Aðgerðir til eflingar blaðamennsku lykilatriði í málefnasamningi

Sigríður Dögg, formaður BÍ, afhendir Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, áskorun Bla…
Sigríður Dögg, formaður BÍ, afhendir Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, áskorun Blaðamannafélagsins fyrir Alþingiskosningar 2024

„Frjálsir fjölmiðlar eru ofboðslega mikilvægir í lýðræðissamfélagi. Það er ekki að ástæðulausu fyrir að þetta er oft kallað fjórða stoðin og þeir verða að hafa nægt bolmagn til þess að fjalla með óháðum hætti um stór og mikilvæg málefni. Blaðamenn þurfa að geta verið spegill á samfélagið en líka að veita stjórnvöldum og atvinnulífi og hagsmunaaðilum í samfélaginu aðhald,” segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, ræddi við hana í kjölfar þess að henni var afhent áskorun stjórnar félagsins til eflingar blaðamennsku og fjölmiðla.

Kristrún segir að grípa megi til ýmissa aðgerða til að efla faglega blaðamennsku. „Ég held að allir sem hafi fylgst með rekstrarumhverfi fjölmiðla viti að það verður að efla það. Það má til dæmis nefna að það þarf að skattleggja tæknirisana Facebook og Google til þess að það sé einhver jafnræðisgrundvöllur í fjölmiðlun. Í öðru lagi væri meðal annars hægt að nýta ágóðann af þessu til þess að styrkja betur umhverfi einkarekinna fjölmiðla. Þetta auðvitað skiptir lykilmáli í að efla íslenskuna og halda á lofti íslenskri umfjöllun,“ segir Kristrún. „Og í þriðja lagi þá held ég að hið opinbera þurfi líka að líta sér nær, velta því fyrir sér hvaða áskriftir það er að kaupa, hvar það er að auglýsa og það sé jafnræði í því samhengi og það sé fókus á íslenska fjölmiðla vegna þess að þarna er verið að nota skattfé og það þarf auðvitað að renna inn í íslenskt samfélag,“ segir Kristrún.

Aðspurð segist hún muni beita sér fyrir því að ofangreind atriði rati inn í málefnasamning ríkisstjórnar, komist hún í þá stöðu. „Það verður lykilatriði hjá okkur að efla íslenska fjölmiðlun vegna þess að þetta er bara svo mikilvægur hluti af lýðræðissamfélagi, þannig já við munum beita okkur fyrir því,“ segir Kristrún.

Hér má horfa á viðtalið í heild sinni

Hér má lesa áskorun Blaðamannafélags Íslands til stjórnmálaflokka 2024