Blaðamannaskírteini

Stjórn BÍ hefur ákveðið að blaðamannaskírteini verði framvegis einungis gefin út til þeirra sem sækja sérstaklega um þau. Blaðamannafélagið hefur um árabil gefið út staðfestingu á félagsaðild í formi blaðamannaskírteinis sem allir félagsmenn hafa geta nálgast sjálfkrafa í upphafi hvers árs. Talsvert hefur verið um að félagsmenn hafi ekki haft þörf fyrir skírteinin og því ekki talið þörf á að sækja þau. Mikill fjöldi skírteina er því prentaður árlega umfram þörf.

Blaðamannafélagið vill tryggja að blaðamannaskírteinið haldi gildi sínu og veiti blaðamönnum nauðsynlegt aðgengi að vettvangi og upplýsingum svo þeir geti sinnt starfi sínu í þágu almennings. Kannað var hvernig útgáfu blaðamannaskírteina er háttað hjá hinum blaðamannafélögunum á Norðurlöndunum og eru flest með það fyrirkomulag að félagar þurfa að sækja sérstaklega um skírteini. Stjórn ákvað að sami háttur skyldi hafður hjá BÍ og hefur því tekið ákvörðun um félagsmenn fái ekki lengur sjálfkrafa úthlutað blaðamannaskírteini við skráningu í félagið, heldur þurfa þeir að sækja sérstaklega um það. Félagsmaður á rétt á að sækja um blaðamannaskírteini eftir fjögurra mánaða starf, haldi hann áfram störfum við fjölmiðlun. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að skírteinið gildi tvö ár í senn í stað eins.

Félagsmenn eru því hvattir til þess að meta það hvort þeir hafi þörf á skírteininu starfs síns vegna. Áður en sótt er um blaðamannaskírteini er mikilvægt að blaðamenn kynni sér siðareglur blaðamanna sem ætlað er að stuðla að vandaðri og öflugri blaðamennsku. Siðareglur blaðamanna má finna á siðavef BÍ á press.is/sidareglur.

Hafir þú þörf fyrir blaðamannaskírteini BÍ vegna starfa þinna, geturðu sótt um það á mínum síðum á press.is. Með umsókn staðfestir umsækjandi að hann hafi kynnt sér siðareglur blaðamanna og þurfi að nota blaðamannaskírteini sem atvinnutæki. Allt félagsfólk sem sækir um skírteini fær það.