- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Úrskurður nr 6/2024-2025
Málsmeðferð:
Kæra barst skrifstofu BÍ miðvikudaginn 22. janúar sl. Nefndin tók málið fyrir á fundi degi síðar og samþykkti að senda kærða kæruna til andmæla. Andmæli bárust nefndinni 10. febrúar. Nefndin fundaði á ný um málið þann 18. febrúar og kvað í kjölfarið upp úrskurð.
Málavextir:
Hin kærða umfjöllun er hluti af forsíðuumfjöllun Heimildarinnar, sem birtist í prentútgáfu miðilsins vikuna 13.-19. desember 2024, þar sem rætt var við hluta íbúa sem dvelur í hjólhýsum á iðnaðarplani við Sævarhöfða. Um var að ræða nokkur sjálfstæð viðtöl við íbúa, sem saman mynda eina heild. Kæruefnið varðar ekki umfjöllunina sem heild, heldur viðtal undir fyrirsögninni „Ég kalla þetta svítuna“, sem birtist á bls. 21-22 í prentaðri útgáfu miðilsins og í vefútgáfu þann 15. desember. Þar er rætt við Vilberg Guðmundsson en um miðbik viðtals við hann getur hann þess að lífið hafi breyst fyrir þremur árum eftir að fyrrverandi kona hans sleit sambandi þeirra. Segir svo orðrétt í kjölfarið: „Lífið tók bara u-beygju,“ segir hann. „Hún fékk Alzheimer og versnaði stöðugt.“ Viðmælandinn getur þess að þetta hafi verið erfiður tími og hann hafi þurft að læra að fóta sig sem aðstandandi einstaklings með heilabilun, m.a. með jafningjaaðstoðar Alzheimersamtakanna. Kærandi málsins er fyrrverandi maki viðmælandans og snýr kæruefnið að framangreindum ummælum um ætlaðan heilsubrest kæranda.
Sjónarmið kæranda:
Í kæru sinni til siðanefndar BÍ rekur kærandi að viðmælandinn hafi trúað því í þrjú ár að hún væri með Alzheimer og beitt hana andlegu ofbeldi til að hún tryði því sjálf. Kærandi hafi undirgengist langtímarannsóknir til að geðjast viðmælandanum, en þær hafi allar leitt í ljós og staðfest að hún 2 væri ekki haldin sjúkdómnum. Ummæli viðmælandans um heilsufar kæranda hafi leitt til óafturkræfs mannorðsskaða. Eftir að hafa fengið veður af efni hinnar kærðu umfjöllunar, um tveimur vikum eftir birtingu hennar, fór kærandi fram á leiðréttingu greinarinnar. Þau svör hafi fengist að leiðrétting yrði birt og var það gert. Kærandi byggir á því að leiðréttingin hafi verið birt með ófullnægjandi hætti, þar sem hún var ekki birt sem sjálfstæð grein heldur skeytt neðst við vefútgáfu hinnar kærðu umfjöllunar, auk þess að leiðréttingin hafi birst seint. Með þessu telur kærandi að kærði hafi brotið gegn 1. gr., 2. gr. og 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Í fyrsta lagi telur kærandi að kærði hafi ekki haft sannleikann að leiðarljósi með því að „trúa orðum manns sem segir opinskátt í viðtali að hann hafi átt við áfengisvanda að stríða. […] Að trúa í blindni orðum manns um að konan hans hafi verið andlega veik, manns sem segir í sama viðtali að hann glími við áfengisvanda, eru ófagleg vinnubrögð“ sem í felist brot gegn 1. gr. siðareglnanna. Í öðru lagi telur kærandi að kærði hafi brotið gegn 2. gr. siðareglnanna með því að leita ekki andstæðra sjónarmiða eða kanna hvort fótur sé fyrir fullyrðingum viðmælandans. Sama háttsemi feli í sér brot gegn 6. gr. siðareglnanna.
