- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamennska er ekki aðeins samfélagslega mikilvæg, heldur lífsnauðsynleg fyrir lýðræðið, að sögn Svandísar Svavarsdóttur, formanns VG. „Það er nauðsynlegt, og það veit ég bæði af reynslu og líka bara af þekkingu, að fjölmiðlar séu sterkir og öflugir til þess að veita valdhöfum aðhald á öllum tímum,“ segir hún. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, ræddi við hana í kjölfar þess að henni var afhent áskorun stjórnar félagsins til eflingar blaðamennsku og fjölmiðla.
Svandís telur nauðsynlegt að styðja betur við blaðamenn í gegnum lagabókstafinn. Ekki gangi að blaðamenn lendi á sakamannabekk fyrir það eitt að vinna vinnuna sína.. „Maður er auðvitað mjög hugsi yfir því að það geti verið að blaðamenn fyrir það eitt að vinna vinnuna sína séu á sakamannabekk eins og var málefni sem að snýr að Samherja. Og mér finnst það vera til skoðunar hvernig lagaumhverfið er í raun og veru að verja blaðamenn fyrir slíkum árásum,“ sagði Svandís.
Svandís sagði það sérlega mikilvægt að standa vörð um hlutverk RÚV sem fjölmiðils í almannaþágu. Hugmyndir komi ítrekað fram sem dragi úr vægi RÚV og jafnvel um að selja það að hluta eða í heild sinni. Hún telur einnig skipta mjög miklu máli upp á jafnvægi á fjölmiðlamarkaði að halda áfram að styðja við einkarekna miðla. „Já, ég er styðjandi og styð það mjög eindregið, mér finnst það skipta mjög miklu máli upp á jafnvægið á fjölmiðlamarkaði og við þurfum auðvitað að horfast í augu við það að íslenskt fjölmiðlaumhverfi er fámennara heldur en við erum oft að bera okkur saman við,“ segir Svandís. „Og maður finnur það þegar að verða miklir skruðningar í stjórnmálunum að það mæðir mikið á frétta- og blaðamönnum í því umhverfi og er snúið að bera það saman við það sem að gerist í löndunum í kringum okkur,“ segir hún.
Þá nefndi hún menntun í blaðamennsku og fjölmiðlun, mikilvægt væri að bjóða upp á grunnmenntun á háskólastigi en hið opinbera ætti einnig að koma að því að tryggja sí- og endurmenntun blaðamanna.
Hún segir VG muni beita sér fyrir því að þessi atriði rati í málefnasamning ríkisstjórnar komist flokkurinn í þá aðstöðu að taka þátt í stjórnarmyndun. Þá tiltók hún að verði flokkurinn í stjórnarandstöðu muni þingmenn hans einnig beita sér í málaflokknum.
Hér má horfa á myndbandið í heild sinni
Hér má lesa áskorun Blaðamannafélags Íslands til stjórnmálaflokka 2024