Mikil umræða hefur skapast um samskipti lögregluyfirvalda og fjölmiðla í tengslum við ákvörðun um að takmarka upplýsingar um kynferðisbrot á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Í fréttum RÚV fyrir helgi kom fram að ríkislögreglustjóri telur heppilegt að hafa samræmdar reglur um samskipti fjölmiðla og lögreglu og vísaði þá til þess að slíkar reglur hefðu verið settar árið 2002. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi mál ber á góma og samskipti lögreglu of fjölmiðla hafa nokkurm sinnum verið í brennidepli m.a. í "líkfundarmálinu" á Neskaupstað sem svo var kallað og var þá einnig vísað í samskiptareglurnar sem settar voru haustið 2002. Þetta voru reglur eða leiðbeiningar frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra vítt um landið um samskipti lögreglu og fjölmiðla. Ástæða er til að rifja upp þessar reglur - sem koma frá lögreglunni og eru ætlaðar lögreglunni. Hér á eftir fara orðréttar reglur sem Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sendi frá sér í október 2002:
Leiðbeiningar ríkislögreglustjóra um samskipti lögreglu og fjölmiðla
1. ALMENNT
Mikilvægt er að samskipti lögreglu og fjölmiðla séu góð. Fjölmiðlar hafa hlutverki að gegna í þágu almennings í íslensku samfélagi með því að birta sannar og hlutlægar fréttir af atburðum líðandi stundar. Lögreglustjórar eru hvattir til að nýta sér samstarf við fjölmiðla til að tryggja samvinnu við borgarana um uppljóstran brota og annað sem máli kann að skipta varðandi framkvæmd lögreglustarfsins.
Á grundvelli málefnalegra sjónarmiða skal lögreglan hverju sinni leitast við að greiða götu fjölmiðla við öflun upplýsinga um mál sem lögreglan hefur til meðferðar og almennt um málefni sem varða lögreglu. Í því sambandi ber að meta hvernig best verði komið til móts við þarfir fjölmiðla, þó þannig að gætt verði þeirra reglna sem gilda um rannsókn opinberra mála og hafa í för með sér takmörkun á aðgengi að vettvangi eða upplýsingum um stöðu rannsóknar.
Mikilvægt er að í samskiptum lögreglu og fjölmiðla sé ávallt lögð áhersla á vinsamlegt viðmót og gagnkvæma virðingu. Fylgt skal lögum og siðareglum um störf lögreglu og fjölmiðla.
2. ÁBYRGÐ LÖGREGLUSTJÓRA Á SAMSKIPTUM IÐ FJÖLMIÐLA
Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 49/2002 um starfsstig innan lögreglunnar er það á verksviði og ábyrgð hvers lögreglustjóra að koma fram fyrir hönd embættisins við fjölmiðla. Er það meginregla nema hann feli öðrum þessi samskipti. Lögreglustjóri skal mæla fyrir um hvernig háttað skuli samskiptum við fjölmiðla og ráðast þau nokkuð af stærð embættis og umfangi verkefna. Þar komi m.a. fram:
1. Hver hafi með höndum fyrirsvar embættisins.
2. Með hvaða hætti lögregla skuli haga samskiptum við fjölmiðla og aðgengi þeirra að vettvangi og nánari upplýsingum um málsatvik.
3. Með hvaða hætti upplýsingum er miðlað til fjölmiðla um mál sem eru til meðferðar hjá lögreglu.
4. Hvernig miðlað er til fjölmiðla almennum upplýsingum, sem þeir leita eftir um dagleg verkefni lögreglu, og upplýsingum, sem lögregla vill koma á framfæri við fjölmiðla.
5. Gæta skal trúnaðar- og þagnarskyldu lögreglu lögum samkvæmt.
3. UPPLÝSINGAR VEGNA STARFA LÖGREGLUNNAR
1. Lögregla metur hverju sinni hvort rétt sé að taka þátt í opinberri umfjöllun í fjölmiðlum.
2. Huga ber að því hvaða upplýsingar það eru sem lögregla getur veitt og hvort efni séu til að staðfesta þær sem réttar eða rangar.
