- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kærandi: Hallur Hallsson
Kærði: Gérard Lemarquis, Garðastræti 13, fréttamaður AFP á Íslandi.
Kæruefni: Umfjöllun um málefni háhyrningsins Keikós í fréttaskeyti frá frönsku fréttastofunni AFP í Stokkhólmi dagsett 13. september 1999. keytið er á ensku og undir því standa upphafsstafir þriggja manna.
Mál þetta var kært með bréfi dagsettu 23. september 1999. Málið var sent siðanefnd hinn 28. september. Vegna afgreiðslu annars máls og biðar eftir greinargerð frá lögfræðingi kærða tók siðanefnd málið fyrst fyrir á fundi sínum hinn 8. nóvember og síðan á fundum 15. og 22. nóvember.
Nefndinni barst greinargerð frá lögmanni kærða, Sigurmari K. Albertssyni. Lögmaður kæranda mætti á einn fund nefndarinnar, en jafnframt var rætt við lögmenn beggja aðila í síma. Lögmaður kærða byggir kæru sína á skeyti fréttastofunnar AFP á ensku, þar sem Halli Hallssyni, talsmanni Free Willy samtakanna, eru meðal annars lögð þau orð í munn að verkefnið um Keikó sé „total failure", hafi algjörlega misheppnast. Þess er krafist að siðanefndin úrskurði að um mjög alvarlegt brot á siðareglum BÍ hafi verið að ræða.
Lögmaður kærða byggir vörn sína á því, að kærði hafi enga aðild átt að kæruefnum í umræddu fréttaskeyti og því beri að vísa málinu frá. Bendir hann á að kærði, Gérard Lemarquis, hafi vissulega sent fréttastofunni AFP skeyti um málefni Keikós. Það hafi verið á frönsku og ekkert í því hafi gefið tilefni til kæru til siðanefndar. Hið kærða fréttaskeyti á ensku sé að hluta til byggt á skeyti Lemarquis, en hann beri enga ábyrgð á því sem bætt hafi verið inn í hinn enska texta af öðrum starfsmönnum fréttastofunnar.
Jafnframt kemur fram í greinargerð lögfræðings kærða það mat að með því að „hafa uppi óþörf illmæli um kærða í viðtali við dagblað" og „gera tilraun til að gera kærða tortryggilegan gagnvart yfirmönnum fréttastofu AFP af tilefnislausu" hafi kærandinn, Hallur Hallsson, gerst brotlegur við bæði fyrstu og sjöttu grein siðareglna BÍ.
Siðanefnd fellst á rök kærða í málinu og vísar málinu frá, þar sem hún telur augljóst að kærði, Gérard Lemarquis, eigi ekki aðild að hinum kærðu þáttum umrædds fréttaskeytis. Hún fellst einnig á, að í hinu upprunalega fréttaskeyti Lemarquis, sé ekkert sem brjóti í bága við siðareglur BÍ. Kæran eigi því að beinast að hinni frönsku fréttastofu og þeim starfsmönnum hennar, öðrum en Lemarquis, sem við sögu koma. Í því tilfelli hefur siðanefnd Blaðamannafélags Íslands ekki lögsögu.
Siðanefnd fjallar ekki sérstaklega í máli þessu um mat lögmanns kærða þess efnis að kærandi hafi brotið siðareglur BÍ. Til að svo verði, verður nefndinni að berast um það sérstakt erindi.
Málinu er vísað frá.
Reykjavík, 22. nóvember 1999
Þorsteinn Gylfason, Sigurveig Jónsdóttir, Hjörtur Gíslason, Hreinn Pálsson, Gunnar Smári Egilsson