- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannafélag Íslands (BÍ) skorar á stjórnmálaflokka í aðdraganda alþingiskosninga 2024 að þeir beiti sér fyrir því að skapa umhverfi og aðstæður hér á landi þannig að öflugir, sjálfstæðir og frjálsir fjölmiðlar fái hér þrifist í þágu almennings og lýðræðis.
Fjölbreytt, frjálst og öflugt fjölmiðlaumhverfi er grundvöllur lýðræðislegrar umræðu og samfélags. Aukin skautun í opinberri umræðu og upplýsingaóreiða gerir það að verkum að aldrei hefur verið meiri þörf fyrir vandaða blaðamennsku. Á tímum sem algóritmar samfélagsmiðla sýna kannski bara eina hlið raunveruleikans, gervigreind rýfur mörkin milli þess raunverulega og óraunverulega, erlend glæpasamtök reyna að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar víða um heim og grafa undan samfélagslega mikilvægum stofnunum, hafa hefðbundnir fjölmiðlar verið að veikjast. Traustir fréttamiðlar sem ástunda fagleg vinnubrögð eru mikilvægasta vörnin gegn þessum hættum.
Rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi hefur veikst mjög á undanförnum árum, en þeirri þróun þarf að snúa við. Ástæðan er fyrst og fremst stórfelldar breytingar á fjölmiðlamarkaði með tilkomu erlendra efnisveitna, samfélagsmiðla og tæknirisa á borð við Facebook og Google sem soga til sín æ stærri hluta af auglýsingafé. Þá hefur samkeppnisstaða íslenskra fjölmiðla gagnvart þeim erlendu veikst auk þess sem færri eru tilbúnir til að greiða fyrir fréttir eða fréttatengt efni vegna aukins framboðs af fríu fréttaefni á netinu.
Staða fjölmiðla á Íslandi er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra heldur varðar samfélagið allt. Öflugir fjölmiðlar eru forsenda þess að hægt sé að veita stjórnvöldum og stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Þá styrkja þeir einnig íslenska tungu og menningararf.
Sú staðreynd, að Ísland hefur færst niður á lista Blaðamanna án landamæra (RSF) ár eftir ár er áhyggjuefni, ekki síst í ljósi þess að hinar Norðurlandaþjóðirnar raða sér í efstu sæti listans. Það ætti að vera markmið hvers lýðræðissamfélags að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öfluga, frjálsa og sjálfstæða fjölmiðlastarfsemi í landinu. Því skorar BÍ á þá flokka sem bjóða fram í komandi alþingiskosningum að taka upp neðangreindar tillögur að nauðsynlegum breytingum sem félagið telur styrkja stöðu fjölmiðla á Íslandi.
Að auki skorar BÍ á stjórnmálaflokka að hafa í huga samfélagslega ábyrgð sína og mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðislega umræðu á Íslandi þegar ákvörðun er tekin um birtingu auglýsinga, ekki síst í aðdraganda kosninga. BÍ mun óska eftir sundurliðun á því hve miklu fjármagni var varið til erlendra miðla annars vegar og íslenskra hins vegar að kosningum loknum.
Efnahagslegar forsendur fyrir rekstri fjölmiðla þurfa að vera fyrir hendi til þess að þeir geti sinnt hlutverki sínu sem helsti farvegur tjáningarfrelsis og aðhalds í landinu. Lagasetning um opinberan stuðning til einkarekinna miðla var mikilvægt skref í að viðurkenna mikilvægi fjölmiðla fyrir virkni lýðræðis í landinu og það aðhald sem þeir veita.
BÍ fagnar því að fráfarandi ríkisstjórn hafi ákveðið að fylgja fordæmi hinna Norðurlandanna sem hafa um langt skeið styrkt einkarekna fjölmiðla með ýmsum hætti. Nauðsynlegt er að auka það fé sem veitt er til einkarekinna fjölmiðla til samræmis við hlutfallið á hinum Norðurlöndunum, endurskoða úthlutunarreglur svo stuðningurinn nýtist sem best og gera úrræðið varanlegt svo fjölmiðlum sé tryggður fyrirsjáanleiki í rekstri.
