Velja megi þann fjölmiðil sem útvarpsgjald renni til

Sigríður Dögg, formaður BÍ, afhendir Arnari Þór áskorun félagsins
Sigríður Dögg, formaður BÍ, afhendir Arnari Þór áskorun félagsins

Leggja á RÚV niður eða gjörbreyta rekstri þess, að sögn Arnars Þórs Jónssonar, formanns Lýðræðisflokksins. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, ræddi við hann um mikilvægi blaðamennsku og fjölmiðla þegar honum var afhent áskorun félagsins til eflingar blaðamennsku og fjölmiðla. „Ef það væri niðurstaða almennings í landinu að halda áfram með nefskattinn sem rennur til Ríkisútvarpsins væri það lágmarkskrafa að almenningur fengi að ráða því hvert þessi skattur fer. Og við fengjum þá að ráða hvaða fjölmiðill fengi að njóta skattgreiðslnanna,“ segir Arnar.

Spurður hvers vegna hann vilji leggja RÚV niður segir hann að þær aðstæður sem réttlættu stofnun Ríkisútvarpsins séu ekki lengur fyrir hendi og að RÚV dragi jafnframt til sín allt of mikið fjármagn úr vösum almennings, „allt of stóran hluta af auglýsingatekjum sem eru á markaðnum hér á Íslandi, og það er sjálfsagt að efla samkeppnisrekstur á Íslandi,“ segir hann.

Blaðamennska er undirstöðuatriði í frjálsu samfélagi

Arnar segir að blaðamennska sé samfélagslega mikilvæg því hún veiti stjórnvöldum og valdhöfum aðhald og hvetji almenning til umhugsunar um það sem sé í gangi í landinu. „. Og það er nauðsynlegt að öllu valdi sé sýnt þetta aðhald þannig að það fari ekki fram úr sér og valti ekki yfir mannskapinn, valti ekki yfir fólk og fyrirtæki í landinu,“ segir hann.

Arnar gagnrýnir frammistöðu íslenskra fjölmiðla í heimsfaraldrinum harðlega og segir þá ekki hafa veitt nauðsynlegt aðhald og þá hafa skaðað trúverðugleika sinn. „Að því sögðu vil ég þó undirstrika að hlutverk málefnalegra, faglegra og gagnrýnna blaðamanna er að sjálfsögðu undirstöðuatriði í frjálsu samfélagi og þá verja stöðu blaðamanna eins og hægt er,“ segir Arnar. Hann telur íslenska fjölmiðla bjóða upp á mjög einhliða og þrönga frásögn og telur þá vanta sjálfstæða og gagnrýna hugsun. „Já mér finnst Íslendingar vera í þeirri stöðu, við erum eins og sveppir. Við erum alin hér í einhvers konar einhliða hérna bara hálfgerðu myrkri, það er, það er mjög þröng frásögn sem að fjölmiðlar gefa okkur og við erum alin á hálfgerðum skít, bara lélegu fóðri frá fjölmiðlum."

Arnar Þór segir að hann muni beita sér fyrir því að áherslur hans í málefnum fjölmiðla rati inn í málefnasamning komist hann í þá stöðu að mynda ríkisstjórn.

Hér má horfa á myndbandið í heild sinni

Hér má lesa áskorun Blaðamannafélags Íslands til stjórnmálaflokka 2024