Mál nr. 3/2024-2025

Mál nr. 3/2024-2025

Kærandi: Héðinn Steingrímsson
Kærðu: Björn Þorfinnsson og DV

Kæruefni: Kærð er frétt eftir kærða Björn, sem birtist á vef DV.is þann 23. apríl sl., með
fyrirsögninni „Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í
kylfingum“.
Kærandi telur umfjöllunina brjóta gegn 1., 2. 3., 4., 5., 6., 8., 9., 10. og 12. gr. siðareglna
Blaðamannafélags Íslands.

Málsmeðferð:
Kæran barst skrifstofu BÍ sunnudaginn 23. júní 2024. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fékk
málið í hendur degi síðar. Nefndin tók málið fyrir á fundi 2. júlí og ákvað að senda málið til
andsvara til kærðu. Andsvör bárust 15. júlí. Siðanefnd fundaði um málið á ný 23. júlí og var
úrskurður kveðinn upp í kjölfarið.

Málavextir:
Kærandi málsins er stórmeistari í skák og þrefaldur Íslandsmeistari í greininni. Vorið 2024 var
hann meðal keppenda á Skákþingi Íslands sem fram fór í golfskálanum við Hlíðarvöll í
Mosfellsbæ.
Frétt sú, sem er til umfjöllunar í máli þessu, birtist á vef DV þann 23. apríl og er merkt kærða.
Kærði er alþjóðlegur meistari í skák og var forseti Skáksambands Íslands um tveggja ára skeið
fyrir rúmum fimmtán árum.
Í umfjölluninni var sagt frá því að kærði hefði ekki mætt til leiks við upphaf 7. umferðar mótsins
og þess getið að ástæða brotthvarfsins væru óviðunandi aðstæður á skákstað vegna hávaða frá
höggum kylfinga í nærliggjandi golfhermum. Kærandi hafði áður farið fram á að mótið yrði fært
vegna þessa en mótshaldarar ekki orðið við því.
Í fréttinni var þess enn fremur getið að brotthvarfið gæti haft mikil áhrif á úrslit mótsins, þar sem
sá sem var efstur í því fengi frían vinning úr viðureign sinni við kæranda, auk dýrmætrar hvíldar
milli umferðar. Helstu keppinautar hans um titilinn hefðu hins vegar verið búnir að mæta
kæranda. Í hinni kærðu umfjöllun var enn fremur að finna upprifjanir á eldri fréttum þar sem
kærandi kemur við sögu, m.a. um áminningu sem honum var veitt af dómstóli Skáksambands
Íslands.
Að kvöldi 23. apríl fór kærandi þess á leit við kærða að umfjöllunin yrði leiðrétt og fréttin tekin
til baka. Enn fremur var þess krafist af kæranda að eldri fréttir DV yrðu leiðréttar. Svar kærða
barst degi síðar. Þar var því hafnað að draga hina kærðu frétt til baka. Hins vegar var fallist á að
lagfæra niðurlag hennar og setningu bætt við um að áminning kærða hefði verið dregin til baka í
kjölfar endurupptöku máls hans. Að auki bauð kærði kæranda á að „koma einhverju á framfæri,
til að mynda með yfirlýsingu“ þá myndi DV birta það að sjálfsögðu. Frekari samskipti áttu sér
stað á næstu daga sem óþarft er að rekja hér.
Þann 27. apríl sendi kærandi kærða yfirlýsingu sem geymdi hans sjónarmið. Var þess farið á leit
við kærða að yfirlýsingin yrði birt óbreytt á vef DV.is. Tveimur dögum síðar, 29. apríl, hafnaði
kærði því að birta yfirlýsinguna þar sem það væri „einfaldlega ekki möguleiki að [hann] birti 16
blaðsíðna yfirlýsingu“ og þá yrði fréttinni ekki breytt frekar.
Frekari samskipti áttu sér stað milli aðila áður en til kæru kom til Siðanefndar kom. Fjallað
verður um röksemdir kæranda og kærða eftir því sem tilefni gefst til í umfjöllun nefndarinnar.

Umfjöllun nefndarinnar:

I.