Lagt er til að taka RÚV af auglýsingamarkaði sem BÍ telur nauðsynlegt skref í átt til hagfelldara rekstrarumhverfis fyrir einkarekna fjölmiðla. BÍ leggur þó höfuðáherslu á að RÚV verði ekki tekið af auglýsingamarkaði nema rekstur stofnunarinnar verði tryggður með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði sem vega á móti tekjutapi.
Þá er nauðsynlegt að tryggja fjárveitingu til RÚV til lengri tíma, til að mynda 8-10 ára í senn, og setja ákvæði inn í þjónustusamning þess efnis. Enn fremur þarf að tryggja sjálfstæði fréttastofu RÚV innan stofnunarinnar, til að mynda með því að girða fyrir að starfsemi fréttastofu RÚV verði skorin niður, fari svo að fjárveitingar til stofnunarinnar verði skertar.
BÍ hefur stofnað sérstakan samfélagssjóð til eflingar samfélagslega mikilvægrar blaðamennsku, Glætuna. Sjóðurinn á sér alþjóðlegar fyrirmyndir en tilgangur hans er að efla blaðamennsku með því að veita blaðamönnum styrki til að vinna að verkefnum sem krefjast tíma og úthalds - sem er sú blaðamennska sem hefur átt hvað mest undir högg að sækja - sem veitir aðhald, setur í samhengi og skýrir. BÍ mun styrkja sjóðinn um tiltekna upphæð árlega en til að hann verði nægilega burðugur til að uppfylla hlutverk sitt er nauðsynlegt að komi til opinbert fjármagn.
Mikilvægt er að stuðla að því að fjölmiðlar geti þróast í takt við breytt samkeppnisumhverfi, tækninýjungar og breyttar neysluvenjur. Með tilkomu gervigreindar skapast óendanleg tækifæri fyrir blaðamenn og fjölmiðla í vinnslu upplýsinga og miðlun þeirra.
Umbyltingin er þó ekki einföld og síður en svo ókeypis en sökum þess hve íslenska málumhverfið er lítið eru íslenskir fjölmiðlar ekki í stöðu til að keppa við erlenda miðla þegar kemur að því að þróa og nýta ný verkfæri sem gervigreindin býður upp á. Því er mikilvægt að ríkið stígi inn í með nýsköpunarstyrki fyrir fjölmiðla og stuðli að því að þeir geti nýtt nýja tækni til jafns við erlenda keppinauta.
Meðal þeirra aðgerða sem beitt er annars staðar á Norðurlöndum, og víðar í heiminum, til styrktar einkareknum fjölmiðlum eru ýmis konar skattaafslættir. Meðal þess sem grípa mætti til hér á landi er að afnema virðisaukaskatt áskrifta hjá öllum tegundum fréttamiðla.
Þá gefur hin alvarlega staða í rekstrarumhverfi fjölmiðla tilefni til þess að fjölmiðlum sé veitt undanþága frá greiðslu tryggingagjalds.
Mikil og brýn þörf er að ráðast sem fyrst í aðgerðir til að tryggja lagalega vernd og réttindi blaðamanna við störf. Tryggja þarf með lögum að blaðamenn fái flýtimeðferð í málum þar sem þeir eru til rannsóknar svo auka megi vernd blaðamanna gegn tilhæfulausum málsóknum eða rannsóknum.
Auka þarf fræðslu um hlutverk, stöðu og réttindi blaðamanna í dómskerfinu, svo lögreglan og dómarar séu meðvitaðir um mikilvægi blaðamanna í lýðræðissamfélögum.
