- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í drögum að blaðamannatali frá því á sjötta áratugnum kemur fram að Árni er stúdent að mennt og hefur starfað á Alþýðublaðinu hluta árs 1954, en að fullu frá 1. febrúar 1955. Umsókn hans um upptöku í Blaðamannafélag Íslands er dagsett 28. nóvember 1955. Meðmælandi er Sigvaldi Hjálmarsson, Alþýðublaðinu. Í æviatriðum sem fylgja umsókninni kemur fram að Árni fæddist í Neskaupstað 3. nóvember 1932. Foreldrar hans eru Elín Guðjónsdóttir, fædd á Eyrarbakka, og Stefán J. Guðmundsson, húsasmíðameistari, fæddur í Norðfjarðarhreppi. Árni fluttist til Reykjavíkur 1935 og sama ár til Hveragerðis þar sem hann hefur átt lögheimili síðan, þ.e. þegar umsóknin er skrifuð. Skólanám stundaði Árni í Hveragerði, á Laugarvatni og við Menntaskólann í Reykjavík, en þaðan útskrifaðist hann 1953. Hann innritaðist í heimspekideild Háskóla Íslands sama haust og voru námsgreinar uppeldisfræði, mannkynssaga og landafræði. Sem sumarstarf til 1955 hafi hann stundað almenna verkamannavinnu, segir þar ennfremur.
Við þetta er að bæta að Árni hvarf frá blaðamennsku og fór til náms við háskólann í Stokkhólmi 1956-1961 og lauk þaðan fil.mag.-prófi í landafræði, sálarfræði, uppeldisfræði og félagsfræði 1961. Hann stundaði nám í landafræði og landafræðikennslu við Háskólann í Ósló 1977-1978.
Árni var stundakennari við Brännkyrka Läroverk í Stokkhólmi 1960, skólastjóri Gagnfræðaskólans á Selfossi 1961-1968, kennari við Kennaraskóla Íslands 1968-1973 og lektor við Kennaraháskóla Íslands frá 1973 til ársloka 2002. Stundakennari í landafræði við Háskóla Íslands 1973-1977. Hann var formaður landsprófsnefndar 1969-1973, var í prófanefnd menntamálaráðuneytisins 1973-1977 og formaður prófanefndar Kennaraháskólans frá 1978-2003.
Árni var um árabil sem leiðsögumaður og fararstjóri, bæði innanlands og utan. Á eigin vegum og með sínum nánustu fór hann á hverju sumri í gönguferðir um Ísland og ferðaðist mikið erlendis. Árni fórst í einu slíku ferðalagi, þegar hann var staddur á eyjunni Madeira í gönguferð vorið 2006. Árni var bróðir Unnars Stefánssonar, sem einnig gerðist blaðamaður á Alþýðublaðinu um skeið, en var síðan um langan aldur ritstjóri Sveitastjórnarmála., sjá meginkafla. Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2 er því bróðursonur Árna.