- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kærandi: Sigurður G. Guðjónsson f.h. Guðmundar Þóroddssonar
Kærðu: Bogi Ágústsson og ÞórdísArnljótsdóttir, fréttamenn RÚV
Fréttaflutningur um kröfu Orkuveitu Reykjavíkur þess efnis að Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri OR, skili gögnum, bifreið, farsíma og tölvu sem voru í vörslu hans. Málið var kynnt í fyrstu frétt sjónvarps að kvöldi 9. júlí með orðunum: Neitar að skila trúnaðargögnum.
Kæran barst Siðanefnd með bréfi dagsettu 27. júlí 2008. Fylgiskjöl voru endurrit frétta sjónvarps og útvarps dagana 9. til 14. júlí 2008, afrit af yfirlýsingu Guðmundar Þóroddssonar dagsettri 10. júlí 2008 og afrit af bréfi
Sigurðar G. Guðjónssonar til Ríkisútvarpsins 16. júlí 2008. Þar sem siðanefnd náðist ekki saman strax vegna sumarleyfa var ákveðið að leita umsagnar kærðu vegna kæruefnisins og bárust þær í bréfi og tölvupósti dagsettum 22. og 25. september. Siðanend tók málið síðan fyrir á fundum sínum 29. september og 6. október.
Málið varðar fréttaflutning sem hófst í kvöldfréttatíma Sjónvarps kl. 19. þann 9. júlí, hélt áfram þar næstu daga svo og í fréttum útvarps. Inngangur fyrstu fréttarinnar var svohljóðandi:
Guðmundur Þóroddsson, sem lét af störfum sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í lok maí, tók marga kassa með trúnaðarupplýsingum úr skjalageymslu Orkuveitunnar skömmu fyrir starfslok.
Hann neitaði að afhenda gögnin þegar eftir því var leitað. Þess hefur nú verið krafist að hann skili gögnunum í dag, annars þurfi Orkuveitan að grípa til aðgerða."
Í fréttinni er síðan greint frá því að Guðmundur hafi meðal annars tekið með sér fundargerðir og fundargögn stjórnar Orkuveitunnar síðastliðin tíu ár sem hafi lengstum verið trúnaðarrmál og starfsmönnum Orkuveitunnar sé algerlega óheimilt að fara með gögnin úr húsi." Einnig segir að Guðmundur hafi oftsinnis verið beðinn að skila gögnunum en án árangurs. Hafi þetta valdið vandræðum hjá því starfsfólki Orkuveitunnar sem þurft hafi að fletta upp í gögnunum. Þá segir að Guðmundur hafi verið krafinn um að afhenda jeppabifreið sem hann hafi fengið þegar hann var forstjóri Orkuveitunnar en því hafi hann einnig neitað.
Tekið er fram í lok fréttarinnar að ekki hafi náðst í Hjörleif Kvaran, starfandi forstjóra Orkuveitunnar.
Kærandi kveðst hafa sent fjölmiðlum yfirlýsingu 10. júlí þar sem fram hafi komið að hann hafi ekki tekið nein skjöl úr skjalageymslu Orkuveitunnar. Þrátt fyrir þetta hafi sjónvarpið ekki sé ástæðu til að leiðrétta fréttina frá kvöldinu áður. Þá kveðst kærandi hafa með bréfi dagsettu 16. júlí óskað þess að fréttastofa sjónvarps dragi frétt sína frá 9. júlí til baka og bæði sig afsökunar á ærumeiðandi aðdróttunum sem í henni fólust. Fréttastofan hafi ekki orðið við þessari ósk.
Rök kæranda: Kærandi telur alvarlega brotið gegn sér með meiðandi fréttaflutningi þar sem í honum hafi fólgist alvarlegar aðdróttanir í sinn garð um skjalaþjófnað og hald bifreiðar. Bendir kærandi á að í inngangi fréttarinnar segi að hann hafi tekið marga kassa af trúnaðarupplýsingum úr skjala geymslu Orkuveitunnar. Sú staðhæfing sé röng og feli í sér aðdróttun um skjalaþjófnað sem ekki sé fótur fyrir.
Kveður kærandi það einnig eiga við um fullyrðingar í fréttinni þess efnis að hann hafi tekið gögn sem aðeins hafi verið til í einu eintaki, hann hafi tekið viðskiptasamninga og að skjölin hafi fyllt marga kassa.
