- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Fjölmiðlafrelsi á Íslandi hefur farið aftur á milli ára þótt Ísland haldi 18. sæti á lista RSF, Blaðamanna án landamæra, um frelsi fjölmiðla í heiminum, World Press Freedom Index, sem birtur var í dag. Ísland hlýtur 80,13 stig í ár, samanborið við 83,19 í fyrra. Sem fyrr verma aðrar Norðurlandaþjóðir efstu sæti listans. Mesta fjölmiðlafrelsi í heiminum er í Noregi, sem hlýtur 91,89 stig, Danmörk er í öðru sæti, Svíþjóð í því þriðja, Hollendingar í því fjórða og Finnar í fimmta sæti.
Það sem hvað mest áhrif hefur á hlutfallslega slæma stöðu Íslands í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar, eru viðhorf stjórnmálamanna gagnvart fjölmiðlum, erfitt rekstrarumhverfi fjölmiðla og lagaumhverfi tengt fjölmiðlum og tjáningarfrelsi. Þar er sérstaklega nefnt ákvörðun Lögreglustjórans á Suðurnesjum að hindra aðgengi blaðamanna að hættusvæðinu í og við Grindavík.
Í skýrslu RSF um Ísland segir að þó svo að fjölmiðlar njóti lagalegar verndar og talsverðs trausts stafi sjálfstæði þeirra ógn af pólitískum og efnahagslegum hagsmunaaðilum, sérstaklega í sjávarútvegi auk þess sem smæð markaðarins veiki rekstrarforsendur þeirra.
Um hið pólitíska umhverfi fjölmiðla segir í skýrslunni að blaðamenn hafi orðið fyrir meiðandi gagnrýni á Alþingi, sem sumir fréttamenn líti á sem pólitískan þrýsting. Þá séu blaðamenn á landsbyggðarmiðlum séu sérstaklega viðkvæmir fyrir þrýstingi frá stjórnmálafólki og atvinnulífi.
Bent er á að þó svo að lagaumhverfi tryggi fjölmiðlafrelsi og aðgang almennings að upplýsingum skorti upp á að framkvæmdin sé fullnægjandi. Tekið er dæmi af órökstuddum takmörkunum lögreglustjórans á Suðurnesjum á aðgengi fjölmiðla að Grindavík. Þá er það gagnrýnt að ærumeiðingar séu enn refsiverð háttsemi samkvæmt lögum og einnig það að smána erlent ríki.
Einnig er í skýrslunni rætt um þá staðreynd að blaðamenn skuli enn vera til rannsóknar í tengslum við afhjúpun á meintum brotum Samherja í Namibíu auk þess sem þeir hafi orðið fyrir ófrægingarherferð vegna þess.