari fyrir The Chicago Tribune í tengslum við svokallað hnattflug þar sem Ísland kom við sögu. Í framhaldi af því tók Axel að sér að skrifa í Vísi og gerðist fastur blaðamaður 1925. Jafnframt tók hann við forstöðu Fréttastofu Blaðamannafélags Íslands og rak hana allt til þess að hún var lögð niður 1939. Hann varð fyrstur blaðamanna til að skrifa á ritvél, að því er fram kemur í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir! Árið 1938 varð Axel fréttamaður á Ríkisútvarpinu og gegndi því starfi til 1946. Hann sá þá einkum um stríðsfréttir. Hann hóf síðan aftur störf á Vísi og varð vararitstjóri blaðsins 1961, en sá jafnframt um morgunfréttir útvarpsins til 1977 og voru Lundúnafréttir sérgrein hans. Í fjölmiðlasögu sinni segir Guðjón Friðriksson: „Axel var allt frá árinu 1924 einn af helstu brautryðjendum í erlendum fréttaflutningi meðal íslenskra blaðamanna, einkum með því að hlusta á erlendar útvarpsstöðvar. Hann skrifaði og þýddi allmargar bækur.“ Axel skrifaði m.a. hálfrar aldar sögu Vísis, Óx viður af vísi. Axel var gerður að heiðursfélaga Blaðamannafélags Íslands árið 1970.