- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í drögum þeim að blaðamannatali sem farið var að taka saman snemma á sjötta áratug síðustu aldar kemur fram í umsókn Atla Steinarssonar um upptöku í Blaðamannafélag Íslands að hann hafi hafið störf hinn 1. júlí 1950 hjá Morgunblaðinu og hann er þar enn að störfum þegar umsóknin er send, en hún er ódagsett. Í helstu æviatriðum kemur fram að Atli fæddist í Reykjavík 30. júní 1929, foreldrar Steinarr St. Stefánsson, fulltrúi, og eiginkona hans, Ása Sigurðardóttir. Atli stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands 1943-50 og lauk þaðan stúdentsprófi. Innritaðist í læknadeild Háskólans 1950, en hóf jafnframt störf sem blaðamaður við Morgunblaðið og hefur starfað þar óslitið síðan, segir þar.
Því er við að bæta að Atli starfaði hjá Morgunblaðinu til ársins 1975. Hann fór þá á Dagblaðið og var þar til 1981. Þá fór hann á fréttastofu útvarpsins og var þar til 1986. Samhliða rak Atli og ritstýrði ásamt konu sinni, Önnu Bjarnason, Mosfellspóstinum í um sex ár.
Á árunum 1988 til 1997 var Atli í Bandaríkjunum sem sjálfstætt starfandi blaðamaður, en gerðist blaðamaður hjá Sunnlenska fréttablaðinu þegar hann sneri heim og var þar til 2005, að því er fram kemur í bókinni Íslenskir blaðamenn, en þar er rætt við Atla sem handhafa blaðamannaskírteinis nr. 2 á 110 ára afmæli Blaðamannafélagsins. Atli starfaði mikið fyrir Blaðamannafélag Íslands á árum áður og sat í stjórn þess frá 1956-1975. Hann var einn af fjórum helstu hvatamönnum að stofnun Samtaka íþróttafréttamanna, enda var hann umsjónarmaður íþróttafrétta Morgunblaðsins um árabil. Hann var formaður Samtaka íþróttafréttamanna í níu ár. Sjálfur var Atli góður íþróttamaður á yngri árum, var Íslandsmeistari í sundi og keppti á ólympíuleikunum í London 1948.