Almenningur styrki ritstjórnir og velji hvert útvarpsgjald rennur

Sigríður Dögg, formaður BÍ, afhendir Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, leiðtoga Sósíalista, áskorun stjór…
Sigríður Dögg, formaður BÍ, afhendir Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, leiðtoga Sósíalista, áskorun stjórnar fyrir Alþingiskosningar 2024

„Blaðamennska og opin fjölmiðlun er forsenda aðgengis almennings að upplýsingum og því undirstaða virks lýðræðis. Veikir fjölmiðlar undir hæl eignafólks eru ógn við lýðræðið og völd almennings,” segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi Sósíalista. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, ræddi við hana í kjölfar þess að henni var afhent áskorun stjórnar félagsins til eflingar blaðamennsku og fjölmiðla.

Sanna vill að blaðamenn geti sótt um starfslaun eins og þekkist í listageiranum, koma á fót styrkjakerfi þar sem almenningur styrkir tilteknar ritstjórnir og tryggja betur réttarstöðu blaðamanna. „Í fyrsta lagi þá þarf að byggja upp starfslaun blaðamanna svona svipað eins og hefur verið gert í listageiranum og þar er styrkurinn veittur frumsköpun. Svo að þeir geti öðlast meira sjálfstæði hver fyrir sig og til að velja sér umfjöllunarefni og blaðamenn geta síðan samið við dreifiveitur fjölmiðlanna um birtingu efnis. Í öðru lagi væri hægt að móta styrkjakerfi þar sem almenningur styrkir tilteknar ritstjórnir svona svipað eins og gert er með sóknargjöldin, og til trúar- og lífsskoðunarfélaga. Slíkt kerfi er lýðræðislegra en að veita rekstrarstyrki á móti tekjum miðlana af markaði sem ýkir upp tök auglýsenda og fjársterkra aðila á fjölmiðlum. Og í þriðja lagi þá þarf auðvitað að tryggja vernd og réttarstöðu blaðamanna sem verða fyrir sífellt ósvífni og árásum auð- og valdafólks.“ Segir Sanna.

Hér má horfa á viðtalið í heild sinni

Hér má lesa áskorun Blaðamannafélags Íslands til stjórnmálaflokka 2024