Í málsmeðferðarreglum Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands segir, að hver sá sem telji að
blaðamaður hafi brotið gegn siðareglunum og á hagsmuna að gæta, geti kært ætlað brot til
nefndarinnar innan tveggja mánaða frá birtingu, enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir
almennum dómstólum á sama tíma. Þá skal kæra vera skrifleg og kæruefni „afmarkað með
augljósum hætti“.
Kærandi er til umfjöllunar í hinni kærðu umfjöllun, telur brotið á rétti sínum og kæran barst innan
tveggja mánaða frá birtingu fréttarinnar. Kæra málsins uppfyllir því formskilyrði að því leyti.
Í kærunni, sem telur á fimmta tug blaðsíðna, færir kærandi rök í löngu máli fyrir því að kærði hafi
gerst brotlegur við allar greinar siðareglna Blaðamannafélags Íslands, að 7. og 11. gr.
undanskildum. Kærunni fylgdu að auki á fjórða tug fylgiskjala, en stór hluti þeirra hefur lítil
tengsl við kæruefni málsins. Að því leyti er kæran að umtalsverðu leyti í andstöðu við fyrirmæli
málsmeðferðarreglna nefndarinnar um að kæruefni skuli afmarkað með augljósum hætti.
Þrátt fyrir framangreint þykja ekki alveg næg tilefni til að vísa málinu í heild sinni frá nefndinni
af þessum sökum.

II.

Kæruefni málsins er grein á DV.is undir fyrirsögninni „Uppnám á Íslandsmótinu í skák –
Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum“, dags. 23. apríl 2024, og takmarkast
umfjöllun nefndarinnar við hina kærðu grein. Með greininni telur kærandi að kærði hafi gerst
brotlegur við 1., 4., 8. og 10. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands.
Að mati nefndarinnar er fráleitt að umfjöllunin hafi brotið í bága við 1. gr. siðareglnanna, en
greinin mælir fyrir um að blaðamaður skuli hafa sannleikann að leiðarljósi, standa vörð um
tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga, svo veita megi
nauðsynlegt aðhald í lýðræðisþjóðfélagi. Sömu sögu er að segja af ætluðu broti gegn 4. gr.
siðareglnanna. Þá bendir ekkert til þess að kærði hafi rofið trúnað við heimildamenn sína, sbr. 8.
gr., eða gerst sekur um ritstuld, sbr. 10. gr., auk þess að kærandi hefur ekki hagsmuni af úrlausn
þess efnis, enda hvorki höfundur né heimildamaður efnis sem vísað er til í hinni kærðu umfjöllun.
Kröfum kæranda þess efnis er því hafnað.
III.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að orðin hávaði, kylfuhögg, hvinur og dynkir, í hinni kærðu
umfjöllun, geri lítið úr aðstæðum á skákstað. Með því hafi kærandi verið sýndur í neikvæðu ljósi
og vegið að æru hans og mannorði. Sömu sögu sé að segja af notkun orðsins „uppátæki“ um
miðbik greinarinnar.
Hin kærða grein felur í sér tjáningu kærða og kann hann, eftir atvikum, að bera ábyrgð á henni
gagnvart kæranda samkvæmt almennum réttarreglum. Valdsvið nefndarinnar takmarkast við að
úrskurða um hvort brotið hafi verið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Telji kærandi að
tjáning kærða hafi vegið að æru hans eða mannorði með almennum hætti, heyrir slíkur
ágreiningur undir dómstóla og lýtur settum lögum en ekki siðareglum og Siðanefnd
Blaðamannafélags Íslands, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 1/2024-2025.

IV.

2. gr. siðareglnanna mælir fyrir um að blaðamanni beri að setja fram upplýsingar á heiðarlegan og
sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að leita andstæðra
sjónarmiða þegar við á, auk þess að hagræða ekki staðreyndum og setja ekki fram órökstuddar
ásakanir. Í 3. gr. siðareglnanna er lagt fyrir blaðamann að leiðrétta rangfærslur sé þess þörf.
Kærandi telur að með hinni kærðu umfjöllun hafi kærði brotið gegn greinunum. Í fyrsta lagi hafi
kærði ekki leitað andstæðra sjónarmiða við gerð fréttarinnar, í öðru lagi hafi kærði ekki sett
upplýsingar fram samkvæmt sinni bestu vitund og í þriðja lagi sé meginstef greinarinnar
persónuleg árás gegn kæranda, auk þess að kærði hafi neitað að birta andsvör kæranda á vef
DV.is. Með því hafi kærði gerst brotlegur við 2. gr.
Hvað brot gegn 3. gr. varðar telur kærandi að rangfærslur um áminningu hans frá dómstól
Skáksambands Íslands ekki hafa verið leiðréttar með fullnægjandi hætti, auk þess að í
umfjölluninni sé að finna hlekk í frétt þar sem rangfærslurnar standi óhaggaðar. Í andsvörum
kærða kemur hins vegar fram að ekkert í hinni kærðu umfjöllun sé ekki sannleikanum
samkvæmt.
Í samskiptum milli kæranda og kærða í kjölfar umfjöllunarinnar, gaf kærði kæranda vilyrði fyrir