3. Huga ber að því hvenær rétt sé að lögregla eigi frumkvæði að opinberri umfjöllun sem varðar störf hennar. Kemur þar m.a. til álita rannsókn flókinna og sérstæðra sakamála eða almennar upplýsingar til fræðslu fyrir almenning.
4. Þess skal gætt eftir föngum að upplýsingar sem látnar eru af hendi við fjölmiðla varði aðeins það sem lögregla telur rétt og heimilt að upplýsa um á því stigi.
5. Með ákveðnu fyrirkomulagi á miðlun upplýsinga til fjölmiðla, þar sem fáir eru í forsvari, er hægara að hafa stjórn á þeim upplýsingum sem lögregluembætti senda frá sér.
6. Lögregluembætti eru hvött til að nýta heimasíðu ríkislögreglustjórans (lögregluvefinn) til þess að koma upplýsingum á framfæri.
7. Það skal vera meginregla við upplýsingagjöf máls sem er til meðferðar hjá lögreglu, að sakborningar og þolendur séu ekki nafngreindir og að ekki séu gefnar upplýsingar sem tengja ákveðinn einstakling eða fyrirtæki við málið.Upplýsingar um það sem komið hefur fram við rannsókn, t.d. skýrslutökur, eru á ábyrgð lögreglustjórans sem ákæranda eða þeirra ákærenda sem hann hefur falið málið.
8. Á rannsóknarstigi máls skal lögregla almennt ekki lýsa meintri sök manna í einstökum atriðum; þó kann að vera rétt, eftir því sem við á, að staðfesta þegar maður hefur játað sök í máli.
9. Mælt er með því að lögreglustjóri sendi fjölmiðlum fréttatilkynningu þegar hann telur það hagfellt. Fréttatilkynning er til þess fallin að tryggja jafnræði með fjölmiðlum og koma á framfæri réttum og hlutlægum upplýsingum um málefni. Hún skal einnig bera með sér hvert beri að leita með ósk um frekari upplýsingar.
10. Þegar til umfjöllunar eru umfangsmikil eða sérstæð lögregluverkefni eru lögreglustjórar sjálfir hvattir til að veita fjölmiðlum viðtöl.
11. Eftirfarandi atriði skal lögreglustjóri einnig hafa í huga og taka afstöðu til eftir því sem við á:
11.1 Hverjar kunna að vera væntingar fjölmiðla og almennings?
11.2 Frá hvaða upplýsingum, sem liggja fyrir, má segja?
11.3 Munu upplýsingar frá lögreglu kalla á viðbrögð, þannig að lögreglan megi vænta frekari fyrirspurna?
11.4 á gera ráð fyrir því að einhver, sem málið varðar, muni láta aðra skoðun í ljós eða hafi aðra sýn en lögreglan á málið, sem lögreglan þarf að vera reiðubúin að bregðast við?
11.5 Er fjallað um upplýsingar sem kalla á samanburð af einhverju tagi, t.d. á milli ára, þannig að rétt sé að lögreglan geti fjallað um málið í víðara samhengi.
4. AÐKOMA FJÖLMIÐLA
Það gerist að blaðamenn hafa samband við lögreglu á óheppilegum tíma fyrir lögreglu. Þá getur verið gagnlegt að fylgja eftirgreindum ráðum:
1. Spurningum fjölmiðla skal ekki svarað að óathuguðu máli.
2. Eftir því sem við á skal fréttamanni greint frá því að haft verði samband svo fljótt sem kostur er eða að séð verði til þess að það verði gert ef verkefnið skal leyst af öðrum.
3. Sá sem verður fyrir svörum skal vera þess fullviss að hann sé bær um að ræða málið. Vera kann að einhver annar hafi meiri þekkingu á málinu eða öðrum hafi verið falið að fjalla um það.
4. Nauðsyn kann að bera til að farið sé yfir mál með yfirmanni/lögreglustjóra áður en upplýsingar eru veittar fjölmiðlum.
5. Lögregla skal meta hvenær rétt sé að synja fjölmiðlum um upplýsingar.
6. Þegar til álita kemur að veita upplýsingar skal sá sem er fyrir svörum vera þess fullviss hverju beri að svara.
