- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Árni fæddist á Víkingavatni í Kelduhverfi. Hann hóf störf í blaðamennsku við stofnun Morgunblaðsins og starfaði þar meira og minna til dánardægurs, 1979. Auk blaðamannsstarfans skrifaði hann fjölmargar bækur um efni nátengdu landi og þjóð. Árni var fyrsti blaðamaður landsins sem bar það starfsheiti, starfaði við Morgunblaðið 1913-1920 og sneri aftur til starfa hjá blaðinu 1926-1963, en var reyndar auglýsingastjóri þess árin 1936 til 1946. Í kveðjuorðum frá Morgunblaðinu á útfarardegi Árna Óla getur Matthías Johannessen, ritstjóri blaðsins, þess að Valtýr Stefánsson, ritstjóri og nánasti samstarfsmaður Árna um árabil, hafi minnst á í grein um Árna sjötugan að hvorugur þeirra hafi verið sérstaklega menntaður í blaðamennsku. Verður það Matthíasi tilefni til að draga upp þessa lýsingu á blaðamannastarfanum þegar hann bætir við:
„Það er og mála sannast, að enginn „lærir“ blaðamennsku, þó að undirstöðumenntun sé bæði góð og nauðsynleg í þessu starfi sem öðrum. Blaðamennsku verða menn að hafa í sér, ekki síður en ýmsar listgreinar. Menn geta lært ýmis tæknileg atriði, agað stíl sinn og lært að leika á tímann, þegar allt er á síðasta snúningi. En það, sem úrslitum ræður, kemur innan frá, jafnvel ómeðvitað. Þetta vissi Árni Óla öðrum fremur og átti til að minnast á þennan „galdur“, sem bæði getur orðið svartur eða hvítur, eftir atvikum. En þó er blaðamennska fyrst og síðast kröfuhart starf, sem kallar á góða heilsu og innra þrek, enda púl, erill og vökur og lítill friður og uppskeran einatt lítil sem engin, stundum kannski óánægjan og gagnrýnin ein.“ Árni varð formaður Blaðamannafélags Íslands þegar freistað var að endurreisa það 1933, en var litlu síðar gerður að auglýsingastjóra Morgunblaðsins svo að fyrir bragðið varð minna úr félagsstarfi en ætla má að til hafi staðið.
http://timarit.is/files/16055295.pdf#navpanes=1&view=FitH
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=117505&pageId=1514157&lang=is&q=%C1rni%20%D3la