Lausnamót um framtíð blaðamennsku

Blaðamannafélag Íslands efnir til lausnamóts þann 12. mars næstkomandi frá 14:15-16:30, þar sem þverfagleg teymi koma saman, deila reynslu og þekkingu og finna lausnir við raunverulegum áskorunum sem steðja að íslenskum fjölmiðlum og blaðamennsku. Teymin samanstanda af blaðamönnum og öðru starfsfólki fjölmiðla og stjórnendum fjölmiðla, stjórnmálafólki, fulltrúum almannaheillasamtaka, sérfræðingum í markaðsmálum, í nýsköpun og þróun, fólki úr stjórnsýslu og fræðasamfélaginu svo eitthvað sé nefnt.

Ísland skipar 18. sæti á alþjóðlegum lista sem mælir fjölmiðlafrelsi ríkja á meðan hin Norðurlöndin raða sér í topp 5. Ekki er svo langt síðan Ísland skipaði einnig efstu sæti listans en á síðasta áratug hefur staða blaðamanna og fjölmiðla á Íslandi versnað. Rekstarumhverfi einkarekinna fjölmiðla verður sífellt snúnara, samkeppnin við tæknirisana Meta og Google erfiðari og þessi rekstrarskilyrði koma í veg fyrir að blaðamenn geti ráðist í kostnaðarsama en samfélagslega mikilvæga blaðamennsku svo eitthvað sé nefnt. Þá eru dæmi þess að aðgengi blaðamanna að upplýsingum og vettvangi sé heft óþarflega auk þess sem stéttin sætir oft harkalegri gagnrýni frá áhrifafólki og er jafnvel lögsótt fyrir það eitt að vinna vinnuna sína.

Þessari þróun þarf að snúa við en til þess þarf að ráðast í raunverulegar aðgerðir. En hvaða aðgerðir? 

Sérstök áhersla verður lögð á:

- aðgerðir til að styrkja rekstrargrundvöll einkarekinna miðla
- aðhalds- og lýðræðishlutverk fjölmiðla
- hvernig auka megi sjálfstæði og frelsi fjölmiðla og aðstæður blaðamanna á Íslandi
- leiðir til að efla samfélagslega mikilvæga blaðamennsku (rannsóknarblaðamennsku)
- hvernig unnt sé að ýta undir framþróun og nýsköpun hjá fjölmiðlum
-
framtíðarmöguleika fréttamiðla í samfélagi mótað af samfélagsmiðlum, hlaðvörpum og áhrifavöldum
- aðgengi blaðamanna að opinberum upplýsingum og gögnum og hlutverk í almannavarnaástandi


Blaðamannafélagið auglýsir eftir áhugasömum félagsmönnum til þátttöku í mótinu. Leitast verður við að tryggja fulltrúa fjölbreyttra fjölmiðla og því um takmörkuð sæti að ræða. Áhugasamir geta sent tölvupóst á press@press.is