því að andsvör kæranda fengjust birt yrði þess óskað. Ekki er mælt fyrir um rétt til andsvara í
siðareglum Blaðamannafélags Íslands en þann rétt aftur á móti að finna í 36. gr. laga um
fjölmiðla nr. 38/2011. Ákvörðunarvald um hvort brotið hafi verið gegn þeim rétti hvílir hjá
fjölmiðlanefnd, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Synjunin sjálf telst því ekki brot gegn siðareglunum en
getur, eftir atvikum, falið í sér brot gegn öðrum greinum siðareglnanna, ef efnislegt innihald
andsvaranna fellur þar undir.
Að mati nefndarinnar fjallar hin umdeilda frétt um brotthvarf kæranda af Skákþingi Íslands vegna
óviðunandi aðstæðna á skákstað. Á þeim tímapunkti sem fréttin birtist var engin þörf á því að
leita andstæðra sjónarmiða. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars en að
kærandi hafi hætt í mótinu af annarri ástæðu en óviðunandi aðstæðum á skákstað, sem fólust í
truflunum, hávaða og ónæði af golfiðkun kylfinga í aðliggjandi rými.
Hvað varðar vísan til eldri umfjallanna um kæranda, þá er ljóst að sú skylda hvílir ekki á
blaðamönnum að breyta eldri fréttum vegna atburða sem gerast síðar meir, t.a.m. ef fjallað er um
mál sem lýkur með sakfellingu hjá lægra settum úrskurðaraðila en sýknu fyrir æðra valdi. Sá
háttur að vísa til eða hlekkja á eldri umfjallanir um tengd mál er að mati nefndarinnar
alvanalegur. Ekki er því fallist á það með kæranda að framsetning fréttarinnar hafi ekki verið
verið heiðarleg og sanngjörn og þar með í andstöðu við 2. gr. siðareglnanna.
Í upphaflegri útgáfu hinnar kærðu umfjöllunar var þess getið að kærði hefði árið 2020 verið
áminntur af dómstól Skáksambands Íslands vegna tiltekins atviks það ár. Þess var hins vegar ekki
getið að í kjölfar endurupptöku málsins tveimur árum síðar hefði áminningin verið felld úr gildi.
Ljóst er að kærði leiðrétti umfjöllunina að þessu leyti eftir að krafa þess efnis barst frá kæranda.
Að mati siðanefndarinnar hefði betur farið á því ef leiðréttingarinnar hefði verið getið sérstaklega
í umfjölluninni, þ.e. dregið fram hvað hefði verið leiðrétt og hvenær, með áberandi hætti. Skortur
þar á nægir, eins og hér háttar til, þó ekki til að brotið sé gegn 3. gr. siðareglnanna eða um brot á
heiðarlegri og sanngjarnri framsetningu skv. 2. gr. sömu reglna sé að ræða.

V.