Frjálst og auðvelt aðgengi að opinberum gögnum og öðrum upplýsingum stjórnvalda er grundvallarþáttur í lýðræðissamfélagi og til að styrkja tjáningarfrelsi. Ísland á að vera í fararbroddi í upplýsingarétti á heimsvísu. Því er mikilvægt að útvíkka gildissvið upplýsingalaga og endurskoða undanþáguákvæði til að tryggja að almannahagsmunir séu hafðir í forgrunni.
Jafnframt er nauðsynlegt að auka málshraða og stuðning við stofnanir við framkvæmd laganna. Þá þarf að festa í lög hlutverk blaðamanna í almannavarnaástandi til að tryggja að blaðamenn geti sinnt upplýsingahlutverki sínu í þágu almennings, enda ríkir um það samhugur milli ríkis og BÍ, skv. samkomulagi frá 4. apríl sl. sem var svohljóðandi:
Blaðamenn gegna veigamiklu eftirlits- og upplýsingahlutverki og ríkar ástæður þarf til að takmarka tjáningarfrelsi þeirra. Á grundvelli laga um almannavarnir hafa stjórnvöld tilteknar valdheimildir til þess að bregðast við með skjótum og markvissum hætti þegar hættuástand kemur upp, s.s. að takmarka aðgengi að tilteknum svæðum. Þær takmarkanir sem stjórnvöld kunna að þurfa að setja blaðamönnum í hættuástandi skulu að jafnaði ekki vera meiri en settar eru öðrum viðbragðsaðilum af öryggissjónarmiðum og skulu ennfremur taka mið af sértækum réttindum blaðamanna og hlutverki fjölmiðla.
Stefnumótun í málaflokki fjölmiðla er grundvöllur árangurs. Ráðherra menningar- og viðskiptamála lagði fram drög að tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla til 2030 þar sem kemur fram að „meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjölmiðlunar sé að viðhalda og efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku hér á landi með því að auka fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum og stefnt að því að skapa starfsumhverfi sem stuðlar að öflugri fjölmiðlun í almannaþágu með virkri þátttöku ólíkra og fjölbreyttra fjölmiðla um allt land.“
BÍ gerði ýmsar tillögur til úrbóta á stefnu stjórnvalda í umsögn sinni um málið en mikilvægt er að fjölmiðlastefna sé unnin áfram í næstu ríkisstjórn og komist til umræðu og samþykktar á Alþingi sem fyrst.
Sívaxandi hlutdeild erlendra tæknirisa í auglýsingamarkaði á Íslandi er verulegt áhyggjuefni. Nauðsynlegt er að skattleggja tekjur erlendra fyrirtækja af íslenskum auglýsingum og áskriftum og jafna þannig samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart þeim.
Þá eru einnig fordæmi fyrir því að erlendir tæknirisar greiði höfundaréttargreiðslur fyrir dreifingu á ritstýrðu efni. Tekjur af slíkri skattlagningu ættu að renna óskert til stuðnings íslenskra fjölmiðla.
Það ber vott um skilningsleysi á mikilvægi íslenskra fjölmiðla fyrir lýðræðislega umræðu að stjórnmálaflokkar og opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki skuli verja æ hærra hlutfalli auglýsingafjármagns til birtingar auglýsinga á erlendum miðlum.
BÍ skorar á stjórnmálaflokkana og stjórnvöld að setja skilyrðislausar takmarkanir á auglýsingum frá hinu opinbera í erlendum miðlum. Það skýtur mjög skökku við að ríkið sé að styrkja fréttamiðla með beinum hætti í formi styrkja og skattaívilnana vegna þess að erlendir tæknirisar hafa sogað til sín stóran hluta alls auglýsingafjár – á meðan ríkið er sjálft að kaupa auglýsingar hjá umræddum tæknirisum. Það er fullkomlega óeðlilegt að stjórnvöld séu að verja fjármunum í auglýsingar hjá fyrirtækjum sem greiða enga skatta hér á landi, né leggja neitt af mörkum til samfélagsins.
Blaðamannafélag Íslands, Síðumúla 23, 108 Reykjavík
Afgreiðslutími skrifstofu: mán-fim 9-15 fös 9-13.