- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Misskilningur á beiðni liðsmanna stoðdeildar ríkislögreglustjóra, sem önnuðust framkvæmd brottvísunar hælisleitenda úr landi í nóvember í fyrra, er ástæða þess að starfsmenn Isavia hindruðu störf fréttamanna RÚV á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í skriflegu svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns.
Í svari ráðherra kemur fram að eftir athugun dómsmálaráðuneytisins bendi ekkert til þess að stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi beðið starfsmenn Isavia um að beina flóðljósum að fréttamanni og myndatökumanni til að koma í veg fyrir myndatökur þegar hælisleitendur voru færðir um borð í flugvél til brottvísunar.
Isavia hafði áður beðist í fréttatilkynningu afsökunar á athæfinu og fullyrt að starfsmenn sínir hefðu aðeins hafa verið að fylgja fyrirmælum lögreglu.
Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga segir að „í kjölfar fréttaflutnings hafi embætti ríkislögreglustjóra kannað samskipti stoðdeildar ríkislögreglustjóra og Isavia í aðdraganda og við framkvæmd aðgerðarinnar.“
Við þá könnun hafi ekkert komið í ljós sem benti til þess að embætti ríkislögreglustjóra hefði gefið Isavia fyrrnefnd fyrirmæli. Því sé líklegasta skýringin talin að beiðni lögreglu til Isavia hafi misskilist. Lögregla hafi aðeins beðið starfsmenn Isavia um að fá að athafna sig í næði á haftasvæði flugvallarins, en fréttamaður og tökumaður RÚV voru sem fyrr segir utan þess svæðis.
Þá segir jafnframt í svari ráðherra að lögð hafi verið áhersla á það í samskiptum lögreglu og Isavia eftir uppákomuna að ekki eigi að gera athugasemdir við það að fjölmiðlar taki myndir af aðgerðum stoðdeildar. RÚV greinir frá. Svar ráðherra í heild sinni má lesa hér á vef Alþingis.
Eins og greint var frá á þessum vettvangi í febrúar sl. sendi lögmaður BÍ formlega kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna þess sem félagið telur vera ófullnægjandi svör sem það fékk frá dómsmálaráðuneytinu við bréfi sem það sendi dómsmálaráðherra með spurningum um viðbrögð hans sem yfirmanns lögreglumála við „flóðljósamálinu“. Þingfyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar til dómsmálaráðherra var send í kjölfarið á þessum ófullnægjandi svörum ráðuneytisins við spurningum BÍ.
Umboðsmaður brást við kvörtun BÍ með því að senda dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem spurt er um ástæður þess að erindi BÍ til ráðuneytisins hafi af þess hálfu ekki verið talið veita tilefni til viðbragða. Umboðsmaður æskti svara frá ráðuneytinu fyrir 21. mars. Þegar þetta er skrifað, um miðjan maí 2023, hafði enn ekki fréttst frekar af svörum frá ráðuneytinu.
Eins og áður var greint frá hér á Press.is sendi Blaðamannafélagið dómsmálaráðherra bréf í janúar þar sem fjórum spurningum var beint til hans sem yfirmanns lögreglumála á Íslandi um þetta sama mál.