Kærandi telur að kærði hafi gerst brotlegur við 5., 6., 9. og 12. gr. siðareglna Blaðamannafélags
Íslands. 5. gr. kveður á um að blaðamaður beiti hvorki hótunum né þvingunum við
upplýsingaöflun sína og skv. 6. gr. ber blaðamanni að greina á milli staðreynda og skoðana og
gæta þess að umfjöllun sé hlutlæg. 9. gr. mælir m.a. fyrir um að blaðamaður forðist
hagsmunaárekstra, geri grein fyrir tengslum við umfjöllunarefni ef við á og taki ekki þátt í
verkefnum sem stofni sjálfstæði og trúverðugleika hans í hættu. Að endingu mælir 12. gr. fyrir
um að siðareglurnar hamli ekki tjáningarfrelsi blaðamanns en að blaðamanni beri að gæta þess að
persónulegar skoðanir hans hafi ekki áhrif á hlutlægni fréttaflutnings.
Kærandi byggir á því að tiltekin orð í samskiptum hans og kærða, hafi falið í sér hótun sem brjóti
í bága við 5. gr. siðareglnanna. Þá hafi kærði ekki gert grein fyrir tengslum sínum við
umfjöllunarefnið og forystu skákhreyfingarinnar og með því brotið gegn 9. gr. siðareglnanna. Að
endingu hafi umfjöllunin litast af skoðunum kærða á kæranda og með því hafi verið brotið gegn
hlutlægniskyldu 6. og 12. gr. siðareglnanna, sem og fyrrnefndri 9. gr.
Í andsvörum kærða er því hafnað að hann hafi haft í hótunum við kæranda. Þar segir að auki að
„illu heilli [gildi] það iðulega um íþróttafréttir hérlendis“ að þeir sem um þær fjalli tengist
íþróttinni en „séu gildi blaðamennskunnar höfð í heiðri þarf það ekki að koma að sök.“ Það telji
kærði sig hafa gert. Enn fremur er því hafnað að persónuleg skoðun kærða á kæranda hafi haft
árhif á umfjöllun um hann og ef kærði „væri í herferð gegn [kæranda]“ hefði hann skrifað mun
meira um hann.
Sem fyrr segir leggur 5. gr. siðareglnanna bann við því að blaðamaður beiti hótunum eða
þvingunum við upplýsingaöflun sína. Ummæli þau sem kærandi telur fela í sér hótun kærða í sinn
garð, féllu í samskiptum eftir birtingu fréttarinnar og lutu ekki að upplýsingaöflun kærða. Þegar
af þeirri ástæðu verður því hafnað að samskiptin, þótt hvöss hafi verið, hafi brotið gegn 5. gr.
Hvað varðar meint brot gegn 9. gr. siðareglnanna telur nefndin að betur hefði farið á því að kærði
hefði, í samræmi við 2. málsl. 9. gr. siðareglnanna, getið tengsla sinna við skákhreyfinguna og
Skáksamband Íslands í umfjölluninni. Í ljósi þess að þau tengsl ættu að dyljast fæstum, og að hin
kærða umfjöllun fjallaði um afmarkað atvik á skákmóti, er það mat nefndarinnar að ekki felist í
umfjölluninni sjálfstætt brot gegn 9. gr.
Kemur að endingu til umfjöllunar hvort skoðun kærða á kæranda hafi haft áhrif á hlutlæga
framsetningu fréttarinnar, sbr. 6. og 12. gr. siðareglnanna, og hvort í þeim felist hagsmunaárekstur
í andstöðu við 9. gr. sömu reglna.
Að mati nefndarinnar leiða möguleg tengsl eða skoðanir blaðamanns við umfjöllunarefni, sér í
lagi í fámennu þjóðfélagi, ekki sjálfkrafa til þess að umfjöllun brjóti gegn nefndum greinum. Slík
tengsl eða skoðanir blaðamanns leiða hins vegar til þess að minna þarf til að um að brot gegn 6.,
9. eða 12. gr. sé að ræða.

Ráða má af samskiptum aðila málsins, sem lögð voru fyrir nefndina, að þeirra á milli andi köldu.
Að mati nefndarinnar var framsetningin í hinni kærðu frétt, um ástæður þess að kærandi hafi hætt
þátttöku í Skákþingi Íslands, sannleikanum samkvæm og hvorki bætt í né dregið úr því sem átti
sér stað. Þá verður ekki séð að upprifjun á eldri fréttum um kæranda hafi verið óeðlilegu
samhengi við efni hinnar kærðu greinar. Þótt ónákvæmni hafi gætt þar, varð kærði við beiðni
kæranda um leiðréttingu.

VI.

Í samræmi við framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að umrædd tilvik, hvort heldur sem
þau séu virt heildstætt eða ein og sér, nægi ekki til að álykta að kærði hafi gerst brotlegur við
siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Úrskurðarorð:
Kærðu, Björn Þorfinnsson og DV.is, teljast ekki hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags
Íslands með birtingu greinarinnar „Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku
út af hávaða í kylfingum“ þann 23. apríl 2024.

Reykjavík, 26. júlí 2024