Mál nr. 4/2024-2025

Mál nr. 4/2024-2025

Kærandi: Magnús Atli Sigurðsson
Kærðu: Vísir.is, Ólafur Björn Sverrisson og Jón Þór Stefánsson
Kæruefni: Kærð er birting myndar af húsi i Bolungarvík með frétt um lögregluaðgerð á
staðnum, sem birt var á vef Vísis 27. maí sl. kl.23:00 Kærandi telur að húsið hafi verið
auðþekkjanlegt og myndbirtinguna brot á friðhelgi einkalífs og ekki varðað almannahagsmuni.
Kærandi telur myndbirtinguna varða við 3.gr. eldri siðareglna Blaðmannafélags Íslands frá 1991-
2023 og alþjóðareglur.

Málsmeðferð:
Kæran barst skrifstofu BÍ sunnudaginn 30.06.2024. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fékk
málið í hendur mánudaginn 01.07.2024 og ákvað á fundi daginn eftir, 03.07.2024, að senda
málið til andsvara til kærðu. Andsvör bárust frá Sýn hf., Ólafi Birni Sverrissyni og Jóni Þór
Stefánssyni. 11.07.2024. Siðanefnd fjallaði um málið á fundi 23.07.

Málavextir:
Kærandi er sonur manns sem fannst látinn á heimili sínu í Bolungarvík. Hin kærða mynd er
skjáskot af vefsíðunni ja.is af húsi í Bolungarvík, sem birt var á Vísi kl.23:00.
Í kærunni kemur fram að lögregla hafi komið kl.22:53 á heimili kæranda og tilkynnt honum að
faðir hans og eiginkona hafi fundist látin á heimili sínu í Bolungarvík. Lögreglumaðurinn hafi
farið um kl.23:15. Um kl.23:30 hafi kærandi séð frétt á vefmiðinum Vísi þar sem fram kom að
lögreglan væri að rannsaka andlát í húsi við Hlíðarveg í Bolungarvík og mynd birt af húsinu.
Kærandi kveður að við Hlíðarveg séu 7 hús og fljótgert sé að fletta því upp hverjir búa í húsinu.
Kærandi segir að flestir aðstandendur hafi frétt af andlátinu í gegnum Vísi enda hafi þeir þekkt
húsið um leið. Kærandi segist hafa hringt í Vísi rétt fyrir miðnætti og kvartað yfir fréttaflutningi
og myndbirtingu, en aðeins verið sagt að það væri leitt að þetta færi fyrir brjóstið á fólki. Myndin
hafi ekki verið tekin úr birtingu fyrr en undir hádegi daginn eftir. Kærandi segir myndbirtinguna
persónurekjanlega, blaðamennirnir virði ekki friðhelgi einkalífsins, engir almannahagsmunir
styðji myndbirtingu og tillitssemi sé ekki gætt í fréttinni.

Í andsvörum kærðu er þess krafist að kærunni verði hafnað. Segir þar að umkvörtunarefnið sé
einkum myndbirtingin í upphaflegu fréttinni. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar hafi
fengið ábendingu um kvöldmatarleytið að tæknideild lögreglu væri að störfum við hús í
Bolungarvík vegna andláts. Mbl hafi birt frétt um málið klukkan 22:29 og Vísir klukkan 23:00.
DV og RÚV hafi einnig birt fréttir af málinu. Bent er á að kærandi vísi í alþjóðlegar reglur, sem
ekki gildi hér, og eldri siðareglur sem fallnar séu úr gildi. Einnig segir í andsvörum að þegar
myndin hafi verið birt hafi umfangsmikil lögregluaðgerð verið í gangi í nærri fimm
klukkustundir þar sem andlát var til rannsóknar. Upplýsingar um málið hafi verið sett fram á
sanngjarnan og heiðarlegan hátt. Kærðu benda jafnframt á að megin skylda blaðamanna sé að
standa vörð um tjáningarfrelsið, frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga, samanber 2.
grein gildandi siðareglna. Í þeim sé hvergi vikið að friðhelgi einkalífs.

Umfjöllun nefndarinnar:
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands starfar eftir núgildandi siðareglum og því er ekki hægt að
vísa í alþjóðlegan siðasáttmála eða siðareglur sem fallnar eru úr gildi. Siðanefnd ákvað engu að
síður að taka málið til umfjöllunar og hvort brotið hefði verið gegn 2. grein siðareglna um
sanngirni og heiðarleika. Siðanefnd hefur almennt ekki gert þá kröfu til kærenda að þeir tilgreini
með nákvæmni þær siðareglur sem þeir telja að hafi verið brotnar. Nefndin hefur sjálf lagt mat á
hvort kærð umfjöllun hafi verið brot og þá gegn hvaða siðareglum.
Í hinni kærðu frétt er sagt frá umfangsmikilli lögregluaðgerð á Bolungarvík þar sem andlát var til
rannsóknar. Umrædd mynd er skjáskot af ja.is og hefur því ekkert sjálfstætt fréttagildi. Að mati
Siðanefndar var það ósanngjarnt gagnvart kæranda og öðrum aðstandendum að birta myndina á
þeim tíma sem það var gert, í ljósi alvarleika málsins. Myndin var tekin úr birtingu daginn eftir,
en þess ekki getið í fréttinni að myndin hafi verið tekin út, né beðist velvirðingar á því. Að mati
Siðanefndar eru það ekki sanngjörn eða heiðarleg vinnubrögð. Á hinn bóginn verður ekki
framhjá því litið að aðgerðir lögreglu á vettvangi voru fyrir allra augum á Bolungarvík og höfðu
staðið yfir í nokkrar klukkustundir þegar fyrstu fréttir voru birtar. Fréttir af alvarlegum atburðum varða
almannahagsmuni og eiga erindi til almennings en gæta verður sanngirni eins og kveðið er
á um í 2. gr. siðareglna.

Úrskurðarorð:
Kærðu, Vísir, Ólafur Björn Sverrisson og Jón Þór Stefánsson, teljast hafa brotið gegn siðareglum
Blaðamannafélags Íslands með birtingu myndar þann 27. maí sl. Brotið er ámælisvert.

Reykjavík 26.07.2024