- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sérstök fræðsluvika tileinkuð upplýsinga- og miðlalæsi er nú haldin í fyrsta skipti á Íslandi, þ.e. dagana 13.-17. febrúar. Fordæmi eru fyrir slíkum vikum í öðrum löndum og hefur vinnuhópurinn sem stendur að verkefninu, svonefnt tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi, verið í samstarfi við KAVI í Finnlandi og Medietilsynet í Noregi við undirbúning. Markmiðið mun vera að gera vikuna að árlegum viðburði þar sem lögð verði áhersla á vitundarvakningu á mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis ásamt því að bjóða upp á nýtt fræðsluefni með mismunandi þema milli ára.
Í tilefni að upplýsinga- og miðlalæsisvikunni hefur tengslanetið opnað nýjan vef tileinkaðan viðfangsefninu.
Hápunktur dagskrár upplýsinga- og miðlalæsisvikunnar verður málþing sem fer fram í fyrirlestrarsal Grósku í Vatnsmýri fimmtudaginn 16. febrúar kl. 9:00-12:00. Þar munu sérfræðingar á mismunandi sviðum miðlalæsis (upplýsinga-, mynd- og fjölmiðlalæsis) vera með erindi. Málþingið verður aðgengilegt í streymi (á vef Fjölmiðlanefndar) fyrir þau sem komast ekki á staðinn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun opna málþingið með ávarpi, en aðalfyrirlesarinn verður Stephanie Comey. Hún er sérfræðingur á sviði miðlalæsis og aðstoðarforstjóri írsku fjölmiðlastofnunarinnar (BAI) en það þykir áhugavert að líta sérstaklega til þeirra þar sem fyrirtæki á borð við Meta og Google eru með Evrópuhöfuðstöðvar sínar á Írlandi og falla því undir eftirlit þar. Á málþinginu munu síðan ýmsir sérfræðingar á sviði upplýsinga-, mynd- og miðlalæsis stíga á svið og miðla af þekkingu sinni ásamt því að kynna niðurstöður úr nýlegum rannsóknum. Þá mun málþinginu ljúka með pallborðsumræðum þar sem miðlalæsi verður rætt útfrá ýmsum hliðum.