- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Málsmeðferð:
Kæra barst skrifstofu BÍ miðvikudaginn 12. febrúar sl. Nefndin tók málið fyrir á fundi þann 18.
febrúar og ákvað að óska eftir umboði frá umboðsmanni kæranda. Umboð barst 22. febrúar og
samþykkti nefndin að senda kæruna kæranda til andmæla. Andmæli bárust 7. mars. Nefndin
fundaði um málið á ný þann 11. mars og kvað í kjölfarið upp úrskurð.
Málavextir:
Hin kærða frétt birtist á vef Nútímans þann 8. janúar sl. Í fréttinni er fjallað um, og vísað til eldri
frétta um það efni, að kærandi hafi árið 2022 hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn börnum og vörslu
myndefnis sem sýndi börn á kynferðislegan hátt. Sökum andlegs þroska hafi refsing hins vegar
verið látin niður falla en þess í stað hafi kærandi verið dæmdur til að sæta eftirliti á réttargeðdeild.
Í fréttinni segir en fremur að frá því að fyrrnefndur dómur hafi fallið hafi kærandi breytt nafni sínu
og hefði gengist undir „einhverjar aðgerðir“ sem voru liður í kynleiðréttingarferli. Í fréttinni segir
síðan svo:
„En þrátt fyrir að [kærandi] hafi á sínum tíma verið metinn svo langt á eftir í þroska
og með einhverfu að hann gæti ekki farið í fangelsi eins og segir í frétt DV, þá virðist
það ekki hafa hindrað aðgang í aðgerðir tengdar kynleiðréttingarferli.
Samkvæmt heimildum þá reyndar gekkst Aariah undir í það minnsta einhverja aðgerð
í Bandaríkjunum en ekki hefur fengist staðfest ennþá hvaða aðgerð það var eða hvort
einhver aðgerð hafi átt sér stað á Íslandi.
Slíkt hlýtur þó að teljast stór áfellisdómur yfir kerfinu í heild.“
Í kjölfar þess er fjallað um skilaboð og skeyti í spjallhópum á Facebook sem varða kæranda og
hagi hans. Þar óskar höfundur innleggs eftir leiðum til að komast í samband við kæranda, en erindið
ku hafa verið, eins og það er orðað í hinni kærðu umfjöllun, „vegna þess að Aariah hafi verið að
„reyna við“ fyrrverandi kærasta, sem samkvæmt heimildum er undir lögaldri.“ Í fréttinni er þess
getið að Nútíminn hafi árangurslaust reynt að hafa samband við kæranda vegna umfjöllunarinnar
og í niðurlagi hennar að Nútíminn muni umsvifalaust birta svör kæranda við fyrirspurnum
miðilsins ef þau berast.
Sjónarmið kæranda:
Kærandi telur að með hinni kærðu umfjöllun hafi kærði gerst brotlegur við 2., 3., 6., 7. og 12. gr.
siðareglna BÍ.
Í kæru málsins er tiltekið að með umfjölluninni hafi nýtt nafn kæranda verið birt, sem hún breytti
eftir að hún „ákvað að lifa lífi [sínu] sem transkona.“ Sú uppljóstrun hefði ekki verið samþykkt af
henni. Sömu sögu væri að segja af umfjöllun um heilsufar hennar og aðgerðir sem hún hefði
undirgengist.
Kærandi bendir á að í hinni kærðu umfjöllun sé ýjað að því að ranglátt sé að hún hafi fengið að
hefja kynleiðréttingarmeðferð, þótt hún hafi verið „talin of veik til að fara í fangelsi fyrir 5 árum á
þeim tíma þegar [hún] hafi gert alvarleg mistök og verið dæmd til meðferðar.“
Enn fremur tiltekur kærandi í kærunni að í hinni kærðu umfjöllun sé ranglega staðhæft að hún hafi
nýverið átt í sambandi við barn. Hið rétta sé að þar hafi verið á ferðinni tiltekinn einstaklingur á
fertugsaldri, en umræddur maður og annar einstaklingur hafi einnig átt í samskiptum við Nútímann
til að fá hina kærðu umfjöllun leiðrétta eða fjarlægða.
