Mál nr. 3 2005/2006

Kærandi: Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn.
Kærði: DV.
Kæruefni: Kærð er umfjöllun í DV 20. júní 2005 um kæranda, bæði á forsíðu blaðsins og bls. 8, þar sem sagt er frá syni kæranda, sem mun starfa sem afleysingarlögreglumaður í Grundarfirði, og fullyrt að hann hafi reynt að kyrkja hjartveikt gamalmenni. Kærandi telur umfjöllun um sig í tengslum við þetta mál andstæða siðareglum Blaðamannafélags Íslands. álið er kært með bréfi dags. 22. júní 2005. Kærunni fylgja ljósrit af umfjöllun DV framangreindan dag, tölvupóstur kæranda til ristjóra DV dags. 20. júní 2005, þar sem krafist er afsökunar á mistökum við vinnslu efnisins, auk svarpósts Jónasar Kristjánssonar ritstjóra DV dags. 21. júní 2005. álið var tekið fyrir á fundum nefndarinnar 15. og 18. ágúst 2005. Formleg andmæli lögmanns kærðs, Einars Þórs verrissonar hdl., dags. 13. júlí 2005, liggja fyrir.

Málavextir og málsástæður aðila:

Í kæru segir kærandi „afar erfitt að sætta" sig við „umfjöllun blaðsins.... á forsíðu .... og í grein á bls. 8 í sama blaði". Á forsíðu er mynd af honum í einkennisfatnaði lögreglu undir fyrirsögnunum: „Sonur Geirs Jóns yfirlögregluþjóns er kominn í löregluna: Reyndi að kyrkja hjartveikt gamalmenni: Hinn hjartveiki Guðmundur Jóhannsson var hætt kominn eftir viðskipti sín við afleysingalögguna Þóri Rúnar Geirsson á Grundarfirði. Þórir Rúnar, sem er sonur Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík, reyndi að kyrkja gamla manninn sem þurfti sprengitöflu eftir öll lætin." Á bls. 8 í sama blaði er 4ra dálka aðalfyrirsögn: „Sonur yfirlögregluþjóns reyndi að kyrkja hjartveikt gamalmenni."

Í kæru segir kærandi að með umfjölluninni og áberandi myndbirtingu af honum sem föður umrædds afleysingalögreglumanns sé verið að tengja hann alvarlegum atburði, ef marka megi frásögn blaðsins, einvörðungu á þeirri forsendu að hann sé faðir lögreglumannsins. Telur kærandi að með þessari uppsetningu á fréttinni „sé verið að gera hana meira krassandi og ekki síst blaðið seljanlegra með því að tengja undirritaðan við hana, þar sem undirritaður er vel þekktur af alþjóð af störfum sínum sem yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Ég tel mig hljóta verulegan skaða af svona umfjöllun, sem yfirmaður lögreglunnar í Reykjavík," segir í kæru.

Með tölvupósti dags. 20. júní 2005 krafðist kærandi þess að kærði leiðrétti mistök sín með umfjölluninni, sem hann taldi andstæða eðlilegum siðareglum.

Í svarpósti Jónasar Kristjánssonar, dags. 21. júní 2005, segir að kærandi verði að sætta sig við að vera orðin „opinber persóna". „Þú ert þekktasti lögreglumaður á landinu, hvort sem þér líkar betur eða verr, persónugervingur löggæzlu á Íslandi". „Ef sonur þinn lendir í hremmingum út af ágreiningi um, hvernig staðið hafi verið að afskiptum lögreglunnar á næfellsnesi, er mjög eðlilegt, að fjölmiðill bendi á tengsl hans við frægasta lögreglumann landsins. Í texta og myndum."

Í andmælum lögmanns DV, Einars Þórs verrissonar hdl., er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá vegna vanreifunar, þar sem ekki komi fram í kæru gegn hvaða grein siðareglna meint brot beinist, en til vara að komist verði að þeirri niðurstöðu að brot hafi ekki verið framið í skrifum og framsetningu DV á siðareglum Blaðamannafélags Íslands í umræddri blaðagrein. Í andmælunum er lögð áhersla á að umfjöllunin sé efnislega rétt og ekki á neinn hallað í henni.

Umfjöllun:

Siðanefnd telur ekki nægjanlegar forsendur til að vísa kærunni frá sökum vanreifunnar, enda getur kæran aðeins átt við 3. gr. siðareglna BÍ.

Í 3. gr. siðareglna BÍ segir að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu eins og kostur er og sýni „fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu."

Siðanefnd er sammála ritstjóra DV um að kærandi sé orðinn „opinber per-sóna" í skilningi laga vegna starfa sinna fyrir lögregluna og verði því að sæta ítarlegri umfjöllun um sína persónu en almennir borgarar. Hins vegar er það mat siðanefndar, að fyrirsagnagerð og myndbirtingar af kæranda í DV 20. júní 2005, í tengslum við frétt af lögreglustörfum sonar hans, hafi ekki borið vott um þá tillitssemi sem blaðamönnum er uppálagt að sýna samkv. 3. siðareglna BÍ, þrátt fyrir að fella megi persónu kæranda undir flokk „opinberra persóna". Ekki hafi verið óeðlilegt að geta blóðtengsla þeirra feðga í fréttinni. Hins vegar hafi þau tengsl verið gerð að einu aðalatriði umfjöllunarinnar, þannig að hætta hafi verið á að lesendur blaðsins teldu kæranda tengjast fréttinni með alvarlegri hætti en raun var á, sérstaklega vegna ítrekaðra myndbirtinga af kæranda. Af þessari ástæðu hafi umfjöllunin í heild sinni valdið kæranda óþarfa sársauka og vanvirðu og feli í sér ámælisvert brot á 3. gr. siðareglna BÍ.

Úrskurður:

Hin kærða háttsemi felur í sér ámælisvert brot á 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands.

Reykjavík, 18. ágúst 2005.

Kristinn Hallgrímsson; Brynhildur Ólafsdóttir; Hjörtur Gíslason; alvör Nordal; igurveig Jónsdóttir