- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Daglega dynja á almenningi fréttir af loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, af fyrirtækjum sem bjóða upp á nýstárlegar grænar lausnir og aðgerðum og áætlunum stjórnvalda til að takast á við hlýnun jarðar. Hlutverk blaðamanna er að leita staðreynda, greina kjarna máls og setja hlutina í samhengi með hag almennings að leiðarljósi. En hvernig er best að ná til almennings með fréttum um loftslagsbreytingar? Þetta var meginþemað á vikulöngu námskeiði fyrir norræna blaðamenn sem haldið var á vegum Norrænu endurmenntunarstofnunar blaðamanna með stuðningi frá Blaðamannafélagi Íslands. Svipuð námskeið hafa verið haldin árlega á Íslandi undanfarin 5 ár.
Námskeiðið er byggt upp sem blanda af fræðilegum fyrirlestrum um hvernig hægt er að bæta og auka umfjöllun um loftlagsbreytingur og heimsóknir til stofnana og fyrirtækja sem tengjast efninu. Hellisheiðarvirkjun, Pure North Recycling í Hveragerði, Álverið í Straumsvík, Friðheimar og Veitur í Vestmannaeeyjar eru meðal staða sem voru heimsóttir. Auk þess fóru blaðamennirnir að jaðri Sólheimajökuls með jarðfræðingi til þess að sjá hvernig loftslagsbreytingar hafa breytt ásýnd jökulsins.
Á fyrsta degi ávarpaði Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, hópinn og fór yfir stöðu fjölmiðla og blaðamennsku á Íslandi. Undir lok námskeiðsins ræddu Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, og Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun við hópinn um orkumál og náttúruvernd.
Umsjónarmenn námskeiðsins voru þau Rasmus Thirup Beck, danskur blaðamaður og Sigrún Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur. „Stuðningur Blaðamannafélagsins hefur verið ómetanlegur og án hans væri ekki mögulegt að bjóða upp á þetta námskeið,” sagði Sigrún í lok námskeiðsins.