- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Aðsent - 15.mars 2010
Kærandi: Stefán Guðmundsson
Kærða: Karen Kjartansdóttir.
Kæruefni: Frétt í fréttatíma Stöðvar 2, og efnislega sama frétt á visir.is, 24. nóvember 2009 um forsjárdeilumál.
Kærandi: Stefán Guðmundsson
Kærða: Karen Kjartansdóttir.
Kæruefni: Frétt í fréttatíma Stöðvar 2, og efnislega sama frétt á visir.is, 24. nóvember 2009 um forsjárdeilumál.
Kæra barst siðanefnd með bréfi dagsettu 22. janúar 2010 ásamt ítarlegum fylgigögnum. Málið var tekið fyrir á fundi 10. febrúar og þá ákveðið að óska eftir greinargerð frá kærðu. Greinargerð kærðu barst siðanefnd 23. febrúar. Siðanefnd tók málið síðan fyrir 3. mars og 8. mars.
Í hinni kærðu frétt var fjallað um niðurstöðu rannsóknar ónafngreinds lögfræðings á ofbeldistilvikum tengdum forsjárdeilumálum og rakið dæmi um atvik í einu slíku máli, þar sem kallaðir voru út alls fimm lögregluþjónar til að framfylgja innsetningarúrskurði á þá lund að koma stúlkubarni til föður. Innsetningaraðgerðin var framkvæmd á heimili móðurinnar þann 2. júlí 2009. Fréttin studdist við niðurstöður áðurnefndrar rannsóknar, við skýrslu lögregluþjónanna fimm um framkvæmd umræddrar innsetningargjörðar, vitnað var í læknisvottorð og tilsvör frá lögmanni föðurins og fulltrúum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Í fréttinni var meðal annars fullyrt að stúlkubarnið hefði þurft á læknishjálp að halda eftir heimsóknina til föður síns. Ekki var þó um að ræða nafngreiningu á málsaðilum eða ígildi nafngreiningar.
Í kærunni eru alls fimm atriði sérstaklega kærð og tölusett og almennt vísað til þriðju greinar siðareglna BÍ. Verða þessi fimm atriði kærunnar nú rakin stuttlega og greint frá tilsvörum hinnar kærðu við þeim.
Í fyrsta kærulið fullyrðir kærandi að kærða hafi farið með rangfærslu með því að láta að því liggja að ástæða fjölgunar lögreglumanna á staðnum hafi verið sú að barnið hafi ekki viljað fara til föður". Hin kærða andmælir þessu með því að benda á skýrslu lögregluþjónanna fimm, en þar stendur meðal annars: Greinilegt var að (stúlkubarnið) vildi ekki fara frá móður sinni" auk þess sem fleira í skýrslunni styðji við þennan skilning.
Í öðrum kærulið er kærð sú fullyrðing í fréttinni að Stúlkan þurfti læknishjálp eftir heimsóknina til föður síns". Eftir innsetninguna var stúlkubarnið hjá föður sínum í fimm vikur. Hin kærða vísar til læknisvottorðs frá því 18. september 2008 (vegna annarrar og undanfarandi innsetningar) og til matsgerðar dómskvadds matsmanns, sálfræðings, dags. 22. nóvember 2009, auk þess sem hin kærða vísar til læknisvottorða, þar sem fram kæmi að stúlkan glímdi við svefnleysi, skjálfta, kvíða og angist, en einkennin væru tengd pabbadögum".
Í þriðja kærulið mótmælir kærandi harðlega umfjöllun sem höfð er eftir lögregluþjónum og þeirri skýrslu sem þeir eru sagðir hafa skrifað allir undir...". Hin kærða gerir kröfu um að þessum kærulið verði vísað frá, enda varði hann ekki blaðamennsku hennar, heldur formlegri skýrslu fimm lögregluþjóna, sem hlyti að teljast traust heimild.
Í fjórða kærulið er eftirfarandi úr viðkomandi frétt kært sem rangfærsla: Í læknisvottorði sem sent var sýslumanninum í Reykjavík eftir umgengni feðginanna kemur þetta hinsvegar fram. Met ég ástandið alvarlegt og á þann veg að aðför nú hafi mjög slæmar afleiðingar fyrir heilsu barnsins". Hin kærða svarar því til efnislega að full ástæða hafi verið fyrir því að taka læknisvottorðinu sem fullgildu gagni. Hins vegar kemur fram í gögnum hins kærða máls að um sama læknisvottorðið er að ræða og fyrr var nefnt, þ.e. frá því 18. september 2008 (vegna annarrar og undanfarandi innsetningar).
Í fimmta kærulið er það kært að hin kærða virðist hafa haft ólöglega undir höndum TRÚNAÐARGÖGN í málinu og afbakað þar á alvarlegan hátt staðreyndir málsins" og að hin kærða hafi komið viðkomandi gögnum í hendur formanns Jafnréttisráðs með það að markmiði að fá undirritaðan rekinn úr Jafnréttisráði eða að koma höggi á hann þar". Kærði sat í Jafnréttisráði sem skipaður fulltrúi Félags um foreldrajafnrétti (virkur varamaður). Hin kærða svarar því til að hún hafi ætlað að skrifa frétt um að í Jafnréttisráði ætti sæti einstaklingur (kærandi þessa máls) þótt viðkomandi hefði viðurkennt fyrir Hæstarétti að hafa beitt konu og barn ofbeldi". Við undirbúning þessarar fréttar hafi hin kærða leyft formanni Jafnréttisráðs að fá gögnin til yfirlestrar. Ekkert varð þó af birtingu fréttar um málið og segir hin kærða að það hafi verið að ósk formanns Jafnréttisráðs. Hin kærða gerir kröfu um að þessum kærulið verði vísað frá þar sem hann varði ekki þriðju grein siðareglna BÍ.