7. Frásögn lögreglu skal vera málefnaleg og hlutlæg.
8. Gera skal ráð fyrir því að allt sem sagt er kunni að verða notað í opinberri umfjöllun.
9. Stundum kann að vera nauðsynlegt í lok viðtals að árétta þau atriði sem mestu máli skipta.
10. Nauðsynlegt getur verið fyrir lögreglu að fá að heyra það sem haft verður eftir viðkomandi áður en það er birt.
11. Fréttir off record eru óheimilar.
5. STJÓRN LÖGREGLU Á VETVANGI OG SAMSKIPTI VIÐ FJÖLMIÐLA ÞAR
1. Lögregla skal auðvelda fjölmiðlum að sinna störfum sínum eftir fremsta megni.
2. Stjórnandi lögreglu á vettvangi, þar sem vænta má aðkomu fjölmiðla, skal gera ráð fyrir nærveru þeirra.
3. Það tilheyrir stjórn lögreglu á vettvangi að gera viðeigandi ráðstafanir um aðgang fjölmiðla að upplýsingum, eða e.a. einstaklingum. Fjölmiðlar eru ábyrgir fyrir því sem þeir birta og það er ekki hlutverk lögreglu að ákveða hvernig umfjöllun þeirra er háttað.
4. Ef lögregla lokar vettvangi (girðir hann af) er hann lokaður óviðkomandi innan þess svæðis og þar með fjölmiðlum. Ákvörðun um að loka vettvangi er jafnan tekin af rannsóknar-, öryggis- mannverndar- og velsæmisástæðum. Vettvangslokun skal vera sýnileg og kunngerð.
5. Aðgengi fjölmiðla að vettvangi og aðstaða þar skal hverju sinni ákveðin með ofangreind sjónarmið í huga og byggð á málefnalegum forsendum. Þegar aðgangur er bannaður eða takmarkaður skal fjölmiðlum gerð grein fyrir ástæðum þess eftir því sem tök eru á. Hafi fjölmiðlar aðgang að vettvangi og óska eftir myndatökum skal afla samþykkis stjórnanda lögreglu á vettvangi.
6. Almennt er lögreglu heimilt að veita stutt viðtöl um staðreyndir máls á vettvangi.
7. Jafnan skal fela einum manni að annast samskipti við fjölmiðla á vettvangi.
8. Kynna þarf fyrir þeim sem starfa á vettvangi hvernig háttað er aðgangi fjölmiðla að upplýsingum og einstaklingum vegna myndatöku eða viðtals.
9. Verði fjölmiðlum sérstaklega sköpuð aðstaða til myndatöku skal merkja staðinn.
10. Ekki skal fela fjölmiðlum að ljósmynda fyrir lögreglu.
11. Eftir því sem við getur átt skal gera fjölmiðlum grein fyrir því hvenær og hvar frekari upplýsingar um mál verða kynntar og hver annist kynninguna.
12. Myndatökur og viðtöl fjölmiðla inni í húsum, einkaheimilum eða fyrirtækjum eru háð samþykki viðkomandi húsráðanda og lögreglu meðan lögregla fer með stjórn á vettvangi.
13. Fjölmiðlum ber að hlýta fyrirmælum lögreglu á vettvangi.
6. VINNUHÓPUR RÍKISLÖGREGLUSTJÓRA
Hjá embætti ríkislögreglustjóra starfar vinnuhópur sem hefur það hlutverk að fylgjast með því hvernig framkoma lögreglunnar við fjölmiðla er, og hvernig lögreglan framfylgir lögum, leiðbeiningum og starfsreglum sem henni eru settar. Leita skal samstarfs við fjölmiðla þegar þörf er á, jafnframt því verði eftir atvikum haldnir samráðsfundir með fulltrúum Blaðamannafélags Íslands. Ríkislögreglustjóri ákveður í erindisbréfi hvert sé hlutverk vinnuhópsins.
7. FYRIRMÆLI SEM RÍKISSAKSÓKNARI GEFUR ÚT
Lögregla skal taka tillit til þeirra fyrirmæla og leiðbeininga sem ríkissaksóknari gefur
út, t.d. um aðgang fjölmiðla að ákæruskjölum fyrir dómsuppsögn.
Reykjavík, 16. október 2002
Haraldur Johannessen
09.08.2015
Lesa meira