- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Lægri virðisaukaskattur og bortthvarf RÚV af auglýsingamarkaði eru meðal sjö tillagna sem nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla gerir og eiga að bæta rekstrarstöðu einkarekinna fjölmiðla. Nefndin afhenti Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra skýrslu sína í dag. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um stöðu fjölmiðla bæði hér á landi og erlendis og útskýrt að rekstrarerfiðleika megi helst rekja til breyttra forsendna til tekjuöflunar. Tillögurnar sjö eru eftirfarandi:
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands segir að við fyrstu sýn séu þarna margar athyglisverðar tillögur, sem vert sé að skoða betur. Þó sakni hann þess að sjá ekki tillögu um sjóð fyrir blaðamenn vegna rannsóknarblaðamennsku, en Blaðamannafélagið hefur lengi talað fyrir slíku.
Einnig er að finna í skýrslunni ítarlega samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum auk sérálits tveggja nefndarmanna.
Mennta- og menningarmálaráðherra fagnar á vef ráðuneytisins tillögum og greinargerð nefndarinnar og telur þær mjög gagnlegar við frekari undirbúning aðgerða af hálfu stjórnvalda til að styrkja rekstrargrundvöll frjálsra fjölmiðla á Íslandi.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir m.a. „Að mati ráðherra er nauðsynlegt að kostnaðarmat liggi fyrir áður en ákvarðanir eru teknar um til hvaða aðgerða skal grípa og útfærslur á þeim. Ljóst er hins vegar að hægt er að bregðast fljótt við tillögu um lækkun virðisaukaskatts og mun ráðherra óska eftir því að nú þegar verði athugað hvort hægt sé að samræma álagningu virðisaukaskatts á fjölmiðla þannig að hann verði í öllum tilvikum í neðra þrepi.“
Þá hefur Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ákveðið að setja strax af stað frekari stefnumótun innan ráðuneytisins um stöðu fjölmiðlunar hér á landi. Þar verða áhrifin metin af fyrirhuguðum aðgerðum. Leitað verður eftir samvinnu og samstarfi við hagsmunaaðila, stjórnmálaflokka og almenning. Markmiðið er að ná breiðri sátt um starfsemi fjölmiðla og hugsanlega aðkomu ríkisins að lýðræðis- og menningarhlutverki þeirra.
Þau sem sátu í nefndinni voru:
• Björgvin Guðmundsson, formaður, meðeigandi KOM ráðgjafar, skipaður án tilnefningar
• Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, skipuð án tilnefningar
• Hlynur Ingason, starfsmaður í fjármála- og efnahagsráðuneyti, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra
• Soffía Haraldsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri mbl.is, skipuð án tilnefningar
• Svanbjörn Thoroddsen, meðeigandi KPMG, skipaður án tilnefningar