Ekki var samkvæmt gögnum málsins leitað leiðréttingar á efnisatriðum fréttarinnar eftir birtingu, en siðanefnd úrskurðaði málið þó tækt með vísan til samskipta og upplýsingamiðlunar kæranda til kærðu og fréttastjóra Stöðvar 2 fyrir birtingu.
Verður nú tekin afstaða til hvers kæruliðar fyrir sig, utan að fjallað verður um kæruliði nr. 2 og nr. 4 saman síðast í röðinni.
Í fyrsta kærulið er að finna hlutlæga frásögn sem byggð er á trúverðugri heimild, skýrslu fimm lögregluþjóna. Auk þess birtust með fréttinni þau andsvör lögmanns kæranda, að viðkomandi væri ósammála lýsingu lögregluþjónanna. Í ljósi þessa telur siðanefnd að hin kærða hafi ekki gerst brotleg við siðareglur.
Í þriðja kærulið beinist umkvörtun kæranda að innihaldi skýrslu fimm lögregluþjóna og því ekki að hinni kærðu. Fallist er á kröfu hinnar kærðu og þessum kærulið vísað frá.
Í fimmta kærulið beinist umkvörtun kæranda að atriðum sem ekki varða hina kærðu frétt. Ljóst er að upplýsingaöflun vegna sjálfstæðrar fréttar var í gangi samkvæmt eðlilegu fréttamati. Helsta umkvörtun kæranda, meint afhending trúnaðargagna, er utan verksviðs siðanefndar. Þessum kærulið er vísað frá.
Í kæruliðum tvö og fjögur er því haldið fram að dóttir kæranda hafi þurft læknishjálp eftir umgengni við hann. Fréttatextinn verður ekki skilinn á annan hátt en að sérstaklega hafi verið átt við umgengnistímann í kjölfar umræddrar innsetningaraðgerðar, þ.e. frá 2. júlí 2009 og þann tíma eftir hana sem dóttirin var hjá föður sínum. Í þessu sambandi er alls ófullnægjandi að vísa til læknisvottorðs vegna innsetningar mörgum mánuðum fyrr. Engin önnur framlögð gögn benda til þess að stúlkan hafi þurft á læknishjálp að halda vegna þeirrar umgengni sem fréttin fjallar um, þótt finna megi því stoð, með vísan til skýrslu lögregluþjónanna fimm og tilvitnaðra ummæla dótturinnar þar, að faðirinn hefði á einhverjum ótilgreindum fyrri tíma verið vondur við sig" og hefði slegið sig og hrist". Fullyrðingin í öðrum kærulið Stúlkan þurfti læknishjálp eftir heimsóknina til föður síns" telst því röng og vera brot á þriðju grein siðareglna BÍ. Efnistökin í fjórða kærulið, þar sem segir, Í læknisvottorði sem sent var sýslumanninum í Reykjavík eftir umgengni feðginanna kemur þetta hinsvegar fram. Met ég ástandið alvarlegt og á þann veg að aðför nú hafi mjög slæmar afleiðingar fyrir heilsu barnsins" eru í sömu andrá óvandvirk, því þótt rétt sé eftir haft þá átti þetta læknisvottorð ekki við um téða innsetningu og umgengnistíma. Í þessu samhengi telst hér einnig vera um að ræða brot á þriðju grein siðareglna BÍ.
Ljóst er að hér var viðkomandi fréttamaður að fjalla um viðkvæman málaflokk, þar sem sérstaklega mikilvægt mátti telja að fullrar tillitsemi yrði gætt, en jafnframt er ljóst að eðlilegt er að fjölmiðlar fjalli um slík mál. Í öllum megindráttum telst hin kærða í þessu máli hafa forðast að valda óþarfa sársauka, svo sem með því að viðhafa ekki nafngreiningu eða ígildi nafngreiningar. Þá telur siðanefnd að við mat á alvarleika viðkomandi brota beri að hafa í huga að kærandi gerði sér sjálfur far um að lýsa viðkomandi forræðismáli, undir nafni og mynd af sér og dóttur sinni, í DV í ágúst 2008 og er í þessu sambandi vísað til dóms siðanefndar í máli nr. 4 frá 2005-2006.
Kærða, Karen Kjartansdóttir, braut 3. gr. siðareglna hvað kæruliði nr. 2 og nr. 4 varðar. Brotið er ámælisvert. Kæruliður nr. 1 felur ekki í sér brot og kæruliðum nr. 3 og nr. 5 er vísað frá.
Reykjavík, 8. mars 2010,
Björn Vignir Sigurpálsson, Hjörtur Gíslason, Ásgeir Þór Árnason, Jóhannes Tómasson, Friðrik Þór Guðmundsson