Reglulegt samráð við ráðherra menningarmála

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Lilja D. Alfreðsdóttir og Freyja Steingrímsdóttir
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Lilja D. Alfreðsdóttir og Freyja Steingrímsdóttir

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Freyja Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri, funduðu með ráðherra menningar- og viðskipta auk sérfræðinga ráðuneytisins um ýmis brýn hagsmunamál blaðamanna á miðvikudag, 21. ágúst.

Umræðuefni fundarins voru fjölmiðlastefna til ársins 2030, framhald og fyrirkomulag stuðnings við einkarekna fjölmiðla, samfélagssjóður blaðamanna og höfundaréttarmál félagsins svo eitthvað sé nefnt. Á fundinum var tekin ákvörðun um að koma á reglulegu samráði Blaðamannafélagsins og ráðherra svo unnt sé að vinna skipulega að sameiginlegum markmiðum.

Ráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um fjölmiðlastefnu og aðgerðaráætlun í málefnum fjölmiðla til ársins 2030 á vorþingi sem fór í kjölfarið í samráðsgátt og verið er að vinna úr þeim fjölmörgu umsögnum sem bárust um málið. Blaðamannafélagið fagnaði fjölmiðlastefnu ríkisstjórnarinnar í  umsögn sinni en bentu m.a. á að hækka þurfi upphæð styrkja til einkarekinna miðla til þess að þeir standist samanburð við hin Norðurlöndin og flýta þurfi lagasetningu um greiðslur tæknirisa renni til fjölmiðla.