Mál 7/2002-2003

Kærandi: Alþjóðahús.
Kærði: Fréttablaðið.
Kæruefni: Fréttaflutningur Fréttablaðsins um fólk af erlendum uppruna á Íslandi. Sérstaklega er kært vegna fréttar er birtist á forsíðu Fréttablaðsins 2. janúar 2003 undir fyrirsögninni „Lögregla rannsakar meint gervihjónabönd".

Kæra barst siðanefnd með bréfi Kötlu Þorsteinsdóttur, lögfræðings Alþjóðahúss, dags. 13. janúar 2003. Félag íetnama á Íslandi hefur látið málið til sín taka með bréfi Thuy Ngo, varaformanns félagsins, til siðanefndar, dags. 15. febrúar 2003. Gunnar mári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sendi siðanefnd athugasemdir með bréfi, dags. 12. febrúar 2003 og kom á fund nefndarinnar. Þá komu fulltrúar kæranda, þær Guðrún Pétursdóttir, verkefnisstjóri og Katla Þorsteinsdóttir, lögfræðingur, á fund nefndarinnar. iðanefnd fjallaði um mál þetta á fundum sínum 17. og 24. febrúar, 3. og 10. mars.

Málavextir

Kærandi kveður ástæðu kærunnar vera fréttir sem birst hafa í Fréttablaðinu og varða fólk af erlendum uppruna. Telur kærandi að fréttir þessar hafi verið til þess fallnar að vekja ranghugmyndir, hafi skapað neikvæðar staðalmyndir af innflytjendum og að þær séu fordómahvetjandi. érstaklega er kærð frétt sem birtist í Fréttablaðinu 2. janúar 2003 undir fyrirsögninni: „Lögregla rannsakar meint gervihjónabönd".

Í undirfyrirsögn segir: „Af 18 hjónum sem komið hafa frá íetnam eftir 1990 hafa 17 skilið. umt fólkið hefur síðan gengið nokkrum sinnum í hjónaband, að því er talið er til að koma fólki inn í landið. álinu líkt við sparimerkjahjónaböndin á árum áður". Þá er í fréttinni greint frá því að lögreglan hafi til rannsóknar hvort hópur fólks af víetnömsku bergi brotið hafi með skipulögðum hætti efnt til hjúskapar í því skyni að útvega löndum sínum ótímabundið atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi.

Í niðurlagi fréttarinnar er frá því greint að Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni í Reykjavík staðfesti að slíkt mál sé til rannsóknar.

Kærandi telur fréttina byggjast augljóslega á óstaðfestum upplýsingum, að umfjöllun í fréttinni um réttindi þeirra sem gifst hafi íslenskum ríkisborgurum sé byggð á ranghugmyndum um efni lagaákvæða, að fréttin ýti undir fordóma og mismunun gagnvart sérhverjum einstaklingi, sem hægt sé að flokka í þennan hóp og ennfremur er fundið að því að notast sé við orðin „grunur leikur á", „grunsemdir um" eða „talið er" án frekari rökstuðnings.

Umfjöllun

Kærði bendir á í athugasemdum sínum að kærandi sé ekki aðili að þeim málum sem kæran fjallar um og því skorti skilyrði fyrir því að siðanefnd taki málið til meðferðar.

Siðanefnd hefur áður tekið mál til meðferðar, sem kærð hafa verið til hennar af aðilum sem ekki eru beinlínis aðilar máls. Í máli siðanefndar nr. 3/2002-2003 var talið að í hlut ætti ákveðinn þjóðfélagshópur, sem ætti erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, auk þess sem umræða um hugsanlega kynþáttafordóma snerti almenna hagsmuni. Siðanefnd telur því mál þetta tækt til umfjöllunar. Hins vegar einskorðar siðanefnd umfjöllun sína við frétt þá sem birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 2. janúar 2003 undir fyrirsögninni: „Lögregla rannsakar meint gervihjónabönd" enda er frá því greint í málatilbúnaði kæranda að sú frétt sé „sérstaklega kærð".

Blaðamönnum ber að sýna fyllstu tillitsemi í umfjöllun um viðkvæm mál er snerta minnihlutahópa varðandi nafngreiningu eða nánari tilgreiningu á þeim sem í hlut eiga. Gera verður greinarmun á því, hvort tilgreiningar sé þörf, vegna samhengis við inntak fréttarinnar, eða hvort slík tilgreining sé óþörf.

Frétt sú sem hér er til umfjöllunar á rætur að rekja til þeirra upplýsinga blaðamanns að Lögreglan í Reykjavík hafi til rannsóknar, hvort tilgreindur hópur fólks af erlendum uppruna hafi með skipulegum hætti farið á svig við lög, í því skyni að afla löndum sínum réttinda hérlendis, sem þeir ella myndu ekki njóta.

Ekki liggur annað fyrir en að lögregla hafi, þegar fréttin var birt, haft meinta háttsemi til rannsóknar vegna grunsemda sinna. Því var rétt, að geta þess að málið væri reist á grunsemdum. Tilgreining uppruna þess hóps, sem rannsóknin beinist að, er rökréttur hluti fréttarinnar og felur því ekki í sér smánun vegna kynþáttar að mati siðanefndar.

Úrskurður

Fréttablaðið telst ekki hafa brotið gegn siðareglum.

10. mars 2003

Hjörtur Gíslason, Ásgeir Þór Árnason, Hreinn Pálsson, Sigurveig Jónsdóttir, Jóhannes Tómasson