Fréttir

Átak gegn hatursáróðri í Evrópu

Átak gegn hatursáróðri í Evrópu

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hefur tekið undir með ítölsku samtökunum “Carta di Roma”  og fagnað frumkvæði blaðsins La Stampa í því að berjast gegn hatursáróðri.  EFJ, sem Blaðamannafélag Íslands er aðili að, hvetur aðildarfélög sín og meðlimi til að vera vakandi fyrir þeirri hættu að fjölmiðlaumfjöllun geti aukið misrétti og hatursáróður. Þessi yfirlýsing og þetta átak kemur í kjölfar mikillar umræðu og deilna um neyðarástand í innflytjendamálum í Evrópu. Ricardo Gutiérrez, framkvæmdastjóri EFJ, segir að “blaðamenn eigi að þora að standa upp og fordæma hartursáróður opinberlega. Þeir hafa siðferðilega skyldu til að standa gegn skilaboðum sem fela í sér rasisma og hvetja til haturs, móðgana eða ofbeldis í almennarými samfeálgsins.” Ítalska blaðið la Stampa hefur gripið til þess að ritskoða  athugsemdakerfi hjá sér og rasísk og hatursfull ummæli eru nú kerfisbundið fjarlægð af síðunni samhliða því að lesendur eru hvattir til að svara ekki slíkum ummælum en tilkynna þau þess í stað til ritstjórnar sem síðan fjarlægir þau. Sjá meira um  málið hér  
Lesa meira
Frá afhendingu verðlaunanna í fyrra.

Tilnefningafrestur að styttast!

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til Fjölmiðlaverðlauna sem afhent verða á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september í haust. Samhliða er auglýst eftir tilnefniningum til Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda til framtíðar. Óskað er eftir tilnefningum til beggja viðurkenninga í síðasta lagi 16. ágúst 2015. Tilnefningar með rökstuðningi sendist umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eða á netfangið postur@uar.isThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Lesa meira
Hér má sjá svör í frambjóðendakönnun fyrir sveitarstjórnarkosningar á Íslandi í fyrra um hvort þeir …

Dagblaðið í Noregi: Vill efla staðbundin skoðanaskipti

Útgáfufyrirtæki Dagblaðsins í Noregi hefur nú opnað nýjan vettvang á vefsetri sínu undir yfirskriftinni „staðbundnar skoðanir“, þar sem sérstakt átak er gert í því að efla staðbundna samfélagsumræðu. Tímasetningin miðast við það að í haust munu fram sveitarstjórnarkosningar. Sjálft skilgreinir útgáfufyrirtækið þetta sem einn mikilvægasta umræðuvettvang í norskum fjölmiðlum.  Dagblaðið hefur alla tíð við mikilvægur vettvangur þjóðfélagsumræðu og John Arne Markusson, sem ritstýrir þessum vettvangi, segir mikilvægt að umræða snúist um það sem sé nálægt fólki og skipti það mestu máli.  Dálkahöfundur og innblaðsstóri á blaðinu, Martine Aurdal, segir þetta vera spurningu um lýðræði og á þessum vettvagni verði rætt allt frá skólamálum til skipulangsmála og sumt muni koma fram í Dagblaðinu sjálfu og annað í öðrum gáttum.  Þess má geta að sveitarstjórnarmenn á Íslandi hafa stundum fjallað um að erfitt sé að fá umræðu um staðbundin mál í fjölmiðlum, sérstaklega landsdekkandi fjölmiðlum. Þetta mun m.a. koma fram í erindi sem flutt verður á ráðstefnunni NordMedia  í Kaupmannahöfn á laugardag, en þar er m.a. greint frá niðurstöðu úr spurningakönnun sem gerð var við Háskólann á Akureyri meðal frambjóðenda í 10 stórum og meðalstórum sveitarfélögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra. Þar kemur fram að meirihluti frambjóðenda, eða rúmlega 56% voru annað hvort mjög eða frekar ósammála fullyrðingunni „Ég er sátt(ur) við umfjöllun  landsdekkandi fjölmiðla um málefni sveitarstjórnarkosninganna í mínu sveitarfélagi.“   Sjá Staðbundnar skoðanir eða „Lokale Meninger“ hér   
Lesa meira
Ný könnun í BNA: Svartsýni á framtíð fréttaflutnings