Kærandi segir fréttamanninn sem vann fréttina, Þórdísi Arnljótsdóttur, ekki hafa reynt að hafa samband við sig sem þó hafi verið aðalumfjöllunarefni fréttarinnar. Telur hann að með því hafi fréttmaðurinn brotið gegn 3. grein siðareglnanna sem bjóði að blaðamaður skuli vanda upplýsingaöflun sína. Ljóst sé að upplýsingar fréttamannsins hafi ekki verið komnar frá þeim sem gerst þekkti til málsins innan Orkuveitunnar. Af þessum vinnubrögðum hafi leitt að fréttin hafi verið efnislega röng. Telji hann fréttina alvarlegt brot á 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands.
Einnig bendir kærandi á að ríkissjónvarpið hafi talið málið svo mikilvægt að fréttin hafi verið fyrsta kynnta og first lesna frétt sjónvarpsins umrætt kvöld.
Þá kveður hann merkilegt að sjá að frétt um skil á gögnunum hafi verið sjöunda frétt að kvöldi 14. júlí.
Rök kærðu: Bogi Ágústsson segir í greinargerð sinni að hann sé ekki félagi í Blaðamannafélagi Íslands og félagið hafi því ekki lögsögu í málinu. Hann hafi hvorki annast fréttaöflun né skrifað neina frétt sem gerð sé að umtalsefni.
Þórdís Arnljótsdóttir gerir þá aðalkröfu í greinargerð sinni að kærunni verði vísað frá og til vara að kröfum kæranda verði hafnað.
Þórdís segir varðandi aðalkröfuna um frávísun að hún sé ekki félagi í Blaðamannafélagi Íslands og reglur þess taki einvörðungu til meðlima þess. Geti siðanefnd því ekki úrskurðað á grundvelli siðareglnanna í málum annarra en félagsmanna. Um varakröfuna um að hafna beri kröfum kæranda segir hún að frétt sín hafi byggt á traustum heimildum. Ekki sé tilefni til að efast um réttmæti efnislegs innihalds fréttarinnar, þess mats Orkuveitunnar að kærandi hefði gögn í fórum sínum og umráð bifreiðar sem tilheyrði Orkuveitunni og kærandi hefði skirrst við að afhenda. Nægi í því sambandi að vísa til þess að kæranda hafi verið sent bréf frá lögfræðingum sama efnis og umrædd frétt auk þess sem síðari fréttir af málinu staðfesti það.
Um athugasemd kæranda þess efnis að ekki hafi verið haft samband við forstjóra Orkuveitunnar segir hún fráleitt að gera þá kröfu enda hafi heimildir fyrir fréttinni verið traustar. Þá sé rangt hjá kæranda að ekki hafi verið reynt að hafa samband við hann, fréttamaðurinn hafi reynt að hafa uppi á símanúmeri kæranda án árangurs. Ekki hafi verið talin ástæða til að bíða með fréttina þar sem heimildir hafi verið taldar nægilega traustar eins og komið hafi á daginn. Einnig tekur fréttamaðurinn fram að í samræmi við siðareglur RÚV verði ekki greint frá því við hverja hafi verið rætt eða hvaða gagna og upplýsinga hafi verið aflað. Verður ekki séð að slíkt hafi neina þýðingu enda liggur ekki annað fyrir en að efnislegt inntak fréttar undirritaðrar hafi verið rétt í öllum meginatriðum, sbr. og að framan."
Umfjöllun siðanefndar: Í umfjöllun sinni telur siðanefnd sig hafa lögsögu í málinu enda þótt umræddir fréttamenn séu ekki félagar í Blaðamannafélagi Íslands og hefur siðanefnd í gegnum árin oftlega tekið fyrir mál er varða umfjöllun RÚV, nú síðast í málum nr. 1/2007?2008 og nr. 3/2007-2008. Fordæmi er og fyrir því, til dæmis frá árinu 1987, að útvarpsstjóri hafi leitað til siðanefndar vegna gagnrýni þáverandi útvarpsráðs á fréttaflutning í RUV. Óskaði útvarpsstjóri eftir því að siðanefnd skæri úr um hvort vinnubrögð sem viðhöfð voru brytu í bága við þær siðareglur sem nefndin teldi blaðamönnum skylt að fara eftir.
Tekinn er fyrir sá hluti kærunnar sem beinist að Þórdísi Arnljótsdóttur enda ljóst af yfirlýsingu Boga Ágústssonar að hann kemur ekki við sögu við vinnslu umræddra frétta.
