Mál nr. 1/2010-2011

Aðsent - 01.júlí 2010
Kærandi: NN
Kærða: Sölvi Tryggvason.
Kæruefni: Umfjöllun/viðtal kærða á Skjá einum og Pressunni 24. febrúar 2010

Málsmeðferð

Kæra barst siðanefnd (SBÍ) með bréfi dagsettu 23. apríl 2010 ásamt fylgigögnum. Málið var tekið fyrir á fundi 29. apríl og ákveðið að óska eftir greinargerð frá kærða. Greinargerðin barst 31. maí. SBÍ tók málið síðan fyrir 11. júní.

Málavextir

Í hinni kærðu umfjöllun var viðtal við móður í forræðisdeilu en fyrst og fremst fjallað um yfirheyrslu yfir barni hennar hjá héraðsdómi – framkvæmdin á þeirri yfirheyrslu kölluð „réttarmorð". Gagnrýni beindist fyrst og fremst að réttarkerfi landsins. Hvorki móðirin, barnið né aðrir málsaðilar voru nafngreindir eða þekkjanlegir á mynd.

Umfjöllun

Í kærunni eru alls fjögur atriði sérstaklega kærð og tölusett og almennt vísað til þriðju greinar siðareglna BÍ.

Fyrsti liður lýtur að því að lögreglurannsókn í viðkomandi máli hafi verið lokið og málið fellt niður, en kjarni umfjöllunarinnar laut að framgangi þess hvernig yfirheyrsla yfir barni fór fram, en ekki að ákæruatriðum dómsmálsins sem slíkum. Þótt upplýsingar um niðurfellingu málsins hefðu bætt umfjöllunina telur SBÍ að siðareglur hafi hér ekki verið brotnar.

Annar liður kærunnar beinst að því að viðkomandi móðir hafi á facebook-síðu greint frá væntanlegri umfjöllun kærða, en þau ummæli geta á engan hátt verið á ábyrgð hins kærða. Þessum kærulið er vísað frá.

Í þriðja lið heldur kærandi því fram að heimildarmaður kærða hafi verið faðir kærða, sálfræðingur. Þessu hafnar kærði og lýsir sem dylgjum. Telur SBÍ þennan kærulið ekki varða efnisatriði umfjöllunarinnar og hagsmuni kæranda og að ekki hafi verið sýnt fram á óréttmæta heimildanotkun. Telur SBÍ að siðareglur hafi hér ekki verið brotnar.

Í fjórða lið er á það bent að kærði hafi vitnað ranglega til lagagreinar. Rétt er að kærði vitnar þar til greinargerðar með lagafrumvarpi en ekki til lagagreinar. Þessi ónákvæmni er að sönnu ekki til eftirbreytni, en er að mati SBÍ hvorki þess eðlis að teljast brot á siðareglum né til þess fallin að valda kæranda óþarfa sársauka.

Það er meginniðurstaða SBÍ að í þessu viðkvæma máli hafi hinn kærði gætt þess í hvívetna að valda ekki óþörfum sársauka. Í viðkomandi viðtali var ekki hægt að rekja lýsingu viðmælanda til ákveðinna einstaklinga og um réttmætt umfjöllunarefni var að ræða. Hinn kærði fullyrðir enn fremur að hann hafi boðið „þeim sem höfðu út á umfjöllunina að setja upp á að koma í viðtal", en því hafi verið hafnað.

Úrskurður:

Kærði, Sölvi Tryggvason, braut ekki 3. gr. siðareglna hvað kæruliði nr. 1, 3 og 4 varðar. Kærulið nr. 2 er vísað frá.

Björn Vignir Sigurpálsson, Hjörtur Gíslason, Friðrik Þór Guðmundsson, Salvör Nordal, Ásgeir Þór Árnason