Ný könnun í BNA: Svartsýni á framtíð fréttaflutnings

Fyrir helgina kynnti „American Press Institute“ niðurstöður könnunar meðal um 10.500 manns sem lokið höfðu prófi í blaðamennsku eða fjölmiðlafræði úr 22 háskólum í Bandaríkjunum. Þetta fólk er samkvæmt könnuninni frekar svartsýnt á þá stefnu sem blaðamennska hefur tekið almennt en flestir telja þó að verk þeirra sjálfra séu nú mun betri en þau voru fyrir fimm árum síðan. Í ljós kom að þrátt fyrir að aðeins um 41% þeirra sem svöruðu vinni beint við fréttir þá líta  stórir hópar sem vinna í öðrum geirum  ennþá á sig sem blaðamenn. Það á t.d. við um  22% þeirra sem vinna í viðskiptalífinu, 16% þeirra sem vinna hjá menntastofnunum og 14% þeirra sem vinna í stjórnmálum eða ráðgjafafyrirtækjum. Af þeim 36% heildarinnar sem eru í vinnu hjá fjölmiðlafyrirtækjum (ekki free-lance) eru 11% að vinna hjá dagblöðum, 6% á tímaritum, og 3% fyrir útvarp. Einungis 4% þessa hóps vinna hjá fyrirtækjum sem eru eingöngu á netinu. Í skýrslunni segir að það sé ríkjandi umtalsverð svartsýni um framtíð fréttamiðlunar. Alls eru aðeins um 17% svarenda þeirrar skoðunar að fréttaflutningur haf batnað á síðustu fimm árum en mikill meirihluti, eða 66% telur fréttaflutning hafa versnað. Þá kemur í ljós að um 57%  svarendanna telur að stærsta vandamálið sem fréttir og upplýsingaflæði standi frammi fyrir núna sé gríðarlegt flæði skoðana og rangra upplýsinga á netinu. Næst stærsta vandamálið er síðan úreltur efnahaggrunnur fyrir fréttir og framleiðslu ritstjórnarefnis.  Lesa má skýrsluna í heild sinni á pdf-formi hér  
Lesa meira
Leiðbeinandi reglur um samskipti fjölmiðla og lögreglu