Til úrlausnar er hvort umrædd frétt ríkissjónvarpsins 9. júlí klukkan 19 þess efnis að fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar hafi tekið í óleyfi gögn Orkuveitunnar er hann lét af störfum sem forstjóri og neitað að skila þeim og hafi enn undir höndum bifreið frá Orkuveitunni sé efnislega rétt. Fram kom að hann hafi tekið gögnin úr skjalageymslu Orkuveitunnar. Fram kemur í lok fréttarinnar að ekki hafi náðst í Hjörleif Kvaran, starfandi forstjóra Orkuveitunnar. Í greinargerð fréttamanns RÚV um það atriði segir að fráleitt sé að gera þá kröfu enda hafi traustar heimildir verið fyrir fréttaflutningnum. Hingað til hafi ekki verið gerð sú krafa til blaðamanna/fréttamanna að þeir hafi fortakslaust samband við forstjóra fyrirtækja vegna frétta sem varða þau, búi hlutaðeigandi blaðamaður/fréttamaður yfir traustum upplýsingum. Engu að síður er tekið fram í lok fréttarinnar að ekki hafi náðst í starfandi forstjóra sem þýðir að slíkt hafi verið reynt.
Í þessari fyrstu frétt sjónvarpsins um málið kemur fram alvarlegar ásakanir á fyrrverandi forstjóra. Ljóst er að fyrir slíkum fréttum hljóta að þurfa að vera afar traustar heimildir. Þar sem fréttastofan taldi þær vera fyrir hendi er ekki óeðlilegt að hefja fréttaflutning á málinu jafnvel þótt telja megi að ekki séu öll kurl komin til grafar þá.
Í yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra, sem hann sendi nokkrum fjölmiðlum daginn eftir, er því mótmælt að hann hafi tekið gögn í óleyfi, hann sé einungis með afrit af fundargögnum frá starfstíma sínum og frumrit séu í skjalasafni Orkuveitunnar og aðgengilegstarfsmönnum. Það atriði fréttarinnar standist því heldur ekki að starfsmenn Orkuveitunnar hafi ekki getað sinnt störfum sínum vegna þess að gögnin hafi ekki verið fyrir hendi. Varðandi bifreið sem hafi verið hluti af starfskjörum segir forstjórinn fyrrverandi að sá skilningur hafi verið uppi að sá hluti kjaranna væri enn í gildi en ef komin væru upp ný sjónarmið væri sjálfsagt að ræða slíkt.
Í frétt sjónvarpsins 10. júlí klukkan 19, kvöldið eftir fyrstu fréttina, er vitnað til yfirlýsingar Guðmundar Þóroddssonar og samtals við hann þar sem hann lýsir furðu sinni á umræddum fréttaflutningi og kveðst ekki hafa tekið gögnin úr skjalageymslu Orkuveitunnar.
Þau séu afrit sem hann hafi fengið send fyrir stjórnarfundi líkt og stjórnarmenn. Vitnað er til þess sem segir í yfirlýsingunni að Guðmundur eigi í vinsamlegum viðræðum við forstjóra Orkuveitunnar um að skila gögnunum og því hafi komið sér á óvart að fáharðort bréf frá lögfræðingum og þar sem svo sé komið telji hann rétt að ráðfæra sig við lögfræðinga. Einnig er í fréttinni greint frá afstöðu Guðmundar Þóroddssonar varðandi afnot af bifreið og að sjálfsagt sé að ræða málið ef ný sjónarmið þar að lútandi hafi komið upp.
Í fréttinni 10. júlí eru því tíunduð þau atriði sem forstjórinn fyrrverandi telur að ranglega hafi verið farið með í fyrstu fréttinni og hún því leiðrétt í þeim skilningi. Í bréfi til útvarpsstjóra dagsettu 16. júlí fer lögmaður Guðmundar fram á að fréttastofa ríkissjónvarpsins dragi fréttina frá 9. júlí umskjalastuld til baka og biðji hann afsökunar á ærumeiðandi aðdróttunum.
Siðanefnd telur að með því að greina frá þeim atriðum í yfirlýsingu Guðmundar Þóroddssonar sem vörðuðu fullyrðingar í fréttinni 9. júlí hafi ónákvæmt orðalag verið leiðrétt enda þótt orðið leiðrétting hafi ekki verið notað né hann beðinn afsökunar.
Þórdís Arnljótsdóttir telst ekki hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands.
Reykjavík 6. október 2008
Hjörtur Gíslason, Björn Vignir Sigurpálsson, Jóhannes Tómasson, Salvör Nordal, Sigurveig Jónsdóttir