- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Aðsent - 22.maí 2009
Mál nr. 4 2008/2009
Kærandi: Myllan
Kærðu: Fréttastofa Stöðvar 2/Lóa Pind Aldísardóttir
Kæruefni: Umfjöllun um vörumerkingar
Kæran barst í tölvupósti 10. mars 2009. Kærunni fylgdu útskrift af frétt Stöðvar 2 og fréttaskýringu í Íslandi í dag, og fleiri gögn. Þau eru hollustustefna Myllunnar, kvörtun fréttamanns til Neytendastofu, úrskurður Neytendastofu og afrit af framhaldsfrétt um málið. Lóa P. Aldísardóttir sendi svar við kærunni 27. apríl 2009 og auk þess stutt myndskeið með viðbrögðum neytenda. Siðanefnd fjallaði um kæruna á fundum 11. og 18. maí 2009.
Í kærunni er óskað eftir því að siðanefnd skeri úr um það hvort umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 um Minna mál Ágústu Johnson og Mylluna í frétt og fréttaskýringu Veljum íslenskt... eða hvað...? brjóti í bága við ákvæði í 3. grein og 4. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands.
Umrædd frétt var send út í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 11. febrúar sl. og í framhaldi af henni var fréttaskýring sama dag í þættinum Ísland í dag. Í kærunni segir: Í báðum tilvikum eru óréttmætir eða gagnrýniverðir viðskiptahættir á vegum innlendra framleiðenda til umfjöllunar í tengslum við átaksmerkingu Samtaka iðnaðarins Íslensk framleiðsla" og aðrar vörumerkingar á misíslenskum varningi í hagnaðarskyni."
Fram kemur að umrædd vara, Minna mál Ágústu Johnson, sé flutt inn og henni dreift af Myllunni, sem er í eigu ÍSAM hf. Varan er framleidd og henni pakkað inn í íslenskar umbúðir með samningi Myllunnar við þýska framleiðandann dr. Karg. Þetta sé neysluvara sem hafi haslað sér völl á heimamarkaði sínum sem viðurkennd hollustuvara og sé markaðssetning hennar á íslenskum neytendamarkaði liður í hollustustefnu Myllunnar.
Í greinargerð kæranda kemur fram að Lóa Pind Aldísardóttir og Björn Jónsson, framkvæmdastjóri og talsmaður Myllunnar, hafi í tvígang talast við í síma á meðan á vinnslu fyrri fréttarinnar og fréttaskýringar stóð. Í fyrra skiptið að frumkvæði fréttamannsins, sem óskaði skýringa á því að Myllan merkti Minna mál Ágústu Johnson með átaksmerki SI Íslensk framleiðsla", þótt um þýska framleiðslu væri að ræða. Í samtalinu var fréttamanninum gerð grein fyrir því að Minna mál Ágústu Johnson væri ekki sett á markað sem íslensk framleiðsla, eins og umbúðarmerkingar gæfu skýrt til kynna, heldur sem hollur skyndibiti. Ekki stæði til að merkingar gæfu annað til kynna og að erindi fréttamannsins kæmi því á óvart.
Í síðara skiptið hafi Björn haft samband við Lóu og gert henni grein fyrir að starfsmenn Myllunnar hefðu gengið úr skugga um að Minna máli Ágústu Johnson hefði ekki verið dreift með átaksmerki SI á vegum Myllunnar, hvorki fyrir mistök né af öðrum orsökum, enda væri ekki verið að selja vöruna sem íslenska. Þá hafi Lóa falast eftir viðtali við talsmann Myllunnar um málið og hafi Björn tekið vel í þá ósk. Af viðtalinu hafi þó ekki orðið.
Í kærunni kemur ennfremur fram að nokkru fyrir áðurgreindan fréttaflutning hafi Myllunni borist afrit af formlegri kvörtun Lóu Pind Aldísardóttur til Neytendastofu vegna villandi umbúðarmerkinga á Minna máli Ágústu Johnson. Rökstuðningur kvörtunarinnar hafi verið að verið væri að blekkja neytendur og fá þá til að kaupa innflutta vöru sem íslenska framleiðslu. Í úrskurði Neytendastofu frá 19. febrúar 2009 kemur fram að umbúðirnar séu ekki villandi eða til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um viðskipti og þar með hafa áhrif á eftirspurn í skilningi laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Kærandi telur að umrædd umfjöllun sé það almenns eðlis að eitt sé látið yfir þá ganga sem um hafi verið fjallað, óháð tilefni eða aðstæðum. Margt bendi til að umfjöllunin byggi á fyrirfram mynduðum skoðunum fréttastofunnar og að fréttavinnslan hafi öðrum þræði miðast við að færa sönnur á því að Myllan stundi óréttmæta viðskiptahætti í hagnaðarskyni.
Það er því mat forsvarsmanna Myllunnar að umrædd frétt og fréttaskýring fréttastofu Stöðvar 2 hafi ekki uppfyllt kröfur faglegs fréttaflutnings af vandasömu og vandmeðförnu málefni og það síðan rökstutt í tíu liðum.
Kærandi telur að Myllan sem dreifingaraðili og umrædd vara hafi að ósekju beðið álitshnekki vegna þessarar umfjöllunar Stöðvar 2 og hún brjóti því í bága við 3. og 4. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands.