Leiðbeinandi reglur um samskipti fjölmiðla og lögreglu

Mikil umræða hefur skapast um samskipti lögregluyfirvalda og fjölmiðla í tengslum við ákvörðun um að takmarka upplýsingar um kynferðisbrot á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina.  Í fréttum RÚV fyrir helgi kom fram að  ríkislögreglustjóri telur heppilegt að hafa samræmdar reglur um samskipti fjölmiðla og lögreglu og vísaði þá til þess að slíkar reglur hefðu verið settar  árið 2002.  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi mál ber á góma  og samskipti lögreglu of fjölmiðla hafa nokkurm sinnum verið í brennidepli m.a. í "líkfundarmálinu" á Neskaupstað sem svo var kallað og var þá einnig vísað í samskiptareglurnar sem settar voru  haustið 2002. Þetta voru reglur eða leiðbeiningar frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra vítt um landið um samskipti lögreglu og fjölmiðla. Ástæða er til að rifja upp þessar reglur - sem koma frá lögreglunni og eru ætlaðar lögreglunni. Hér á eftir fara orðréttar reglur sem Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sendi frá sér í október 2002:       Leiðbeiningar ríkislögreglustjóra um samskipti lögreglu og fjölmiðla 1. ALMENNT Mikilvægt er að samskipti lögreglu og fjölmiðla séu góð. Fjölmiðlar hafa hlutverki að gegna í þágu almennings í íslensku samfélagi með því að birta sannar og hlutlægar fréttir af atburðum líðandi stundar. Lögreglustjórar eru hvattir til að nýta sér samstarf við fjölmiðla til að tryggja samvinnu við borgarana um uppljóstran brota og annað sem máli kann að skipta varðandi framkvæmd lögreglustarfsins. Á grundvelli málefnalegra sjónarmiða skal lögreglan hverju sinni leitast við að greiða götu fjölmiðla við öflun upplýsinga um mál sem lögreglan hefur til meðferðar og almennt um málefni sem varða lögreglu. Í því sambandi ber að meta hvernig best verði komið til móts við þarfir fjölmiðla, þó þannig að gætt verði þeirra reglna sem gilda um rannsókn opinberra mála og hafa í för með sér takmörkun á aðgengi að vettvangi eða upplýsingum um stöðu rannsóknar. Mikilvægt er að í samskiptum lögreglu og fjölmiðla sé ávallt lögð áhersla á vinsamlegt viðmót og gagnkvæma virðingu. Fylgt skal lögum og siðareglum um störf lögreglu og fjölmiðla.   2. ÁBYRGÐ LÖGREGLUSTJÓRA Á SAMSKIPTUM IÐ FJÖLMIÐLA Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 49/2002 um starfsstig innan lögreglunnar er það á verksviði og ábyrgð hvers lögreglustjóra að koma fram fyrir hönd embættisins við fjölmiðla. Er það meginregla nema hann feli öðrum þessi samskipti. Lögreglustjóri skal mæla fyrir um hvernig háttað skuli samskiptum við fjölmiðla og ráðast þau nokkuð af stærð embættis og umfangi verkefna. Þar komi m.a. fram: 1. Hver hafi með höndum fyrirsvar embættisins. 2. Með hvaða hætti lögregla skuli haga samskiptum við fjölmiðla og aðgengi þeirra að vettvangi og nánari upplýsingum um málsatvik. 3. Með hvaða hætti upplýsingum er miðlað til fjölmiðla um mál sem eru til meðferðar hjá lögreglu.  4. Hvernig miðlað er til fjölmiðla almennum upplýsingum, sem þeir leita eftir um dagleg verkefni lögreglu, og upplýsingum, sem lögregla vill koma á framfæri við fjölmiðla. 5. Gæta skal trúnaðar- og þagnarskyldu lögreglu lögum samkvæmt.   3. UPPLÝSINGAR VEGNA STARFA LÖGREGLUNNAR 1. Lögregla metur hverju sinni hvort rétt sé að taka þátt í opinberri umfjöllun í fjölmiðlum. 