- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannafélag Íslands hefur komist að samkomulagi við ríkið um aðgengi blaðamanna að vettvangi þegar hættuástand kemur upp. Í samkomulaginu, sem lagt var fram við fyrirtöku dómsmáls BÍ gegn ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, er það áréttað að blaðamenn gegna veigamiklu eftirlits- og upplýsingahlutverki og að ríkar ástæður þurfi til að takmarka tjáningarfrelsi þeirra. Jafnframt er skýrt tekið fram að aðgengi blaðamanna að hættusvæðum skuli að jafnaði ekki vera minna en annarra viðbragðsaðila og skuli ennfremur taka mið af sértækum réttindum blaðamanna og fjölmiðla.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, segir samkomulagið mikinn sigur fyrir stéttina og tjáningarfrelsið og að það nái því takmarki sem dómsmálinu var ætlað að ná, að tryggja nauðsynlegt aðgengi blaðamanna að vettvangi. “Þarna fæst mikilvæg viðurkenning af hálfu ríkisins á stöðu og hlutverki blaðamanna í almannavarnaástandi og yfirlýsing um að blaðamenn skuli að jafnaði hafa að minnsta kosti jafnmikið aðgengi að vettvangi og aðrir viðbragðsaðilar, svo sem björgunarsveitir og lögregla. Við lítum svo á að þetta samkomulag við ríkið marki þáttaskil í samskiptum blaðamanna og stjórnvalda og verði til þess að blaðamenn geti gengið að því vísu að þeir geti óhindrað sinnt störfum sínum í þágu almennings.”
Flóki Ásgeirsson, lögmaður BÍ, segir efni samkomulagsins vera í samræmi við þau viðmið um tjáningarfrelsi blaðamanna sem leidd hafi verið af stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindareglum. „Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa slegið því föstu að blaðamenn njóti sérstöðu og að meira þurfi til að takmarka tjáningarfrelsi þeirra en annarra hópa. Samkomulagið endurspeglar þessa sérstöðu blaðamanna.“
Blaðamannafélagið og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gerðu með sér samkomulag þann 8. mars, eftir að félagið höfðaði mál gegn ríkinu, sem tryggir aðgengi blaðamanna að hættusvæðinu við Grindavík að ákveðnum öryggissjónarmiðum uppfylltum. Sigríður Dögg segir það samkomulag hafa reynst mjög vel og mikil ánægja sé meðal blaðamanna með það. “Aðgengi hefur stórbatnað og er nú með þeim hætti sem gerir okkur kleift að sinna störfum okkar, líkt og kallað var eftir.”
Samkomulagið er eftirfarandi:
Eftir fund milli forsvarsmanna Blaðamannafélags Íslands og dómsmálaráðuneytisins er ljóst að samhugur er milli aðila málsins um að blaðamenn gegna veigamiklu eftirlits- og upplýsingahlutverki og að ríkar ástæður þurfi til að takmarka tjáningarfrelsi þeirra. Á grundvelli laga um almannavarnir hafa stjórnvöld tilteknar valdheimildir til þess að bregðast við með skjótum og markvissum hætti þegar hættuástand kemur upp, s.s. að takmarka aðgengi að tilteknum svæðum. Þær takmarkanir sem stjórnvöld kunna að þurfa að setja blaðamönnum í hættuástandi skulu að jafnaði ekki vera meiri en settar eru öðrum viðbragðsaðilum af öryggissjónarmiðum og skulu ennfremur taka mið af sértækum réttindum blaðamanna og hlutverki fjölmiðla. Hinn 8. mars sl. komust Blaðamannafélag Íslands og lögreglustjórinn á Suðurnesjum að samkomulagi um bætt aðgengi fjölmiðla að hamfarasvæðum á Reykjanesi sem tekur mið af þessu. Að teknu tilliti til alls framangreinds eru aðilar sammála um að mál þetta skuli fellt niður án málskostnaðar.