Í greinargerð Lóu Pind Aldísardóttur kemur fram að tilefni umfjöllunarinnar hafi verið reglulegar markaðsherferðir Samtaka iðnaðarins sem eigi að hvetja neytendur til að kaupa íslenskar vörur enda þjóðin líklega aldrei verið móttækilegri fyrir slíkri hvatningu en einmitt nú í haust þegar allar spár bentu til að gríðarlegt atvinnuleysi vofði yfir Íslendingum. Samtöl við ýmsa framleiðendur og Samtök iðnaðarins hafi enda staðfest að herferðin hefði skilað árangri.
Til undirbúnings fréttaskýringarinnar segist Lóa hafa farið í vettvangsferðir í verslanir og athyglin hafi beinst að því hversu takmarkaðar upplýsingar um uppruna eru almennt á vörum með íslenskum merkingum. Hún kveðst hafa kannað uppruna varanna og farið síðan í Krónuna á Bíldshöfða einn eftirmiðdag til að kanna hvað fólk héldi um upprunaland ákveðinna vörutegunda. Nær allir viðmælenda hafi talið að Minna mál væri íslensk vara við fyrstu sýn.
Í greinargerðinni segir að til séu reglur um merkingar á vörum, en þær séu rúmar og framleiðendum beri ekki skylda til að upplýsa hvaðan vara sé. Hins vegar megi ekki blekkja kaupendur um uppruna vöru. Í ljósi átaks SI og vegna viðbragða neytenda í Krónunni segist Lóa sem fréttamaður Stöðvar 2 ákveðið að kæra merkingar Myllunnar á Minna máli og merkingar á frosnu erlendu grænmeti undir heitinu Íslenskt meðlæti til Neytendastofu. Það hafi verið gert til þess að fá álit hlutlauss aðila á viðkomandi merkingum.
Þá tekur Lóa fram, að rangt sé með það farið í kærunni, að Björn Jónsson framkvæmdastjóri Myllunnar hafi tekið vel í viðtal. Hið rétta sé að hann hafi ekki viljað koma í viðtal vegna merkinga á Minna máli eins og raunar virðist koma fram í kærunni, en þar sagði: taldi Myllan að að ekki væru forsendur fyrir frekari samskiptum við fulltrúa fréttastofunnar vegna málsins".
Lóa segir að hún hefði að sjálfsögðu tekið viðtal við Björn hefði það verið í boði, rétt eins og við Martein Magnússon, markaðsstjóra hjá Íslensku meðlæti og Alfreð Jóhannsson, sölustjóra Ó. Johnson & Kaaber. Þá sé einnig rangt með farið í kærunni að í fyrra símtali hafi hún óskað skýringa á því hví Minna mál Ágústu Johnson væri merkt með átaksmerki SI. Hún hafi hvergi séð Minna mál merkt með þeim miða. Hún hafi eingöngu óskað upplýsinga um hvar varan væri framleidd, sem Björn hafi upplýst greiðlega. Kveðst hún hafa sagt honum að hún væri að vinna að fréttaskýringu um hvenær vara teljist íslensk, í tilefni af átaki SI.
Í greinargerð Lóu er því haldið fram að fréttaskýringin Veljum íslenskt hafi verið unnin af fagmennsku og þar tekið á brýnu álitaefni á íslenskum neytendamarkaði. Framleiðendum/innflytjendum þeirra vara sem sérstaklega voru skoðaðar var boðið í viðtal og þáðu tveir þeirra það. Lóa segir að þess hafið verið gætt í hvívetna að vandal upllýsingaöflun, úrvinnslu og framsetningu málsins.
Siðanefnd telur að efnistök og rannsóknarvinna í þessari umfjöllun Stöðvar 2 verði að teljast eðlileg og fullnægjandi. Grundvallaratriði málsins er að viðbrögð viðmælenda í Krónunni í fréttaskýringunni sýndu að mynd af Ágústu Johnson á Minna máli gaf hrökkbrauðinu íslenska ásýnd, þótt ekki sé dregið í efa að fyrir Myllunni hafi fyrst og fremst vakað að skírskota til hollustu vörunnar. Í umfjölluninni er heldur hvergi sagt að slíkur ásetningur liggi að baki hjá Myllunni, heldur einungis að myndin af Ágústu veki þau hugrenningatengsl hjá neytandanum að varan sé íslensk. Á þann hátt njóti hún góðs af átaki Samtaka iðnaðarins.
Eðli málsins samkvæmt þarf iðulega að fara hratt yfir sögu í umfjöllun af þessu tagi. Sjaldan gefst tími til að fara í nákvæmar útlistanir og einfalda þarf flókna hluti. Oft er það einnig eðli fréttaskýringa í sjónvarpi að framsetning og efnistök eru ágeng. Slíkt má þó ekki verða á kostnað staðreynda og nákvæmni upplýsinga. Ekki verður á það fallist að um slíkt hafi verið að ræða í umræddri umfjöllun.
Eftir stendur orð gegn orði varðandi viðtal við forsvarsmann Myllunnar, en hugsanlega hefði það gert kæru þessa óþarfa. Siðanefnd hefur engin tök á að úrskurða í því efni.
Kærðu teljast ekki hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands.
Reykjavík, 18. maí 2009
Hjörtur Gíslason; Björn Vignir Sigurpálsson; Jóhannes Tómasson; Sigurveig Jónsdóttir; Valgerður Jóhannsdóttir