2. Huga ber að því hvaða upplýsingar það eru sem lögregla getur veitt og hvort efni séu til að staðfesta þær sem réttar eða rangar. 3. Huga ber að því hvenær rétt sé að lögregla eigi frumkvæði að opinberri umfjöllun sem varðar störf hennar. Kemur þar m.a. til álita rannsókn flókinna og sérstæðra sakamála eða almennar upplýsingar til fræðslu fyrir almenning. 4. Þess skal gætt eftir föngum að upplýsingar sem látnar eru af hendi við fjölmiðla varði aðeins það sem lögregla telur rétt og heimilt að upplýsa um á því stigi. 5. Með ákveðnu fyrirkomulagi á miðlun upplýsinga til fjölmiðla, þar sem fáir eru í forsvari, er hægara að hafa stjórn á þeim upplýsingum sem lögregluembætti senda frá sér. 6. Lögregluembætti eru hvött til að nýta heimasíðu ríkislögreglustjórans (lögregluvefinn) til þess að koma upplýsingum á framfæri. 7. Það skal vera meginregla við upplýsingagjöf máls sem er til meðferðar hjá lögreglu, að sakborningar og þolendur séu ekki nafngreindir og að ekki séu gefnar upplýsingar sem tengja ákveðinn einstakling eða fyrirtæki við málið.Upplýsingar um það sem komið hefur fram við rannsókn, t.d. skýrslutökur, eru á ábyrgð lögreglustjórans sem ákæranda eða þeirra ákærenda sem hann hefur falið málið. 8. Á rannsóknarstigi máls skal lögregla almennt ekki lýsa meintri sök manna í einstökum atriðum; þó kann að vera rétt, eftir því sem við á, að staðfesta þegar maður hefur játað sök í máli. 9. Mælt er með því að lögreglustjóri sendi fjölmiðlum fréttatilkynningu þegar hann telur það hagfellt. Fréttatilkynning er til þess fallin að tryggja jafnræði með fjölmiðlum og koma á framfæri réttum og hlutlægum upplýsingum um málefni. Hún skal einnig bera með sér hvert beri að leita með ósk um frekari upplýsingar. 10. Þegar til umfjöllunar eru umfangsmikil eða sérstæð lögregluverkefni eru lögreglustjórar sjálfir hvattir til að veita fjölmiðlum viðtöl. 11. Eftirfarandi atriði skal lögreglustjóri einnig hafa í huga og taka afstöðu til eftir því sem við á: 11.1 Hverjar kunna að vera væntingar fjölmiðla og almennings? 11.2 Frá hvaða upplýsingum, sem liggja fyrir, má segja? 11.3 Munu upplýsingar frá lögreglu kalla á viðbrögð, þannig að lögreglan megi vænta frekari fyrirspurna? 11.4 á gera ráð fyrir því að einhver, sem málið varðar, muni láta aðra skoðun í ljós eða hafi aðra sýn en lögreglan á málið, sem lögreglan þarf að vera reiðubúin að bregðast við? 11.5 Er fjallað um upplýsingar sem kalla á samanburð af einhverju tagi, t.d. á milli ára, þannig að rétt sé að lögreglan geti fjallað um málið í víðara samhengi.    4. AÐKOMA FJÖLMIÐLA Það gerist að blaðamenn hafa samband við lögreglu á óheppilegum tíma fyrir lögreglu. Þá getur verið gagnlegt að fylgja eftirgreindum ráðum: 1. Spurningum fjölmiðla skal ekki svarað að óathuguðu máli. 2. Eftir því sem við á skal fréttamanni greint frá því að haft verði samband svo fljótt sem kostur er eða að séð verði til þess að það verði gert ef verkefnið skal leyst af öðrum. 3. Sá sem verður fyrir svörum skal vera þess fullviss að hann sé bær um að ræða málið. Vera kann að einhver annar hafi meiri þekkingu á málinu eða öðrum hafi verið falið að fjalla um það. 4. Nauðsyn kann að bera til að farið sé yfir mál með yfirmanni/lögreglustjóra áður en upplýsingar eru veittar fjölmiðlum. 