Með kæru málsins fylgdi afrit af tölvupósti sem umboðsmaður kæranda sendi kærðu degi eftir að
hin kærða umfjöllun birtist. Þar er þess farið á leit að fréttin sé fjarlægð úr birtingu, en hún hafi þá
þegar valdið kæranda verulegum skaða á andlegri heilsu og velferð. Í póstinum er fjallað um að
hin kærða frétt varði úrelt mál sem endurspegli ekki hagi kæranda nú. Enn fremur feli umfjöllunin
í sér brot á persónuverndarlöggjöf, auk þess að það að setja forsögu kæranda í samhengi við
kynleiðréttingarferli hennar sé til þess fallið að ýta undir fordóma gegn transfólki. Að endingu er
fjallað um núverandi aðstæður og eftirlit með kæranda, sem sæki reglulega tíma hjá fagfólki og
tryggt sé að hún hafi engin samskipti við börn.
Sjónarmið kærða:
Í andsvörum frá umboðsmanni kærðu er þess getið að umfjöllun um málið hafi átt sér stað eftir að
kærði Frosti fékk ábendingu um málið. Var það mat kærðu að málið ætti erindi við almenning og
í þjóðfélagsumræðuna, m.a. sem liður í umræðu um kynleiðréttingar, sem væru „verulega umdeilt
mál í samfélaginu“ og færi umræða þess efnis vaxandi. Í kæru sé ekki rökstutt sérstaklega með
hvaða hætti kærðu eigi að hafa brotið gegn fyrrgreindum greinum siðareglna BÍ og því ekki annað
unnt en að mótmæla því í heild sinni að umfjöllunin brjóti gegn siðareglunum.
Í andsvörum kærðu er þess getið að áður en kærandi var ákærður og síðan dæmdur fyrir brot sitt
hafi kærandi vakið athygli opinberlega, m.a. með þátttöku í söngkeppni framhaldsskólanna og
seinna meir í söngvakeppni RÚV í aðdraganda Eurovision.
Þar er því enn fremur vísað á bug að sú staðreynd að kærandi hafi skipt um nafn og hafið
kynleiðréttingarferli leiði til þess að óheimilt sé að fjalla um hagi hennar fyrir og eftir
nafnabreytingu. Um sé að ræða umfjöllun um kynferðisbrot gegn börnum, sem ávallt eigi erindi
við almenning, og ekki sé hægt að gera kröfu um að umfjöllun um slík mál hætti um leið og dómur
fellur í máli viðkomandi.
Í andsvörunum er þess enn fremur getið að nafn og kyn séu ekki viðkvæmar persónuupplýsingar
verndaðar af persónuverndarlöggjöf. Varðandi umfjöllun um „læknifræðilegan bakgrunn“
kæranda hafi einvörðungu verið vísað í opinberar upplýsingar sem birst hafi í fréttum og á
opinberum vettvangi.
Að sama skapi eigi erindi við almenning þegar dæmdur kynferðisbrotamaður „skiptir um nafn
og/eða skiptir um kyn.“ Fjölmörg dæmi séu um að fjölmiðlar, bæði hér á landi sem og erlendis,
hafi fjallað um nafnbreytingar sakfelldra manna í kjölfar þess að dómur fellur, enda málefnið
umdeilt.
Í niðurlagi andsvara kærðu er bent á að með hinni kærðu umfjöllun sé hreyft við því álitamáli
„hvort þeir einstaklingar sem að áliti sérfræðinga teljast ekki hafa nægan þroska til að afplána
refsingu sína í fangelsi hafi samt sem áður nægan þroska til að fara í óafturkræfa kynleiðréttingu.“
Umræða um slíkt eigi fullt erindi við almenning og í almenna þjóðfélagsumræðu.
Umfjöllun nefndarinnar:
Kæra í málinu uppfyllir öll skilyrði málsmeðferðarreglna siðanefndar Blaðamannafélags Ísland og
er því tæk til efnismeðferðar.
Fjölmiðlar hafa ríka skyldu til að veita hinu opinbera og valdhöfum aðhald og stundum háttar svo
til að málefni einstaklinga eru toguð inn í slíka umræðu, oft í þeirra óþökk. Í þeim tilfellum vegast
á réttur einstaklings til friðhelgis einkalífs og tjáningarfrelsi fjölmiðla. Siðanefnd hefur áður fjallað
um mál þar sem heimildarlaus nafn- og myndbirting var til umræðu, sjá t.a.m. mál nr. 1/2005-
2005, nr. 5/2019-2020 og nr. 9/2019-2020. Í öllum framangreindum málum var komist að þeirri
niðurstöðu að brotið hefði verið gegn 3. gr. eldri siðareglna, sem mælti fyrir um að blaðamaður
sýndi tillitssemi í viðkvæmum málum, en sú grein var felld brott í nýjum siðareglum.