Sjónarmið kærða:
Í andsvörum kærða er rætt um aðdraganda og meginstef umfjöllunarinnar í heild og á það bent að viðtalið við Vilberg hafi verið hluti af stærri heild. Í viðtalinu við hann komi fram að hann og fyrrverandi eiginkona hans hafi selt íbúðina sína og í kjölfarið hafst við í húsbílnum, bæði hér á landi og ytra. Af samtölum við Vilberg hafi mátt ráða að það hafi tekið mjög á hann þegar kærandi fór frá honum. Að sama skapi virtust ætluð veikindi kæranda hafa verið íbúum hjólhýsabyggðarinnar almennt kunn. Viðmælandinn hafi verið mjög hreinskiptinn með það sem á daga hans hafi drifið. Í andsvörunum er þess getið að viðmælandinn hafi fyrst og fremst tjáð sig um upplifun sína og reynslu, en hann hafi verið fullviss um að kærandi hefði verið með Alzheimer. Kærði bendir á að 11. janúar, um mánuði eftir að hin kærða umfjöllun birtist, hafi kærða borist tölvupóstur frá barnabarni kæranda. Var þar staðhæft að kærandi hefði aldrei greinst með Alzheimer, hvorki nú né fyrir þremur árum síðan. Ummæli um annað væru ósönn og skaðleg æru kæranda og orðspori. Var þess krafist að greinin yrði fjarlægð eða leiðrétt. Bréfi þessu var svarað af hálfu kærðu, það harmað að rangfærslur hefðu birst og þess óskað að barnabarnið veitti upplýsingar um símanúmer kæranda. Í kjölfarið hringdi kærði í númerið en sá sem svaraði kynnti sig sem núverandi maka kæranda. Sagði hann að kærandi væri afar ósáttur með 3 umfjöllunina og rangfærslur í henni um heilsufar sitt. Kærði og maðurinn sammæltust um að leiðrétting yrði birt við greinina en í máli kærða kemur fram að orðalag leiðréttingarinnar hafi verið unnið í samráði við núverandi maka kæranda. Um viku síðar hafi annars póstur borist frá barnabarninu og spurt hvort búið væri að birta leiðréttingu. Um klukkustund síðar hafi annar póstur borist þar sem barnabarnið fullyrti að leiðréttingin væri „bæði lágkúruleg og ófullnægjandi“. Beiðni um að greinin yrði fjarlægð var ítrekuð og ef ekki yrði orðið við því mætti búast við því að skaðabótamál yrði höfðað á hendur bæði kærða og viðmælanda. Kærði segir að það hafi komið á óvart að ekki hafi ríkt sátt um leiðréttinguna sem unnin hafði verið í samráði við núverandi mann kæranda. Í kjölfarið hafi ritstjórn kærða afráðið að fjarlægja þann hluta viðtalsins sem laut að ætluðum heilsubresti kæranda og reynslu viðmælandans af stuðningsneti Alzheimersamtakanna. Í leiðréttingarboxi vefútgáfu greinarinnar er getið um umræddar breytingar.
Umfjöllun nefndarinnar:
Kæra í málinu uppfyllir öll skilyrði málsmeðferðarreglna siðanefndar Blaðamannafélags Ísland og er því tæk til efnismeðferðar. Kærandi var ekki nefnd á nafn í hinni kærðu umfjöllun og verður ekki nefnd á nafn í umfjöllun siðanefndarinnar. Líkt og að framan er rakið varðar kæruefni málsins ummæli viðmælanda kærða um ætlaðan heilsubrest fyrrverandi eiginkonu viðmælandans. Að mati kæranda brýtur hin kærða umfjöllun gegn 1. gr., 2. gr. og 6. gr. siðareglnanna. Kæruefni málsins varðar ummæli sem viðmælandi kærða lét falla um fyrrverandi eiginkonu sína. Af ummælunum verður ekki annað ráðið en að með ummælunum birtist trú og sannfæring viðmælandans. Í úrskurðarframkvæmd siðanefndar Blaðamannafélags Íslands hefur því margsinnis verið slegið föstu að blaðamaður gerist ekki brotlegur við siðareglur vegna ummæla viðmælanda, sem réttilega eru eftir honum höfð, að því gefnu að vinnubrögð við vinnslu umfjöllunar standist faglegar kröfur og skoðun gagnvart siðareglum Blaðamannafélags Íslands, sbr. t.d. úrskurði í málum nr. 8/2016-17, 2/2018-19 og 5/2021-22. Að mati siðanefndarinnar er ekkert í gögnum málsins sem hefði getað gefið kærða tilefni til að ætla að ummæli viðmælandans væru ekki sannleikanum samkvæm, á þeim tíma sem hin kærða umfjöllun birtist. Á því tímamarki var enn fremur ekkert sem veitti ástæðu til að leita andstæðra sjónarmiða, sbr. framangreint, auk þess að inntak viðtalsins laut að upplifun viðmælandans og líðan hans í hýbýlum sínum. Það var fyrst 11. janúar, þegar kærða barst tölvupóstur frá barnabarni kæranda, þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við rangfærslur í umfjölluninni, sem kærði hafði ástæðu til að bregðast við. Var það enda gert, í samræmi við 3. gr. siðareglnanna, fyrst með afsökunarbeiðni og 4 leiðréttingu í vefútgáfu umfjöllunar og því næst með því að fjarlægja þann hluta viðtalsins sem laut að kæranda. Í samræmi við framangreint getur nefndin ekki fallist á það með kæranda að með umfjölluninni hafi kærði gerst brotlegur við siðareglur Blaðamannafélagsins.
Úrskurðarorð:
Kærði, Sameinaða útgáfufélagið ehf., braut ekki gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands með hinni kærðu umfjöllun. Reykjavík 18.02.2025