- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Ákveðið hefur verið að breyta úthlutunarreglum Styrktarsjóðs BÍ. Breytingarnar taka nú þegar gildi. Útgjöld sjóðsins eru umfram iðgjöld, einkum vegna fleiri umsókna um sjúkradagpeninga.
Stjórn sjóðsins fól Talnakönnun hf. að gera úttekt á stöðu og horfum Styrktarsjóðs BÍ og eru breytingarnar nú taldar nauðsynleg ráðstöfun til að rétta við hallarekstur sem hefur verið á sjóðnum nær sleitulaust frá árinu 2014. Við breytingarnar var horft til þess að varðveita réttindi félagsmanna eins og unnt var.
Samkvæmt nýjum reglum tryggir styrktarsjóður laun í þrjá mánuði til viðbótar kjarasamningsbundnum réttindum, en ekki er lengur miðað við samanlagðan rétt í 12 mánuði líkt og áður. Þessi breyting felur í sér að blaðamenn með yfir 10 ára starfsreynslu eiga eftir sem áður rétt á launum í veikindum í 12 mánuði en fyrir félagsfólk með skemmri starfsreynslu verður réttur til launa í veikindum 7,5 til 9 mánuðir, sem er sambærilegt við önnur stéttarfélög sem BÍ hefur borið kjör sín saman við.
Vert er að taka fram að Blaðamannafélag Íslands hefur samið um rýmri veikindarétt fyrir sitt félagsfólk í kjarasamningum en gengur og gerist og greiða því atvinnurekendur full laun blaðamanna í veikindaleyfi lengur en hjá mörgum öðrum stéttum.
Nýjar úthlutunarreglur má sjá hér.
Mörg stéttarfélög hafa gert álíka breytingar á úthlutunarreglum sinna styrktar- og sjúkrasjóða á undanförnum árum af sömu ástæðu, auknum fjölda umsókna um sjúkradagpeninga. Engu að síður er það áhyggjuefni hvað langtímaveikindi innan blaðamannastéttarinnar hafa aukist mikið. Það er löngu vitað að starfsaðstæður blaðamanna eru óviðunandi, álag er of mikið, tæplega helmingi blaðamanna á Íslandi hefur verið ógnað eða hótað og laun eru ekki í samræmi við menntun og ábyrgð.
Blaðamannafélag Íslands undirbýr samhliða þessum breytingum fræðslu- og forvarnaáætlun til að styðja við félagsfólk sem glímir við langtímaveikindi auk þess sem leitað verður eftir samstarfi við atvinnurekendur til að bæta starfsaðstæður og líðan blaðamanna í starfi. Þá verður leitast við að skerpa á fræðslu um réttindi félagsfólks í víðari skilningi.
Stjórn Styrktarsjóðs BÍ hefur það að markmiði að auka aftur réttindi félagsfólks þegar sjóðurinn stendur betur.
Ath. að breytingarnar skerða ekki réttindi félagsmanna sem nú þegar hafa fengið umsóknir sínar samþykktar.