Fordæmisgildi fyrrgreindra úrskurða er því takmarkað.
Í hennar stað segir nú í 2. gr. siðareglnanna að blaðamaður skuli setja upplýsingar fram á
sanngjarnan og heiðarlegan hátt samkvæmt bestu vitund sinni. Að auki skal blaðamaður ekki
hagræða staðreyndum eða setja fram órökstuddar ásakanir. 6. gr. siðareglnanna mælir svo fyrir um
að blaðamaður skuli gera greinarmun á staðreyndum og skoðunum, ganga úr skugga um
áreiðanleika upplýsinga og gæta þess að umfjöllun sé hlutlæg.
Siðanefnd fellst á það sjónarmið kærðu að hin kærða umfjöllun hafi verið liður í
þjóðfélagsumræðu, en bendir á að við slíka umfjöllun skulu vinnubrögð blaðamanns og
framsetning upplýsinga vera í samræmi við ákvæði siðareglna BÍ.
Að virtum atvikum máls þessa telur siðanefnd að með hinni kærðu umfjöllun, hafi kærðu ekki
brotið gegn 2., 6. eða 12. gr. siðareglna. Er þá til þess að líta að ekkert bendir til þess að blaðamaður
hafi hagrætt staðreyndum eða sett fram órökstuddar ásakanir. Þótt ummælin „[slíkt hljóti] þó að
teljast stór áfellisdómur yfir kerfinu í heild“ megi telja hálf glæfraleg, er það mat siðanefndar að
með því sé vísað til þjóðfélagsumræðu en ekki skoðana kærðu. Enn fremur ber umfjöllunin með
sér að kærði Frosti hafi reynt að hafa samband við kæranda við vinnslu umfjöllunarinnar.
Þá er þess gætt í hinni kærðu umfjöllun að geta þess hvaðan ummæli og upplýsingar eru fengin
sem vitnað er til. Því er ekki um brot gegn 7. gr. siðareglna að ræða.
3. gr. siðareglna mælir fyrir um að blaðamaður skuli leiðrétta rangfærslur sé þess þörf. Í málinu
liggur fyrir að degi eftir að umfjöllunin birtist hafði umboðsmaður kæranda samband við kærðu
og krafðist þess að hún yrði fjarlægð. Í kæru sinni til nefndarinnar rekur kærandi síðan og rökstyður
að ranglega sé fullyrt í umfjölluninni að kærandi hafi reynt að setja sig í samband við einstaklinga
„undir lögaldri“. Enn fremur er þess getið að fleiri hafi sett sig í samband við kærðu í sama tilgangi.
Ekki verður séð af gögnum málsins að kærðu hafi svarað beiðni kæranda og í andsvörum hans til
nefndarinnar er ekki fjallað um þennan þátt málsins, að öðru leyti en því er hafnað með almennum
hætti að kærðu hafi brotið gegn 3. gr. siðareglna BÍ. Siðanefnd hefur áður úrskurðað, sbr. mál nr.
2/2023-2024, að í slíkum tilfellum verði frásögn kæranda lögð til grundvallar við úrlausn máls. Að
mati nefndarinnar gáfu fyrrgreind samskipti, sem og kæra málsins, kærðu tilefni til að bregðast
við, hvort heldur með leiðréttingu eða eftir atvikum að standa fastar á því sem fram kemur í hinni
kærðu umfjöllun og haft er eftir ónafngreindum heimildamanni.
Að mati nefndarinnar hafa kærðu því brotið gegn 3. gr. siðareglna BÍ. Að virtum atvikum málsins
og eðli brotsins er það mat nefndarinnar að brotið teljist ámælisvert.
Einn nefndarmanna, Jóhann Óli Eiðsson, er ósammála meirihluta nefndarinnar og telur gögn
málsins ekki nægilega afgerandi til að unnt sé að kveða af eða á um mögulegt brot gegn 3. gr.
siðareglna BÍ.
Úrskurðarorð:
Kærðu, Frosti Logason og Nútíminn, brutu gegn 3. gr. siðareglna BÍ. Brotið telst ámælisvert.
Reykjavík, 11. mars 2025
Pálmi Jónasson
Ásgeir Þór Árnason
Friðrik Þór Guðmundsson
Valgerður Anna Jóhannsdóttir
Jóhann Óli Eiðsson