5. Lögregla skal meta hvenær rétt sé að synja fjölmiðlum um upplýsingar. 6. Þegar til álita kemur að veita upplýsingar skal sá sem er fyrir svörum vera þess fullviss hverju beri að svara. 7. Frásögn lögreglu skal vera málefnaleg og hlutlæg. 8. Gera skal ráð fyrir því að allt sem sagt er kunni að verða notað í opinberri umfjöllun. 9. Stundum kann að vera nauðsynlegt í lok viðtals að árétta þau atriði sem mestu máli skipta. 10. Nauðsynlegt getur verið fyrir lögreglu að fá að heyra það sem haft verður eftir viðkomandi áður en það er birt. 11. Fréttir „off record” eru óheimilar.   5. STJÓRN LÖGREGLU Á VETVANGI OG SAMSKIPTI VIÐ FJÖLMIÐLA ÞAR   1. Lögregla skal auðvelda fjölmiðlum að sinna störfum sínum eftir fremsta megni. 2. Stjórnandi lögreglu á vettvangi, þar sem vænta má aðkomu fjölmiðla, skal gera ráð fyrir nærveru þeirra.  3. Það tilheyrir stjórn lögreglu á vettvangi að gera viðeigandi ráðstafanir um aðgang fjölmiðla að upplýsingum, eða e.a. einstaklingum. Fjölmiðlar eru ábyrgir fyrir því sem þeir birta og það er ekki hlutverk lögreglu að ákveða hvernig umfjöllun þeirra er háttað. 4. Ef lögregla lokar vettvangi (girðir hann af) er hann lokaður óviðkomandi innan þess svæðis og þar með fjölmiðlum. Ákvörðun um að loka vettvangi er jafnan tekin af rannsóknar-, öryggis- mannverndar- og velsæmisástæðum. Vettvangslokun skal vera sýnileg og kunngerð. 5. Aðgengi fjölmiðla að vettvangi og aðstaða þar skal hverju sinni ákveðin með ofangreind sjónarmið í huga og byggð á málefnalegum forsendum. Þegar aðgangur er bannaður eða takmarkaður skal fjölmiðlum gerð grein fyrir ástæðum þess eftir því sem tök eru á. Hafi fjölmiðlar aðgang að vettvangi og óska eftir myndatökum skal afla samþykkis stjórnanda lögreglu á vettvangi. 6. Almennt er lögreglu heimilt að veita stutt viðtöl um staðreyndir máls á vettvangi. 7. Jafnan skal fela einum manni að annast samskipti við fjölmiðla á vettvangi. 8. Kynna þarf fyrir þeim sem starfa á vettvangi hvernig háttað er aðgangi fjölmiðla að upplýsingum og einstaklingum vegna myndatöku eða viðtals. 9. Verði fjölmiðlum sérstaklega sköpuð aðstaða til myndatöku skal merkja staðinn. 10. Ekki skal fela fjölmiðlum að ljósmynda fyrir lögreglu. 11. Eftir því sem við getur átt skal gera fjölmiðlum grein fyrir því hvenær og hvar frekari upplýsingar um mál verða kynntar og hver annist kynninguna. 12. Myndatökur og viðtöl fjölmiðla inni í húsum, einkaheimilum eða fyrirtækjum eru háð samþykki viðkomandi húsráðanda og lögreglu meðan lögregla fer með stjórn á vettvangi. 13. Fjölmiðlum ber að hlýta fyrirmælum lögreglu á vettvangi.   6. VINNUHÓPUR RÍKISLÖGREGLUSTJÓRA Hjá embætti ríkislögreglustjóra starfar vinnuhópur sem hefur það hlutverk að fylgjast með því hvernig framkoma lögreglunnar við fjölmiðla er, og hvernig lögreglan framfylgir lögum, leiðbeiningum og starfsreglum sem henni eru settar. Leita skal samstarfs við fjölmiðla þegar þörf er á, jafnframt því verði eftir atvikum haldnir samráðsfundir með fulltrúum Blaðamannafélags Íslands. Ríkislögreglustjóri ákveður í erindisbréfi hvert sé hlutverk vinnuhópsins.   7. FYRIRMÆLI SEM RÍKISSAKSÓKNARI GEFUR ÚT Lögregla skal taka tillit til þeirra fyrirmæla og leiðbeininga sem ríkissaksóknari gefur   út, t.d. um aðgang fjölmiðla að ákæruskjölum fyrir dómsuppsögn.   Reykjavík, 16. október 2002  Haraldur Johannessen  
Lesa meira
Helgi H Jónsson

