- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur tekið fyrir þrjú mál frá áramótum og hafa úrskurðir verið birtir á vef félagsins.
Mál nr. 2/2023-2024 var tekið fyrir í janúar og ritaði nefndin undir úrskurð í málinu á fundi sínum 27. febrúar. Niðurstaðan var að Kristinn H. Gunnarsson ritstjóri Bæjarins besta hefði gerst brotlegur við siðareglur BÍ og að brotið sé ámælisvert. Kærandi var Ívar Örn Hauksson en hann taldi kærða hafa notað höfundarvarið efni í óleyfi og hafi ekki fjarlægt efnið af vefnum þrátt fyrir beiðnir þar um. Þá hafi kærði hvorki boðið kæranda andmælarétt né fært fram leiðréttingar þegar kærandi óskaði eftir því. Taldi nefndin að kærði hafi brotið gegn 2., 3. og 7. grein siðareglna með háttsemi sinni. Kærði veitti Siðanefnd ekki andsvör við kærunni og var því frásögn kæranda lögð til grundvallar úrlausn málsins.
Máli nr. 3/2023-2024 var vísað frá Siðanefnd en í því kærði María Lilja Ingveldar Þrastardóttir Kemp Mbl.is og Árvakur fyrir umfjöllun um kæru á hendur manni fyrir hatursorðræðu. Nefndin taldi kæranda ekki hafa bein tengsl við umfjöllunarefnið og aðild því ekki uppfylla málsmeðferðarreglur nefndarinnar. Var málinu vísað frá Siðanefnd BÍ á fundi nefndarinnar þann 27. febrúar.
Í máli nr. 4/2023-2024 komst Siðanefnd að þeirri niðurstöðu að kærðu, Atli Ísleifsson og Vísir.is, hefðu ekki gerst brotleg við siðareglur BÍ. Kærandi var Elín Frímannsdóttir en efni kæru var myndbirting með frétt um alvarlegt bílslys á Grindavíkurvegi. Nefndin kvað upp úrskurð í málinu á fundi sínum þann 4. mars síðastliðinn.