- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sjálfstæðir sjóðir eru mikilvægt verkfæri í baráttunni fyrir blaðamennsku, að sögn Anya Schiffrin, forstöðumanns tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar Columbia University‘s School of International and Public Affairs í New York, sem var gestur á hádegisverðarfundi Blaðamannafélags Íslands sl. föstudag. Schiffrin var einnig aðalfyrirlesari á málþingi á vegum Menningar- og viðskiptaráðuneytisins í liðinni viku sem bar heitið Fjölmiðlar á tímum stafrænnar byltingar.
Anya Schiffrin hefur verið ötull talsmaður blaðamennsku undanfarin ár og ritaði tímamótaskýrslu í heimsfaraldrinum ásamt tveimur öðrum fræðimönnum sem ber heitið Til bjargar blaðamennsku (Saving Journalism) og var birt árið 2021.
Í skýrslunni er einblínt á lausnir til bjargar hnignandi fjölmiðlum um allan heim sem berjast í bökkum fjárhagslega þar sem viðskiptamódel þeirra hafa hrunið. Tæknirisar á borð við META og Google hafa hrifsað til sín stærstu auglýsingatekjulindina og greiða lítið sem ekkert fyrir fréttirnar sem deilt er á miðlum þeirra.
Þá eru einnig til umfjöllunar fleiri tillögur og fjármögnunarleiðir fyrir fjölmiðla í því augnamiði að standa vörð um blaðamennskuna eins og stofnun sjálfstæðra styrktarsjóða sem fjölmiðlar og blaðamenn geta leitað til, ný viðskiptamódel fjölmiðla eins og áskriftarþjónusta og skattaívilnanir af hálfu hins opinbera svo eitthvað sé nefnt. Varðandi Google og META þá er grunnforsenda að mati Schiffrin að stjórnvöld setji löggjöf til að þvinga tæknisrisana að samningaborðinu og fá þá til að borga fyrir fréttirnar sem þeir dreifa.
Staða fjölmiðla um allan heim var orðin slæm fyrir Covid -19 en í faraldrinum varð ríkari vakning almennings um mikilvægi þess að fá réttar upplýsingar og vel unnar fréttir um stöðu mála. Schiffrin segir mjög mikilvægt að ríkið styðji við bakið á fjölmiðlum hvort sem það er með beinum fjárhagslegum stuðningi eða einhverju öðru eins og risakaupum á áskriftum einkarekinna fjölmiðla fyrir opinbera starfsmenn, akademíska samfélagið og fleiri stéttir svo eitthvað sé nefnt.
Schiffrin settist niður með Helgu Arnardóttur á hádegisfundi þann 1.mars sl. í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands þar sem hún ræddi skýrsluna og tillögur til bjargar blaðamennsku og fjárhagslegri stöðu fjölmiðla í heiminum í dag. Hér má sjá upptöku af samtalinu.
Viðtal við Anya Schiffrin from Blaðamannafélag Íslands on Vimeo.