Helgi H Jónsson látinn

Helgi H. Jónsson, fyrrum varafréttastjóri Sjónvarpsins, er látinn sjötíu og tveggja ára að aldri. Helgi var blaðamaður á  Tímanum 1973 til 1976. Síðan fór hann að vinna hjá Ríkisútvarpinu og vann þar til ársins 2007.  Helgi varð varafréttastjóri Sjónvarpsins 1986 og um skeið fréttastjóri.    
Lesa meira

Ályktun frá BÍ og FF vegna Vestmannaeyja

Stjórnir Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna lýsa yfir furðu sinni á málflutningi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum og þeim sjónarmiðum sem liggja honum til grundvallar varðandi fréttaflutning af kynferðisbrotamálum sem upp kunna að koma á Þjóðhátíð.  Sú tilraun til þöggunar sem þar er lögð til er algerlega úr takt við þau meginsjónarmið um upplýsta og opna umræðu sem lýðræðissamfélög hljóta að styðjast við vilji þau standa undir nafni.  Það er skylda fjölmiðla að segja frá ofbeldisglæpum og það þjónar hagsmunum engra nema ofbeldismannanna að þegja um þá.  Um það þekkjum við því miður alltof mörg dæmi frá liðnum áratugum.  Það er engin betri aðferð til að fyrirbyggja og lágmarka ofbeldi heldur en að tala um það af hreinskilni.  Hvernig eigum við með öðrum hætti að takast á við fordóma og ranghugmyndir og fyrirbyggja gróusögur af öllu tagi?  Stjórnir BÍ og FF hvetja lögreglu og aðra viðbragðsaðila til þess að ræða þau ofbeldisbrot, kynferðisbrot jafnt sem önnur, sem upp kunna að koma á þjóðhátíð með opinskáum hætti með hagsmuni almennings að leiðarljósi.   Það er beinlínis samfélagsleg og lýðræðisleg skylda þeirra að greina skilmerkilega frá því sem gerist og fréttnæmt þykir á þjóðhátíð í þágu þeirra sem sækja hátíðina heim og heimamanna í Vestmannaeyjum. 
Lesa meira
Skiljanleg eftirgjöf?

Skiljanleg eftirgjöf?

 Þrátt fyrir mjög blendin viðbrögð við yfirlýsingu aðaritstjóra franska skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo um að blaðið myndi ekki teikna fleiri myndir af Múhameð spámanni, ákvörðun sem margir segja að sé sögulegur ósigur fyrir tjáningarfrelsið,  er umræðan um málið hvergi nærri hætt.  Þannig segir Michael Moynihan í áhugaverðri grein ákvörðunina vera skiljanlega og að það sé í raun leitt að hún sé rædd í upphöfnum tilfinningatón.    Sjá greinina hér  
Lesa meira
Umfjöllun Kastljóss  ekki brot á siðareglum

Umfjöllun Kastljóss ekki brot á siðareglum

 Kastljós braut ekki siðareglur Blaðamannafélags Íslands þegar það fjallaði um óhefðbundnar lækningar í þættinum 3. maí slíðastliðinn. Þetta er niðurstaða siðanefndar sem nú hefur birt úrskurð sinn.  Sjá úrskurðinn hér  
Lesa meira
Samningar við SA samþykktir

Samningar við SA samþykktir

Atkvæði voru greidd um kjarasamning Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem gerður var 2. júlí 2015 á kjörfundi 14. Júlí 2015. Á kjörskrá voru 365. Atkvæði greiddu 67 eða 18,4%. Já sögðu 61 eða 91,0%Nei sögðu 6 eða 9%Auðir og ógildir 0  Á sama tíma voru greidd atkvæði um fyrirtækjasamning við Árvakur:Á kjörskrá voru 85. Atkvæði greiddu 31 eða 36,5%Já sögðu 26 eða 83,9% Nei sögðu 5 eða 16,1%Auðir og ógildir 0 Þá voru einnig greidd atkvæði um sérsamning Blaðamannafélags Íslands við Birting.  Á kjörskrá voru 29.  Atkvæði greiddu 11 eða 37,9%.Já sögðu 11 eða 100%Nei sögðu 0 eða 0%   Þetta tilkynnist hér með. Virðingarfyllst,  Hjálmar Jónsson      
Lesa meira