- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kærandi: Halina Zylinska
Kærðu: Páll Ketilson, ritstjóri vefmiðilsins www.vf.is, Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður og Víkurfréttir ehf.
Kæruefni: Umfjöllun vefmiðils Víkurfrétta, www.vf.is, 25. og 26. febrúar 2008 um fjóra svarta ruslapoka sem fundust á Miðnesheiði.
Kæran barst siðanefnd í bréfi dagsettu 31. mars. 2008. Kærunni fylgdu sjö fylgiskjöl: Útprentun af netfréttum Víkurfrétta um málið dagana 25. og 26. febrúar, upphaflegt bréf lögmanns kæranda til Páls Ketilssonar hjá Víkurfréttum, dagsett 28. febrúar og tölvupóstssamskipti um bréfið á milli sömu manna. Einnig fylgdi bréf Páls Ketilssonar, ritstjóra vf.is, til Halinu Zylinsku, dagsett 10. mars, sem og greinargerð og andsvör Páls og Hilmars Braga Bárðarsonar hjá Víkurfréttum, dagsett 11. mars, þar sem upphaflegum athugasemdum lögmanns kæranda er svarað lið fyrir lið. Þá fylgdi bréf frá lögmanni Víkurfrétta til lögmanns kæranda, dagsett 11. mars.
Andmæli kærðu til Siðanefndar bárust í bréfi frá Páli Ketilssyni, ritstjóra vf.is, dagsettu 14. apríl. Því svari fylgdu skjámyndir af teljara vf.is um umferð og lestur á umræddum fréttum, auk skjámynda af sambærilegum umhverfisfréttum vf.is á liðnum árum.
Siðanefnd tók málið fyrir á fundum sínum dagana 7., 21. og 22. apríl.
Þann 25. febrúar 2008 birtist frétt á vefmiðli Víkurfrétta, www.vf.is, undir fyrirsögninni: ,,Halina Zylinska, ruslið þitt er fundið!" Þar er fjallað um fjóra ruslapoka sem fundust uppi á Miðnesheiði. Fréttin er skrifuð sem beint ávarp til Halinu Zylinsku, en í einum ruslapokanum fannst bréf stílað á hana. Fréttin byrjar svo: ,,Mín kæra, Halina Zylinska. Einhver hefur tekið að sér að fara með rusl frá þér til sorpeyðingar." Í fréttinni er Halina síðan beðin um að koma ruslinu til eyðingar hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.
Daginn eftir, þann 26. febrúar, birtist önnur frétt á vf.is undir fyrirsögninni: ,,Halina kannast ekki við ruslið." Þar er sagt frá því að Halina vilji ekki kannast við ruslið ,,þrátt fyrir að þar væri m.a. póstur merktur henni." Hún hafi í félagi við annan aðila komið á ritstjórn Víkurfrétta og sá hafi haft í hótunum við blaðamann Víkurfrétta. Þá er sagt frá því að ónafngreindur þriðji aðili hafi séð einstaklinga henda umræddu rusli á Miðnesheiði.
Í kærunni segir að kærandi kannist hvorki við að hafa sjálfur, né aðrir á hans vegum, skilið rusl eftir á Miðnesheiði líkt og fullyrt sé í umfjöllun vf.is. Þrátt fyrir það sé kærandi nefndur með fullu nafni í fyrirsögn fyrstu fréttar vf.is af málinu. Nafnið hafi síðan tvívegis til viðbótar komið fram í umfjölluninni, auk þess sem bæjarfélag hans hafi verið tilgreint. Í síðari fréttinni hafi kærandi verið nafngreindur fimm sinnum, þar af einu sinni með fullu nafni.
Í kærunni segir ljóst að þær ærumeiðingar og aðdróttanir sem Víkurfréttir kusu að setja fram gegn kæranda, án nokkurs undanfara sem skýrt gæti tilefnislausa árás blaðsins, hafa bakað henni og fjölskyldu hennar mikinn skaða." Þá hafi dóttir kæranda orðið fyrir ítrekuðu aðkasti í skóla vegna málsins.
