- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kærandi: Sigurmar K. Albertsson f.h. Gérards Lemarquis,
Kærði: Hallur Hallsson
Kæruefni: Umfjöllun um Gérard Lemarquis í viðtali við Tribune de Genéve 23. september 1999 og í bréfi til fréttastofu AFP í Stokkhólmi.
Kæran kom fyrst fram sem gagnkæra í máli 2/1999-2000, en siðanefnd fór þá fram á sjálfstæða kæru ef kærandi kysi að halda málinu til streitu. Sú kæra barst nefndinni í bréfi Sigurmars K. Albertssonar hæstaréttarlögmanns dagsettu 18. nóvember 1999. Hún var lögð fram og rædd á fundi siðanefndar 29. nóvember. Greinargerð Reimars Péturssonar héraðsdómslögmanns f.h. kærða, dagsett 9. desember 1999, barst nefndinni 11. desember, og fjallaði hún síðan um málið á fundum sínum 15. og 16. desember 1999.
Samhengi þessa máls má ráða af úrskurði siðanefndar í máli 2/1999-2000. Nú er kærandinn í því máli, Hallur Hallsson, kærður fyrir ummæli sem eftir honum voru höfð í svissneska blaðinu Tribune de Genève 23. september 1999. Þar stóð að Hallur hefði sagt um Gérard Lemarquis, fréttamann AFP á Íslandi: „Cet abruti ne devrait pas exercer ce métier". Þessi ummæli eru þýdd í kærunni á þá leið að kærandi sé kallaður „auli sem eigi ekki að koma nálægt blaðamennsku". Hallur er ennfremur kærður fyrir ýmis niðrandi orð um kæranda í bréfi til Bernards eixner, yfirmanns Lemarquis hjá AFP í tokkhólmi. Þessi ummæli kærða á tvennum vettvangi telur kærandi brjóta í bág við 1. grein siðareglna sem hljóðar svo:
Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga.
Reimar Pétursson gerir fyrir hönd kærða þá aðalkröfu að málinu sé vísað frá og segir meðal annars í bréfi sínu til siðanefndar:
„Um rök fyrir aðalkröfu vísast til þess, að þær sakir sem kærandi ber á hann varða atriði í framgöngu kærða á öðrum vettvangi en blaðamennsku. Það er ljóst að vinna við kynningarmál er í eðli sínu ólík fréttamennsku og um slíka vinnu er vandséð að siðareglur BÍ geti átt [við]."
Varakrafa Reimars er að siðanefnd telji kærða ekki brotlegan við siðareglur, á þeim forsendum meðal annarra að hann hafi aldrei sagt hina frönsku setningu sem Tribune de Genève hefur eftir honum. „Reyndar er málum svo háttað að kærði hefur engin orð viðhaft um framferði [kæranda] á frönsku," segir Reimar.
Aðalkrafa Reimars Péturssonar styðst við það í fyrra lagi að Hallur Hallsson stundi ekki blaðamennsku heldur kynningarstarf. Hann nefnir í síðara lagi að Hallur sé ekki félagi í Blaðamannafélagi Íslands. Um síðara atriðið má vísa til 6. grein siðareglna. Þar segir um aðila að kæruefnum, blaðamenn, ritstjóra og ábyrgðarmenn:
„Þótt enginn þessara aðila sé í BÍ getur Siðanefnd allt að einu lagt fram rökstutt álit um kæruefni."
Um fyrra atriðið--að Hallur stundi ekki blaðamennsku heldur kynningarstarf--er þess að gæta að sumt af því kynningarefni sem blaðamenn standa að í þjónustu við hagsmuni stofnana, samtaka eða fyrirtækja telst vera blaðamennska í skilningi siðareglna, enda hefur siðanefnd áður fellt úrskurði um slíkt efni.
Á hinn bóginn fellst siðanefnd á „að þær sakir sem kærandi ber á hann varða atriði í framgöngu kærða á öðrum vettvangi en blaðamennsku." Í framgöngu sinni í þessu máli er Hallur Hallsson ekki í hlutverki blaðamanns, heldur kemur hann þar fram sem maður er telur brotið á sér af hálfu erlendrar fréttastofu eða starfsmanns hennar, og bregzt við samkvæmt því með kvörtunum og andsvörum. 1. grein siðareglna nær ekki til slíkra viðbragða við meintum misgerðum.
Málinu er vísað frá.
Reykjavík, 16. desember 1999
Þorsteinn Gylfason, Sigurveig Jónsdóttir, Hjörtur Gíslason, Hreinn Pálsson, Gunnar Smári Egilsson