Mál nr. 5/2024-2025

Reykjavík 12.12.2024

Kæruefni: Umfjöllun í Spursmálum Morgunblaðsins þann 22. október 2024. Þar fjallar Stefán Einar um
þátttöku kæranda í handritshöfundateymi Áramótaskaups RÚV og segir hana hafa hvatt til
eignaspjalla á utanríkisráðuneytinu og vonast til að þessar „brjáluðu hugmyndir“ verði ekki í
skaupinu þetta árið. Ummælin falla í einhvers konar inngangi sem kallaður er „Af vettvangi
fjölmiðla“. Kærandi telur umfjöllunina varða við 2., 6. og 7. grein siðareglna.

Málsmeðferð: Kæran barst skrifstofu BÍ 12.11.2024. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fékk málið sent
samdægurs og ákvað á fundi þann sama dag að senda málið til andsvara. Engin andsvör bárust en
Stefán Einar sendi yfirlýsingu 05.12.2024 þess efnis að Siðanefnd hefði enga lögsögu yfir sér og
því kæmu engin andsvör frá honum. Siðanefnd kom aftur saman til fundar 10.12.2024 og
úrskurðaði í málinu.

Málavextir: Kærandi segir að Stefán Einar saki sig um að hvetja til eignaspjalla á utanríkisráðuneytinu sem sé
tilhæfulaus og alvarleg ásökun. Jafnframt saki hann hana um brjálaðar hugmyndir sem séu til þess
fallnar að draga úr trúverðugleika hennar sem höfundar. Staðhæfing um að hún lýsi yfir sorg yfir
falli Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas, sé ekki byggð á neinum heimildum eða staðreyndum. Með
ummælum sínum vegi Stefán Einar að starfsheiðri og æru hennar og geri henni upp skoðanir og
hvatningu til eingarspjalla, líklega til að grafa undan trúverðugleika hennar sem höfundar að
áramótaskaupi RÚV. Með þessu telur kærandi að kærði hafi brotið gegn 2., 6. og 7. gr. siðareglna
BÍ. Stefán Einar Stefánsson sendi yfirlýsingu 05.12.2024 þess efnis að Siðanefnd hefði enga lögsögu
yfir sér og því kæmu engin andsvör frá honum.

Umfjöllun nefndarinnar: Í málsmeðferðarreglum Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands segir, að hver sá sem telji að
blaðamaður hafi brotið gegn siðareglunum og eigi hagsmuna að gæta, geti kært ætlað brot til
nefndarinnar innan tveggja mánaða frá birtingu, enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir
almennum dómstólum á sama tíma. Málsmeðferðarreglur taka skýrt fram að aðild að BÍ sé engin
forsenda þess að Siðanefnd úrskurði í málum sem þessu og eru ótal fordæmi þess sem spanna
marga áratugi. Að kærði hafi sagt sig úr félaginu breytir því engu. Nefndin telur augljóst að þessi
inngangur „Af vettvangi fjölmiðla“ sé afmarkað ritstjórnarefni sem falli undir tjáningarfrelsi
blaðamanna sem skrifi undir fullu nafni þar sem persónulegar skoðanir höfunda séu í fyrirrúmi.
Í tíð eldri siðareglna var í gildi venja um að vísa frá kærum sem lutu að skoðanaskrifum
einstaklinga, sem rita undir nafni, um þjóðfélagsmál þótt þau skrif kunni að hafa verið hvöss eða
þar vegið að tilgreindum hagsmunum eða einstaklingum. Hið sama hafði verið látið gilda um
ritstjórnarefni blaða, á borð við leiðara, pistla eða skopmyndir. Um þetta vísast m.a. til úrskurða
nefndarinnar í málum nr. 5/2007-2008, 2/2019-2020 og 3/2019-2020.

Framangreint byggði á 5. gr. eldri siðareglna en þar sagði m.a. að „siðareglur þessar [settu] ekki
hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til
dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.“ Í gildandi siðareglum
segir aftur á móti eingöngu að siðareglurnar setji ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna, sbr. 1.
málsl. 12. gr. siðareglnanna. Siðanefnd hefur úrskurðað í samræmi við þetta í máli 1/2024-2025 á
grunni nýrra siðareglna.

Sökum téðrar breytingar telur siðanefnd ekki rétt að vísa málinu frá nefndinni af þeirri ástæðu
einni að um ritstjórnarefni sé að ræða. Kæra í máli þessu barst innan tveggja mánaða frá
umræddum þætti og frá aðila sem hefur hagsmuna að gæta vegna umfjöllunarinnar. Kæran er því
tæk til efnismeðferðar.

Kæruefni málsins er umfjöllun Spursmála undir liðnum „Af vettvangi fjölmiðla“ sem augljóslega
eru persónulegar skoðanir höfundar. Ummælin fela í sér tjáningu kærða en sem fyrr segir setja
siðareglurnar ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna, þótt kærði kunni að bera ábyrgð á gagnvart
kæranda eftir almennum réttarreglum. Valdsvið nefndarinnar takmarkast við að ákveða hvort
brotið hafi verið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Telji kærandi að tjáning kærða hafi
vegið að æru hans eða mannorði með almennum hætti, heyrir slíkur ágreiningur undir dómstóla
og lýtur settum lögum, en ekki siðareglum og Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.
Siðanefndin getur ekki fallist á það með kæranda að ummælin brjóti gegn 2.- og 6. gr.
siðareglnanna. Í 7. gr. þeirra er mælt fyrir um að blaðamaður gæti þess að geta heimilda þegar
vitnað er til ummæla eða upplýsinga sem birst hafa opinberlega. Að mati siðanefndar hafa
blaðamenn meira frjálsræði í þeim efnum þegar um er að ræða persónulegar skoðanir hans. Að
sama skapi geta kröfurnar verið mismiklar eftir birtingarformi ummæla eða umfjöllunar. Í ljósi
þess telur nefndin að ekki sé um brot á 7. gr. að ræða,, og þá er ekki unnt að heimfæra umfjöllunina
undir brot gegn öðrum greinum reglnanna.


Einn nefndarmanna, Ásgeir Þór Árnason, er ósammála meirihluta nefndarinnar í formþætti málsins
og telur að kæran sé ekki tæk til efnismeðferðar með vísan til frávísunarúrskurða í tíð eldri
siðareglna. Í ljósi þess að meirihluti nefndarinnar telur málið tækt til meðferðar, lýsir hann sig
sammála niðurstöðunni í efnisþætti málsins.


Úrskurðarorð: Kærði, Stefán Einar Stefánsson, telst ekki hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands
með umræddum ummælum í Spursmálum Morgunblaðsins þann 22. október 2024


Pálmi Jónasson
Ásgeir Þór Árnason
Emma Björg Eyjólfsdóttir
Valgerður Anna Jóhannsdóttir
Jóhann Óli Eiðsson