Í svari Víkurfrétta til siðanefndar er tekið fram að við vinnslu myndar sem fylgdi fyrstu fréttinni hafi bæði kennitala kæranda og símanúmer verið afmáð. Síðar hafi nafn kæranda verið afmáð úr fréttunum og þær gerðar óvirkar í vefumsjónarkerfi vf.is ,,af tillitsemi við kæranda, enda krafðist kærandi þess" í heimsókn sinni til Víkurfrétta. Ritstjóri vf.is segist hins vegar að fullu standa við umræddar fréttir enda viti hann að ,,efni fréttanna er rétt og vel var staðið að vinnslu þeirra. Á hinn bóginn skiljum við að einhverjum kunni að hafa fundist framsetning fréttanna óvarfærin." Því hafi fréttirnar verið fjarlægðar.
Áður en málinu var vísað til siðanefndar höfðu nokkur bréfaskipti farið fram á milli kæranda og kærðu. Í fyrsta bréfi frá lögmanni kæranda til kærðu eru settar fram tvær kröfur. Í fyrsta lagi að vf.is birti afsökunarbeiðni þar sem umfjöllunin sé hörmuð sem mistök sem hafi bakað kæranda og fjölskyldu hans skaða og í öðru lagi að sátt náist á milli Víkurfrétta og kæranda um greiðslu miskabóta.
Í kjölfarið ritar Páll Ketilsson, ritstjóri vf.is, bréf til kæranda um fréttirnar þar sem hann segist ,,harma það tjón sem þú telur þig hafa orðið fyrir vegna birtingu þeirra. Jafnframt bið ég þig afsökunar á nafnbirtingu, sem var þó kippt í liðinn afar fljótt eftir birtingu fréttarinnar." Í bréfinu segir einnig: ,,Á hinn bóginn þá stendur vf.is fast við fréttirnar og framsetningu þeirra, þó svo að þær hafi verið fjarlægðar af vefnum af tillitssemi við þig. Það er mat forsvarsmanna miðilsins að rétt hafi verið staðið að vinnslu fréttanna." Í bréfinu kemur jafnframt fram sú ályktun vf.is að kærandi hafi í heimsókn sinni á ritstjórnarskrifstofur vf.is viðurkennt að ruslið væri frá honum komið. Kærandi hafi falið öðrum að farga því og ekki vitað að því hafi verið hent á Miðnesheiði. Fréttin sé þannig rétt að efni til. Ritstjóri vf.is segir að færa megi rök fyrir því að framsetning fréttanna kunni að hafa verið óvarfærnisleg þó svo að slíkt hafi ekki verið ætlunin. Er kæranda í lokin boðið að birta athugasemdir sínar við efni og vinnslu fréttarinnar á besta stað á vf.is.
Siðanefnd tekur undir það sjónarmið Víkurfrétta/vf.is að það sé eðlilegt hlutverk fjölmiðla að vekja athygli á því sem betur megi fara í umhverfismálum, þar með talið umfjöllun um rusl sem hent sé á víðavangi.
Siðanefnd telur hins vegar að birting á nafni kæranda hafi verið óþörf og ógætileg. Jafnframt beri það vott um óvönduð vinnubrögð að gera enga tilraun til þess að hafa samband við kæranda og leita skýringa á því af hverju bréf með nafni kæranda fannst í ruslinu.
Siðanefnd virðir Víkurfréttum/vf.is það til málsbóta að í kjölfar athugasemda kærandavoru fréttirnar teknar af vefmiðlinum og jafnframt hafi ritstjóri vf.is beðist afsökunar á nafnbirtingunni í persónulegu bréfi til kæranda. Þess ber þó að geta að nafn kæranda var ekki fjarlægt fyrr en eftir að það hafði verið birt í frétt vf.is öðru sinni og að afsökunarbeiðni ritstjóra Víkurfrétta/vf.is barst kæranda tveimur vikum síðar. Siðanefnd telur að það hefði verið sanngjörn og eðlileg lausn þessa máls að afsökunarbeiðni hefði birst á vf.is. Tilboð Víkurfrétta/vf.is um að koma athugasemdum um efni og vinnslu fréttanna á framfæri á vefmiðlinum gat ekki komið í stað afsökunarbeiðni.
Víkurfréttir teljast hafa brotið gegn 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Brotið er ámælisvert.
Reykjavík 22. apríl 2008
Kristinn Hallgrímsson, Hjörtur Gíslason, Jóhannes Tómasson, Brynhildur Ólafsdóttir, Sigurveig Jónsdóttir