- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Julian Assange er enn í óvissu um hvort hann fái leyfi hjá breskum dómstólum til að áfrýja ákvörðun breskra stjórnvalda um að framselja hann til Bandaríkjanna, eftir tilkynningu frá dómnum í dag að bandarísk yfirvöld verði að leggja fram fullnægjandi tryggingu innan þriggja vikna á því að Assange hljóti ekki dauðarefsingu í Bandaríkjunum, verði hann dæmdur þar.
Tveggja daga málflutningur fór fram í máli Assange í síðasta mánuði, þar sem hann óskaði leyfis dómstóla til að fá að áfrýja ákvörðun breskra stjórnvalda frá 2022 um að hann yrði framseldur til Bandaríkjanna og áttu verjendur Assange von á niðurstöðum dómsins í dag. Niðurstöður fengust hins vegar í raun ekki, því dómarar veittu bandarískum stjórnvöldum þriggja vikna frest til að framvísa fullnægjandi tryggingu fyrir því að Assange njóti verndar þess sem tjáningarfrelsisákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar veitir, hann hljóti ekki dauðarefsingu, verði hann dæmdur í Bandaríkjunum og að honum verði ekki mismunað á grundvelli þjóðernis.
Assange er í gæsluvarðhaldi án dóms í Bretlandi og hefur barist þar fyrir dómstólum frá árinu 2019 gegn því að vera framseldur til Bandaríkjanna. Dómstólar synjuðu beiðni hans um áfrýjun framsalsákvörðunar Breta árið 2022 og er málareksturinn nú tilraun til þess að fá þeirri ákvörðun dómstóla hnekkt. Verjendateymi Assange byggir mál hans á því að framsal hans væri brot á framsalssamningi milli Bretlands og Bandaríkjanna, sem heimilar ekki framsal vegna ákæra sem eru á pólitískum forsendum, líkt og þeir vilja meina að gildi um málshöfðun Bandaríkjanna gegn Assange.
Bandaríkin hafa farið fram á framsal Assange, þar sem honum verður gert að svara til saka fyrir samskipti við heimildarmann og að hafa stuðlað að því að upplýsa um glæpsamlegt athæfi. Verði hann framseldur bíður hans hámarksrefsing fyrir 18 ákæruliði, sem byggja á fornri, bandarískri njósnalöggjöf frá árinu 1917, sem nemur allt að 175 ára fangelsi. Þetta er í fyrsta sinn í bandarískri sögu sem mál er rekið gegn blaðamanni á grunni þessarar löggjafar.
Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur ályktað að framsalsákvörðun breskra stjórnvalda sé áfall fyrir tjáningarfrelsið og ekki aðeins aðför að einum blaðamenni heldur árás á fjölmiðlafrelsi um allan heim. "Fordæmið sem þarna er gefið – ef ekki er spornað við fótum, þýðir að allir blaðamenn, hvar sem er í heiminum, geta átt yfir höfði sér ákæru og framsalskröfu ef þeir birta eitthvað sem bandarískum stjórnvöldum hugnast að skilgreina sem ógn við sína hagsmuni. Það eru því vonbrigði að breskir dómstólar skuli ekki virða tjáningarfrelsið meira en sem úrskurður þeirra gefur til kynna," sagði í ályktun stjórnar þann 10. desember 2021.